c

Pistlar:

3. apríl 2021 kl. 16:39

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Eru þið búnir að borga frúnni?

Fyrir stuttu heyrði pistlaskrifara frásögn af því þegar nokkrir viðskiptamenn frá Íslandi voru komnir alla leiðina til Mið-Ameríkuríkisins Níkaragva til að efna til viðskipta á sviði jarðvarmavirkjana. Á móti þeim tók hópur embættismanna sem flestir höfðu lært sitt fag við Jarðhitaháskóla Sameinuðu þjóða hér á Íslandi en sú starfsemi hefur eflt þekkingu og styrkt samskipti Íslendinga við jarðhitasérfræðinga víða um heim. Það voru því fagnaðarfundir en fljótlega færðist alvara í leikinn og embættismennirnir frá Níkaragva spurðu: Eru þið búnir að borga frúnni? Það kom á Íslendinganna en svo fengu þeir skýringu. Allir sem eiga viðskipti í þessu ágæta landi þurfa að greiða inn á reikning forsetafrúarinnar Rosario Murillo áður en nokkur viðskipti geta átt sér stað. Hún er varaforseti landsins og hefur að sumra mati verið starfandi forseti undanfarið en eiginmaður hennar, Daniel Ortega, er orðin 74 ára og hefur átt við vanheilsu að stríða. Það þarf ekki að koma á óvart að reikningar forsetafrúarinnar eru erlendis en forsetafjölskyldan hefur efnast gríðarlega á meðan Ortega hefur verið við völd eins og áður hefur verið vikið að hér.ortega

Níkaragva er núna 151 sæti á spillingarlista Transparency International og flestir eru sammála um að spilling er alvarlegt vandamál í þessu landi eins og hefur verið bent á áður hér í pistlum. Hugveitan Freedom House hefur verið með Níkaragva á válista síðan sandínistinn Ortega tók aftur við völdum 2006 en samtökin telja að síðan hafi lýðræði í landinu jafnt og þétt hnignað. Það er breyting sem flest lönd sem kjósa yfir sig sósíalista eiga að venjast. Sama þróun hefur verið í öðrum löndum Mið- og Suður-Ameríku í kjölfar þess að sósíalistar komast til valda. Saga þeirra er grimmúðleg í Níkaragva en á fyrstu árum sandínista við völd snérust þeir meðal annars gegn frumbyggjasamfélögum sem höfðu þó fengið að vera í friði hjá hinni illræmdu Somoza-stjórn. Sandínistar juku mannréttindabrot til að koma í veg fyrir að fólk gæti nýtt sér lýðræðislegan rétt sinn. Um þetta er fjallað með skýrum hætti í Svartbók Kommúnismans sem kom út í íslenskri þýðingu 2009.Daniel-Ortega1

Samstaða og sósíalismi á auglýsingaskiltum

Í fátæktarhverfum Managva, höfuðborgar Níkaragva, má sjá risastór auglýsingaskilti með myndum af forsetanum þar sem hann lofar fátæklingunum samstöðu og sósíalisma. Daniel Ortega er gamall marxisti og lærði byltingafræði sín á Kúbu, undir handarjaðri Fidel Castro (1926-2016). Ronald Reagan (1911-2004) taldi hann hættulegan í byltingaumhverfi áttunda áratugar síðustu aldar og kallaði hann „litla einræðisherrann“. Ortega er einn af þeim leiðtogum Mið- og Suður-Ameríku sem hefur ætlað sér að byggja upp sjálfstæða utanríkis- og efnhagsstefnu og þá án afskipta Bandaríkjamanna, höfuðóvinar Suður-Amerískra sósíalistaleiðtoga. Ortega hefur þannig oft fetað í fótspor þeirra Castro og Hugo Chavez (1954-2013) og reynt að byggja brýr yfir til leiðtoga sem ögra valdi Bandaríkjamanna. Hann átti þannig nokkur samskipti við Muammar Gaddafi (1942-2011) og var sæmdur mannréttindaverðlaunum kenndi við Gaddafi (Al-Gaddafi International Prize for Human Rights) árið 2009 en þeir Evo Morales, Hugo Chaves og Fidel Castro fengu allir þessi verðlaun. Síðastur til að fá þau var Recep Tayyip ErdoÄŸan, forseti Tyrklands.

Óöldin hefst

Í apríl 2018 kynnti Ortega fyrir þjóðinni samfélagslegar „umbætur“ sem fólu í sér skattahækkanir og skerðingu á félagslegum bótum. Í kjölfarið fóru fjölmenn mótmæli fram í mörgum borgum landsins, meðal annars í Managua, sem aðallega voru skipuð háskólanemum, eldri borgurum og öðrum aðgerðasinnum. Ríkisstjórn Ortega brást við mótmælahrinunni með því að taka upp harða og ofbeldisfulla kúgunarstefnu sem ekki hefur þekkst í landinu í mörg ár.

Amnesty International hefur haldið skrá um það sem hefur gengið á undanfarin ár en á fyrsta degi mótmælanna voru þrír myrtir, tveir nemendur og einn lögreglumaður, auk þess sem tugir særðust bæði af hendi lögreglu, hers, og vopnaðra hópa sem annaðhvort starfa fyrir ríkisstjórn landsins eða án afskipta hennar. Stuðningur vopnaðra hópa hefur gert ríkisstjórninni auðveldara fyrir að fela ofbeldisverk sín og auka á kúgunina.

Þá hafa rúmlega 2000 einstaklingar særst frá upphafi mannréttindaneyðarinnar og hundruð sætt geðþóttahandtökum. Í lok árs 2019 voru 65 einstaklingar enn í varðhaldi af pólitískum ástæðum. Amnesty International hefur skráð fjölda annarra tilfella alvarlegra mannréttindabrota í landinu, þeirra á meðal pyndingar og aftökur án dóms og laga. Tugir þúsunda hafa neyðst til að flýja til Kosta Ríka segir í samantekt Amnesty.

„Þessi mikli fjöldi mótmælenda sem lét lífið er skýr vísbending um að óhóflegri valdbeitingu hafi verið beitt í trássi við reglur um nauðsyn og meðalhóf, eins og krafist er í alþjóðalögum,“ segir í samantekt Amnesty International. Því miður virðist staða almennings í Níkaragva lítið batnað.