c

Pistlar:

7. maí 2021 kl. 17:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ris og fall indverskra auðmann

Á Netflix má finna skemmtilega heimildarþáttaseríu sem kallast Bad Boy Billionaires: India. Eins og nafnið gefur til kynna þá er þar fjallað um nokkra heldur djarfa indverska athafnamenn og ris og fall þeirra rakið. Mest hafði pistlahöfundur gaman af sögu Vijay Mallya sem efnaðist gríðarlega og stofnaði flugfélagið Kingfisher Airlines árið 2005. Félagið náði góðri markaðsstöðu sem lággjaldaflugfélag en svo fékk Vijay Mallya áhuga á að reka stærra og flottara flugfélag og þá hallaði hratt undan. Það er með ólíkindum að sjá hve nákvæmlega Skúli Mogensen í WOW air tókst að afrita mistök Vijay Mallya sem var frægur að endemum fyrir lífshætti sína og kallaður Kóngur góðra tíma (King of Good Times) þó það konungsveldi stæði ekki mjög lengi! Saga hans er eitt sannkallað skemmtanaævintýri en á hápunkti þess keypti hann Formúlu 1 lið. Nema hvað! Að lokum féll veldi Vijay Mallya undan ofurskuldum, hann flúði land um tíma og þó að hann hafi enn nokkur ítök er viðskiptaveldi hans ekki nema svipur hjá sjón. Upphaf ferils hans má rekja til brugghúsa sem hann erfði eftir föður sinn. Saga hans er sannarlega þess virði að skoða.bill

Ríkastur og nískastur

En þessar sögur draga líka fram þær gríðarlegu breytingar sem hafa átt sér stað í þessu næst fjölmennasta ríki heims og fjölmennasta lýðræðisríki heims. Efnahagslegur uppgangur hefur verið mikill og margvísleg höft og takmarkanir sem hafa verið á rekstur og viðskipti hafa horfið. Frá gamalli tíð hafa verið auðmenn á Indlandi og nutu þeir ýmissa fríðinda. Gaman er að lesa gamlar frásagnir af þeim. „Ríkasti maður Indlands var jafnframt sá sem nízkastur var - furstinn af Hayderbad. Hann átti sam svarar 27 miljörðum króna. Þessi „trúi bandamaður brezku stjórnarinnar" eins og það hét, taldi á hverjum degi eðalsteina sína, sem hann geymdi í kókiakólaflöskuin og niðursuðudósuim. En hann skipti um næirföt á þriggja vikna fresti og stagaði í göt á fötum sínum sjálfur - í spamaðarskyni,“ skrifar Þjóðviljinn árið 1970 og virðist frásögnin ekki alveg laus við að bera með sér smá rasisma.

177 milljarðamæringar

Í dag eiga Indverjar 177 milljarðamæringa í bandaríkjadölum talið. Kínverjar eiga 1.000 slíka og Bandaríkjamenn 700. Aðrir eru færri en samkvæmt nýrri talningu Forbes eigum við Íslendingar tvo, Þá Björgólf Thor Björgólfsson og Davíð Helgason. Indverskum milljarðamæringum hefur fjölgað hratt en þeir voru um 100 árið 2017. Um leið hefur uppspretta auðs þeirra breyst en á tímabili voru Indverjar frægir fyrir stálkonunga sína og menn sem efnuðust í gegnum þungaiðnað, bygginga- og efnaiðnað og aðra mannaflsfreka starfsemi. Í dag sækja þeir uppruna sinn í hátækni og lyf. Indversk viðskiptalíf er að þróast hratt og þó að landið eigi við tímabundna erfiðleika að etja út af kórónaveirunni þá hefur það sýnt furðu mikinn stöðugleika sem lýðræðisríki og haft ótvíræða tilburði til að bæta samkeppnisstöðu viðskiptalífsins. Nú efnast menn með því að koma með nýjar vörur og þjónustu á neytendamarkaði eins og var í tilefni Vijay Mallya.

Í skýrslunni Hurun Report er haldið yfirlit yfir indverska auðmenn. Eins og áður sagði fjölgar þeim hratt og á milli skýrslan bættust 50 við á milljarðalistann en aðeins 10 duttu út. Um leið hafði auður ríkustu Indverjanna aukist um sem svarar 740 milljörðum dala. Það virðist því ekkert lát á auðsöfnun í Indlandi þessi misserin undir stjórn Narendra Damodardas Modi hvað sem verður.