c

Pistlar:

8. september 2020 kl. 21:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Pilsfaldakapítalismi á tíma farsóttarinnar

Mörgum finnst gaman þessa daganna að taka sér í munn orðið pilsfaldakapítalismi. Að ástandið nú í miðjum faraldri hafi afhjúpað veikleika markaðsþjóðfélagsins og nú sé það upp á ríkið, hina sameiginlegu sjóði, að bjarga því sem bjargað verður. Þau fyrirtæki sem veltast um í ólgusjó stjórnvaldsákvarðana, hafta, sóttkvía og almennra takmarkanna og glepjast til þess að nýta sér þau úrræði sem boðið er uppá eru þannig vitnisburður um að kapítalistar eru upp til hópa aumingjar sem vilja ekkert frekar en skríða undir pilsfald ríkisvaldsins. Hið raunverulega eðli kapítalista afhjúpast og allt verður þetta skýr vitnisburður um að markaðsþjóðfélagið má sín lítils, allt veltur á ríkinu þegar upp er staðið. Einkavæðum hagnaðinn og ríkisvæðum tapið, hljómar nú á torgum.sedlar

Já, þetta er nöturlega staða fyrir markaðssinna, þá sem trúa því að frjáls viðskipti og samkeppni manna í milli tryggi best hagsæld í samfélaginu. Í raun skiptir litlu hvað menn telja að ríkisvaldið eigi að vera stórt þegar lýðréttindi eru skert og athafnafrelsi er sett undir takmarkanir almannavarna. Að öll mannanna verk verði að metast af hagsmunum samfélags sem er að glíma við utanaðkomandi vá og réttur einstaklingsins er metin út frá því hvaða hættu hann skapar fyrir aðra. Veiran er því eins og innrásaher sem knýr samfélagið til að skríða í skel sína og takmarka öll mannleg samskipti. Venjulegt frjálst hagkerfi þrífst ekki þegar búið er að færa stjórn samfélagsins undir almannavarnir. Og öll úrræði miðast við að tryggja að þjóðfélagið haldi áfram sem áfallaminnst að mati þeirra sem stýra almannavörnum. Á tímum innrása eru völdin færð til hersins, í nútímasamfélaginu er það fært til fjármálaráðherra og seðlabankans.

Vopnið eina

Staðreyndin er sú að ríkisvaldið hefur yfir að ráða eina vopninu sem dugar í kreppu þar sem öðrum lögmálum framboðs og eftirspurnar hefur verið kippt úr sambandi, en það er valdið til að prenta seðla. Það er nefnilega svo að fá eða nokkur samfélög í dag geta sætt sig við að herða sultarólina og við borgararnir viljum ekki neita okkur um nein þau gæði sem við vitum að eru til staðar. Breytir engu þó við höfum ekki efni á þeim lengur. Að ein kynslóð hafi það lakar en sú síðasta er fráleitt. Þetta sést vel á því að margir virðast telja sjálfsagt að hækka laun þegar verðmætasköpun í hagkerfinu er farin fjandans til og augljóst að engin innistæða er fyrir því. Þess vegna eru allir sammála um að prenta meiri peninga og halda því áfram. Ríkisvaldið getur gert þetta í eigin reikning (hafi það sinn eigin gjaldmiðil) og rekið sig með halla um óskilgreinda framtíð. Einstaka hagfræðingar og seðlabankastjórar geta haft uppi almenn varnaðarorð en ólíklegt er að á þá verði hlustað. Það er jú vitað að peningaprentun, umfram framleiðni í þjóðfélaginu, skapar ekki verðmæti heldur veldur hún verðbólgu og lækkandi gengi, svona að lokum. En kannski getum við horft framhjá þessari döpru framtíðarsýn núna því að þessi seðlaprentun er ekki aðeins til að mæta þörfum ríkisvaldsins heldur þarf einnig að mæta þörfum sveitafélaganna í landinu og allra annar sem telja sig hafa svo mörg brýn verkefni að frá þeim verður ekki horfið.

Þegar einu sinni er búið að ákveða að fara leið seðlaprentunar, magnbundinnar íhlutunar eða hvað það allt heitir þá er sjálfsagt að taka atvinnulífið með. Í stað þess að lækka skatta og gjöld, draga úr kostnaði fyrirtækja eða bjóða almenn úrræði sem lækka kostnað þeirra til langframa er þeim boðið að falla á hné fyrir framan seðlaprentunarvélarnar. Hér hefur verið bent á áður að hlutabótaleiðin var hugsanlega tálsýn, sama má segja um ríkisstyrkta greiðslu á uppsagnartíma en þegar svona úrræði eru boðin sjá menn oft ekki önnur úrræði en að taka þeim. Frestur er jú illu bestur, allir reyna að forðast gjaldþrot. Þannig verður þjóðfélag pilsfaldakapítalismans til.