c

Pistlar:

25. ágúst 2021 kl. 21:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Orkustefna - grænir en hversu vænir?

Loftslagsmálin hafa gripið umræðuna undanfarið í kjölfar nýrrar skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Það er gjarnan sagt í upphafi umræðu um hana að viðkomandi hafi nú ekki lesið skýrsluna en þrátt fyrir það eru margir tilbúnir að leggja út af henni. Meðal annars með það að markmiði að flýta öllum markmiðssetningum Íslands sem og annarra landa í loftslagsmálum. Til þessa hafa ekki farið saman orð og efndir eins og rakið hefur verið hér áður.orka

Það hefur verið stefnumið að Ísland verði jarðefnaeldsneytislaust árið 2050. Það er auðvitað flókin aðgerð en velnáanlegt markmið, sérstaklega á Íslandi sem hefur flestum þjóðum meira af grænum virkjanakostum. Segja má að Íslendingar búi við þá öfundsverðu stöðu að geta tryggt sér farsæla græna framtíð með alla þá kosti sem landið hefur á sviði grænnar orku eins og oft hefur verið vikið að hér í pistlum. En auðvitað er það ekki eins einfalt og margir halda eins og forráðamenn Samorku hafa verið að benda á nú nýlega. Til þess að uppfylla markmið þarf að halda áfram að virkja. Sem betur fer eru orkukostir margir en auðvitað ekki óumdeildir. Ekkert sem maðurinn gerir og kallar á rask er óumdeilt. Verst er að það ferli sem sett var með Rammaáætlun er allt upp í loft vegna pólitískrar óeiningar sem tekur í raun úr umferð þá aðferðafræði sem mestu skiptir.

Vernd og nýting í samhengi

Upphaf lagasetningarinnar um Rammaáætlun má rekja til þess vilja að menn vildu reyna að búa til ferli sem gæti skapað skynsama sátt. Kveðið var á um að eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti liggi frami á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í verndar og orkunýtingaráætlun skal í samræmi við markmið laga lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þar með talið til verndunar. Verndar- og orkunýtingaráætlun tekur til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn hefur fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira, eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira. Þetta virkar nógu einfalt en er það ekki í framkvæmd.

Höfum í huga að orku- og veituþjónusta er sú grunnþjónusta sem allt samfélagið byggir á og er undirstaða lífsgæða í landinu. Skilvirkur orku- og veitugeiri er einnig forsenda þess að standast alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og til að nýta þau sóknarfæri sem gefast nú þegar eftirspurn eftir grænum lausnum eykst um allan heim. Við höfum margt áhugavert fram að færa þar.

Bestu kostina þarf að finna

Orkustefna fyrir Ísland til ársins 2050, sem unnin var í þverpólitísku samstarfi, leggur áherslu á orkuöryggi, orkuskipti, að lágmarka sóun, fullnýtingu auðlindastrauma og að hámarka verðmætasköpun, um leið og gætt er að náttúru og umhverfi. Til að ná markmiðum í loftslagsmálum verður að virkja meira. Íslendingar hafa í könnunum verið hlynntir áforum að virkja meira en haft meiri efasemdir um einstaka virkjanakosti. Sem betur fer höfum við Íslendingar tíma og þekkingu til að velja bestu kostina ef skynsemi fær að ráða. Við verðum að treysta á það.