c

Pistlar:

25. nóvember 2018 kl. 12:20

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Allar skuldir tengdar hruninu fullgreiddar

Sumar fréttir vekja ekki mikla athygli. Ein kom frá fjármálaráðuneytinu þessa vikuna og segir frá því að ríkissjóður hafi keypt í vikunni eigin skuldabréf af Seðlabanka Íslands samtals að fjárhæð 24 milljarðar króna. Um er að ræða óverðtryggð ríkisbréf í flokkunum RIKB 20, RIKB 22, RIKB 25 og RIKB 31 fyrir samtals um 22,5 milljarða króna að nafnvirði og í flokknum RIKS 21 fyrir um 0,3 milljarða króna. Þú þarft að vera hálfgerður skuldabréfanörd til að hafa gaman af svona skammstöfunum. Í þessu felast merkileg tíðindi en í frétt Morgunblaðsins kemur fram að með þessu séu allar skuldir beintengdar bankahruninu fullgreiddar. Það eru auðvitað talsverð tíðindi en hér í síðasta pistli var bent á að Grikkir verði allt til ársins 2059 að greiða til baka sín lán, að því tilskyldu að þeir taki ekki ný lán á tímabilinu.skuld

En eins og þeir sem eru glöggir í reikningi hafa áttað sig á þá nemur heildarkaupverð bréfanna með áföllnum vöxtum um 25 milljarða króna. Ríkið er semsagt að kaupa eigin skuldabréf. Og kaupin eru annars vegar fjármögnuð með andvirði stöðugleikaeigna eða 17,5 milljarðar króna og hins vegar með lækkun á almennri sjóðsstöðu ríkissjóðs um 7,5 milljarða króna. Ríkissjóður mun í kjölfarið innleysa bréfin og lækka útistandandi skuldir um samsvarandi fjárhæð.

Ótrúleg umskipti í skuldastöðu þjóðarbúsins

Eftir þessi viðskipti nema heildarskuldir ríkissjóðs um 843 milljörðum króna, eða sem samsvarar rétt rúmlega 30% af landsframleiðslu. Hrein staða ríkissjóðs reiknuð á grundvelli laga um opinber fjármál, þ.e. þegar sjóðir og innstæður eru dregnar frá heildarskuldum, nemur eftir viðskiptin um 653 milljörðum króna eða sem nemur um 23% af vergri landsframleiðslu (VFL). Skuldastaða Íslands er með eindæmum en sem dæmi má nefna að skuldastaða Ítalíu nemur núna 134% af VLF.

Fjár­málaráðuneytið bend­ir á, að á síðustu sex árum hafi skuld­ir á hvern íbúa í land­inu lækkað um helm­ing. Í ágúst var upplýst að skuld­ir rík­is­sjóðs hefðu lækkað um rúma 88 millj­arða króna á síðustu 12 mánuðum. Skuld­irn­ar hefðu þá lækkað um rúm­ar 240 millj­ón­ir á dag, eða um 10 millj­ón­ir á klukku­stund. Þessi uppgreiðsla núna lækkar auðvitað skuldir landsmanna enn frekar.

Vert er að hafa í huga að allt þetta skýrist af því að umtalsverð verðmæti féllu til ríkissjóðs þegar slitabúin greiddu stöðugleikaframlögin. Bundið var í lög að þeim skyldi varið til lækkunar á skuldum ríkissjóðs, sem þá voru vel yfir þúsund milljarðar króna eða nánar tiltekið 1.338 milljarðar króna í lok ársins 2015. Með því átti að vernda bæði efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Nú loksins eru Íslendingar með öfundsverðar horfur enda fáir ríkissjóðir með jafn lága skuldastöðu.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.