c

Pistlar:

3. júní 2018 kl. 12:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjómannadagurinn: 1.331 sjómaður til að minnast

Sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur fyrir 80 árum eða árið 1938. Síðan þá hafa 1.331 sjómaður látið lífið. Þeirra minnumst við í dag á sjálfan sjómannadaginn. Það þarf ekki að taka fram að sjóskaðar voru ekki síður algengir á skútuöldinni eða á fyrri tíð þegar Íslendingar brutust út fyrir brimgarðinn á árabátum, oft í fullkominni óvissu um hvort þeir kæmust til baka. Sjórinn hefur því krafist gríðarlegra fórna af þessari fámennu þjóð á hverri einustu vertíð í gegnum tíðina. Það er ekki fyrr en nú á seinni árum sem okkur hefur tekist að stöðva þessar fórnir.

Hið örlagaríka ár 2008 urðu þau tímamót að engin sjómaður fórst í sjóslysi við strendur landsins. Það hefur síðan endurtekið sig enda aðstæður og öryggi allt annað en áður. Árangurinn fer ekki milli mála og nú eru árin án banaslysa orðin fjögur; 2008, 2011, 2014 og 2017. Það sem af er árinu 2018 hefur engin sjómaður farist.sjomenn

Tölurnar frá fyrri tíð eru ótrúlegar. Á árunum 1900 til 1925 fórust að jafnaði 70 sjómenn á ári en árin 1928 til 1936 hafði þeim fækkað í 44 á ári að jafnaði. Árið 1941 er mesta slysaárið, sem um getur á 20. öldinni, en það ár fórust 139 lögskráðir íslenskir sjómenn. Heimstyrjöldin hafði líka áhrif hér á landi þó margir gleymi því. En breytingar hafa orðið.

„Við sjáum vel hvað breytingarnar eru miklar ef við förum liðlega 60 ár til baka og skoðum t.d. árið 1959 þegar 59 íslenskir sjómenn fórust,“ benti Jón Bernódusson, sérfræðingur í öryggismálum til sjós og fagstjóri rannsókna og þróunar hjá Samgöngustofu, í forvitnilegu viðtali viðtali við sjómannadagsblað Morgunblaðsins.

Má gera betur

Árangurinn er undraverður en það má gera enn betur og segir Jón að slysin séu sjaldan óhjákvæmileg. „Það er mín skoðun að það megi koma í veg fyrir um það bil helming allra slysa sem verða á sjó nú til dags. Mjög sjaldgæft er að banaslysin verði af eintómum klaufaskap heldur eru þau jafnan afleiðing af röð margra rangra ákvarðana.“

Tölfræðin sýnir að það eru ekki síst reyndari sjómenn sem þurfa að vara sig. „Árið 1996 gerði Kristinn Ingólfsson, deildarstjóri hjá Siglingastofnun Íslands, rannsókn á slysum um borð í skipum þar sem farið var af mikilli nákvæmni yfir það hverjir lentu oftast í slysum og kom í ljós að það voru einkum reyndustu mennirnir um borð,“ segir Jón í Morgunblaðsviðtalinu. „Það skýrist af því að reynsluboltarnir fara frekar í hættulegri verkin og biðja þá sem hafa minni reynslu að stíga til hliðar. Þetta sýnir vel það viðhorf sem hefur fylgt sjómönnum í gegnum tíðina að þeir verja hver annan, og hleypa ekki óvönum mönnum í eitthvað sem gæti orðið þeim hættulegt, heldur gera það frekar sjálfir.“

Hættulegasta starfið

Sjómennskan var tvímælalaust hættulegasta starf samfélagsins og er það enn þó mikið hafi breyst. Í lok síðustu aldar voru 25% allra slysa á Íslandi vegna slysa á sjómönnum, enda þótt þeir væru aðeins um 5% þeirra sem störfuðu á íslenskum vinnumarkaði. Hafa verður í huga að nánast öll banaslys og mikill meirihluti annarra slysa eiga sér stað á fiskiskipum.

En hvað veldur þessari breytingu, af hverju tekur sjórinn ekki lengur sinn toll? Hér hefur áður í pistlum verið bent á líklegar skýringar. Útgerð hefur breyst gríðarlega hér á landi og ekki síst síðustu áratugi vegna kvótakerfisins. Kvótakerfið gerði það að verkum að útgerðum var kleyft að stýra sókn sinni miklu betur og þörfin fyrir að sækja sjóinn í hvaða veðri sem er hvarf. Um leið stækkuðu skipin og sérhæfing sjómanna jókst. Nýliðum fækkaði, sjómennskan varð smám saman að meira fagi þar sem hver og einn um borð hafði skilning og þekkingu á sínu starfi og þeim hættum sem því fylgdi. Um leið og skipin bötnuðu voru öryggismálin tekin fastari tökum. Slysavarnaskóli sjómanna, sem stofnaður var árið 1985, hefur leiki þar stórt hlutverk.

Ný vandamál

Áfram þarf að taka öryggismálin alvarlega. Spurður um nýjar áskoranir í öryggismálum sjómanna nefnir Jón að upp á síðkastið hafi erlendum áhafnarmeðlimum farið fjölgandi hjá íslenska fiskveiðiflotanum. Í grein Morgunblaðsins er bent á að sjómönnum frá EES-löndunum sé frjálst að vinna á íslenskum skipum, svo fremi að þeir hafi útskrifast frá Slysavarnaskólanum. Jón segir vissara að gæta þess að tungumálaörðugleikar um borð auki ekki líkurnar á óhöppum. „Það er hugsanlegt að með fleiri erlendum skipverjum verði þetta að vandamáli enda áríðandi að öll fyrirmæli skiljist vel. Ósköp sakleysislegur misskilningur getur skapað hættu bæði fyrir þann sjómann sem ekki skilur og fyrir hina sem vinna með honum.“ Undir það skal tekið, við verðum að halda vöku okkar.

Um 2000 skip og bátar eru skráð á Íslandi, flest fiskiskip, en um 5000 manns hafa atvinnu á sjó hér á landi, auk íslenskra kaupskipasjómanna sem sigla að og frá landinu á erlendum skipum. Þessi hópur skiptir gríðarlega miklu máli fyrir efnahag landsins.

Við óskum sjómönnum til hamingju með daginn.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.