c

Pistlar:

21. ágúst 2014 kl. 21:36

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hans Rosling og umræða um fátækt

Það er vel til fundið að fá hinn heimskunna sænska fyrirlesara og fræðimann Hans Rosling hingað til lands en hann heldur erindi í Reykjavík á vegum félagsins Afríka 20:20 í samstarfi við Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Hans Rosling er læknir í alþjóðaheilbrigðisvísindum og hefur vakið heimsathygli á síðustu árum fyrir heillandi framsetningu á tölfræðilegum gögnum. Sjálfsagt þekkja margir Rosling af fyrirlestrum hans á TED (Technology, Entertainment & Design). Eldmóðurinn skín af Rosling og hann kemur alltaf með nýja sýn á hlutina. Miklu skiptir að Rosling hefur tekist að varðveita bjartsýni sína á þróun heimsins án þess glata raunsæinu.  

Eitt af því sem Rosling fjallar mikið um er fátækt og hvernig heimurinn hefur smám saman verið að færast út úr skugga fátæktar. Umræða um fátækt er hins vegar vandasöm og hverfist oftar en ekki um þrönga pólitíska hagsmuni, svo sem hve stórt velferðarkerfið eigi að vera og hvort beita eigi skattkerfinu sem tekjujöfnunartæki. Undirritaður ætlar í tilefni komu Roslings að birta hér nokkra pistla þar sem fátækt verður til umræðu en til hans hefur áður verið vitnað á þessum vetvangi.

Hans Rosl

Hin hlutfallslega fátækt

Þó að flestir séu á því að Ísland sé ekki fátækt land þá deilir engin um að fátækt má finna hér á landi. Svo hefur reyndar verið frá því land byggðist og staða fólks í samfélaginu hefur mótast af efnahag öðru fremur. Á þetta höfum við verið minnt í skáldskap og frásögnum fyrri tíðar. Og þrátt fyrir að almennt sé ástandið hér á landi gott í samanburði við önnur lönd þá verður fátækt og efnahagslega staða fólks sífellt tilefni til umræðu. Það á líklega sérstaklega við um þær vikur þegar upplýsingar um skattgreiðslur fólks liggja fyrir og við getum mælt efnahagslega stöðu okkar og annarra í samanburði við þá viðmiðunarhópa sem tekjublöð fjölmiðlanna afhjúpa. Staðreyndin er sú að fátækt er hlutfallslega stærð hér á landi. Staða eins er mæld út frá stöðu annars. Hin fátæki er staðsettur út frá þeim efnislegu gæðum sem hann getur ekki notið í samanburði við þá sem hafa það betur. Það er allt önnur fátækt en sú örbyrgð sem fóstrar hungurvofuna.

Það sem af er ári hafa komið út tvær skýrslur um fátækt hér á landi og báðar vinna þær út frá hlutfallslegri fátækt. Í apríl kom skýrslu sem Barnaheill - Save the Children á Íslandi stóðu að.  Skýrslan er samstarfsverkefni Save the Children samtakanna í Evrópu um fátækt barna í álfunni. Skýrslan tekur til landanna 28 í Evrópusambandinu auk Íslands, Noregs og Sviss. Í maí kom síðan skýrsla Rauða krossins sem er yfirgripsmikil úttekt á því hvar kreppir að hér á landi. Hún tekur þeirri fyrri fram að dýpt og umfangi.

Í skýrslu Barnaheilla kemur fram að ójöfnuður er meginástæða fátæktar og félagslegrar einangrunar. Bilið milli ríkra og fátækra hefur aukist í mörgum ríkjum, niðurskurður verið á þjónustu við börn, einnig í hinum norrænu velferðarríkjum og ríkjum sem geta státað af efnahagsvexti undanfarin ár. Þar hafa börnin ekki fengið hlutdeild í þeim vexti. Frá 2008 - 2012 jókst fátækt á meðal barna í Evrópu úr 26,5% í 28%, eða um 1.000.000 börn. Þar af jókst fjöldi fátækra barna um 500.000 á tímabilinu 2011- 2012.

Í skýrslunni kom fram að á Íslandi jókst hættan á fátækt og félagslegri einangrun barna um 2,8% frá 2008 - 2012 og í dag væru um 16% barna á Íslandi í þessum hópi. Tala sem vakti furðu litla athygli þegar hún birtist, hvað sem veldur. Ef hún væri einhverstaðar nálægt því að vera sönn þá væri um að ræða reginhneyksli.

Þó að staðan á Íslandi sé að mörgu leyti góð þá var það niðurstaða skýrslu Barnaheilla að fátækt og ójöfnuður barna á Íslandi hafi aukist frá hruni. Þannig búi mörg börn við óviðunandi aðstæður hvað varðar húsnæði og er húsnæðiskostnaður mjög hár hlutfallslega af tekjum þeirra sem minnst hafa. Tekjur heimila, bæði hvað varðar laun og félagslegar bætur, eru helsti áhrifaþáttur barnafátæktar. Ójöfnuður er ekki einungis einn orsakavaldur fátæktar, heldur einnig afleiðing.  Börn sem alast upp við fátækt eru líklegri til að búa áfram við fátækt sem fullorðnir einstaklingar og fátæktin flyst á milli kynslóða. Ein áhugaverðasti kaflinn í skýrslu Rauða krossins fjallar einmitt um hvernig skilgreind fátækt í velferðarkerfinu ferðast á milli kynslóða í formi örorkumats.

Dregur úr fátækt á heimsvísu

Hér hefur í pistlum verið rætt um fátækt á heimsvísu meðal annars í tilefni þeirrar ákvörðunar ríkisstjórna heimsins að stuðla að því að fátækt í heiminum myndi minnka um helming fram til ársins 2015. Þetta var eitt af þeim mörgu markmiðum sem sett voru fram undir formerkjum aldamótamarkmiða (Millennium Development Goals - MDGs) Sameinuðu þjóðanna. Ríkisstjórnir um allan heim hétu því þá að berjast fyrir menntun og eyða hungri, fátækt og mannskæðum sjúkdómum fyrir árið 2015. Ýmsum þeirra markmiða sem þar voru sett hefur ekki verið náð. Svo sem að draga úr dauða sængurkvenna um ¾ og ungbarnadauða um tvo þriðju. Því miður eru ekki horfur á að þessum markmiðum verði náð í bráð. Betur gekk hins vegar með fátækt eins og komið hefur fram í undanförnum pistlum. Það sem meira er, það markmið náðist fimm árum fyrr en ætlað var. Samkvæmt heimasíðu átaksins tókst 38 löndum að ná markmiðum um útrýmingu hungurs fyrr en ætlað var. Því ber að sjálfsögðu að fagna sérstaklega.

Hin miklar breyting sem varð á örbirgð í heiminum á milli áranna 1990 og 2010 orsakaðist fyrst og fremst af auknum hagvexti. Á þessu árabili jókst verg landsframleiðsla (Gross national product, GNP) þróunarlandanna um 6% á ári sem er 1,5% meiri aukning en sást á árabilinu 1960 til 1990. Þetta gerðist þrátt fyrir að bankakrísan 2008-2009 hefði fallið inn þessa tímaramma. Þau svæði sem höfðu mesta örbirgð vaxa mest. Hagvöxtur var að jafnaði um 8% á ári í Austur-Asíu, 7% í Suður-Asíu, 5% í Afríku. Gróft viðmið segir að hvert prósent í hagvexti dragi úr fátækt sem nemur 1,7%.

Af öllu þessu má sjá að fátækt innan landa virðist vera aukast vegna þess að hún er að mæla hlutfallslega fátækt, meðal annars út frá mismunandi neysluviðmiðum. Á sama tíma virðist fátækt á heimsvísu vera að minnka. Er mótsögn í þessu falin?

Fjallað verður um þetta nánar í næstu pistlum.

 

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.