c

Pistlar:

25. október 2021 kl. 18:14

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þétting byggðar á kostnað lífsgæða


Lengi vel gerðu Reykvíkingar grín að Kópavogsbúum fyrir hve illa væri staðið að gatnagerð og skipulagi þar í bæ. Kópavogur þróaðist sem íbúðabyggð án þess að hafa fasta kjarna eða heildarhugsun í samgöngum, bærinn var meira viðbragð við því sem gerðist í nágranasveitarfélögunum. Ýmislegt hefur þróast til betri vegar í Kópavogi á meðan hallað hefur undan fæti í Reykjavík en þá er ekki átt við nýjar hugmyndir um miðbæ Kópavogs. Þegar skipulagsmál í Reykjavík eru skoðuð er farið að örla á því að heildarsýn í skipulagi hafi horfið en í staðinn komið einbeittur vilji til að móta hegðun borgarbúa, sérstaklega þegar kemur að samgöngum. Samhliða þessu eru valkostir teknir í burtu án þess að nýir komi í þeirra stað.

Það er alveg hægt að sætta sig við ákveðna þéttingu sem byggist á betri nýtingu svæðis sem getur síðan stuðlað að betri nýtingu innviða. Þetta er hins vegar vandasamt ferli. Það blasti við að Reykjavík var gisin að sumu leyti en það er hins vegar fráleitt að ætla að bera hana saman við heimsborg eins og París, en Parísar-miðjan svokallaða er líklega þéttbýlasta borgarsvæði heims. Þar búa ríflega tvær milljónir manna á um 100 hektara svæði. Á stór-Parísarsvæðinu búa um 12 milljónir manna, helmingurinn í einhverskonar nágranabæjum.reykj1

Lykillinn að þéttleika Parísar felst í fimm hæða húsum sem standa þétt en tryggja þó birtu inn til íbúanna. Undir öllu er eitthvert besta jarðlestarkerfi heims og þá tryggir hringvegurinn að hægt er að fara hratt yfir þegar þangað er komið og ferðast þannig milli hverfa. Þetta þekkja Íslendingar sem koma til Parísar með leigubíl frá flugvöllunum tveimur. Augljóslega skortir Reykvíkinga tvennt til að bera sig saman, öflugt jarðlestarkerfi og hringtengingu. Hringvegurinn, Boulevard Périphérique, stundum einfaldlega kallaður Périph gerir fólki kleyft að keyra á 30 mínútum hringinn í kringum miðborg Parísar. Á Périph eru fjórar akreinar í hvora átt og þar má keyra á 70 km hraða. Þessi vegur er lykilvegur fyrir flesta sem koma til Parísar og leita inngöngu í miðbæinn. Samgöngur Parísar eru sífellt til endurskoðunar og stjórnmálamenn sjá þar tækifæri eins og má lesa hér.

Grunnþáttur skipulagsmála

Gestur Ólafsson skipulagsfræðingur skrifar áhugaverða grein í Morgunblaðið í dag. Þar bendir hann á þau augljósu sannindi að skipt alla miklu hvernig þéttbýli er skipulagt og byggt því það hefur daglega áhrif á okkur öll á fjölmörgum sviðum. Gestur segir að grundvallaratriði skipulags þéttbýlis ættu að vera flestum ljós, það ætti að vera bæði hagkvæmt í byggingu og rekstri, heilsusamlegt og vistvænt, svo eitthvað sé nefnt. Undir það skal tekið og áréttað að borg verður að skipuleggja þannig að borgarbúum líði vel og þeir séu öruggir. Fjölskyldan og barnvænleiki umhverfis skiptir þar höfuðmáli. Í síðasta pistli um Vogahverfið mitt er einmitt verið að lýsa yfir áhyggjum af því að frá þessum þáttum sé verið að hverfa í jafn rótgrónu hverfi og Vogarnir eru.

Gestur bendir á að mistök í skipulagsmálum geti verið fljót að kosta háar upphæðir. Vanhugsaðar aðgerðir geti þannig orsakað margra milljarða skaða fyrir viðkomandi svæði og
samfélög sem erfitt eða ómögulegt getur verið að bæta úr. Gestur segir að þetta eigi ekki síst við um gatnakerfið þar sem við daglegan rekstrar- og notkunarkostnað bætist líka tafakostnaður sem nú er talinn nema jafnvirði einnar loðnuvertíðar á ári. Ótrúlegar tölur en tafakostnaður er nokkuð sem borgarstjórnaryfirvöld neita að ræða.reykja2

Er hægt að treysta þéttingarstefnunni?

Gestur spyr hvort stjórnmálamenn og almenningur á höfuðborgarsvæðinu treysti þeirri „þéttingarstefnu“ sem núna er rekin? Hann spyr hver taki á henni faglega ábyrgð? Einnig hvort þétting byggðar lækki raunverulega útblástur gróðurhúsalofttegunda en hann segir að nýlegar rannsóknir draga þetta mikið í efa.

Gestur segir að hafa verði í huga að í langan tíma hafi dregið verulega úr þéttleika borga enda hafi fólk unnvörpum flúið þennan þéttleika. Fyrir því séu margar ástæður segir Gestur og nefnir að fólk vilji meira rými, sólarljós og birtu, græn svæði til útivistar og manneskjulegra umhverfi til að ala upp börnin sín í og hvílast. Mikið af þessu hafi ekki verið fyrir hendi í þéttbyggðum borgum fortíðarinnar. Hugleiðingar Gests eru áhugaverðar enda mikilvægt að skoða skipulagsmál með það að markmiði að auka ánægju og vellíðan fólks. Skipulag umferðarmála, þétting byggðar og uppbygging nýrra hverfa í Reykjavík gerir það tæplega.

Fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar var hér í pistli fjallað um skipulagsmál. Sem fyrr verða Reykvíkingar að knýja á um skýra sýn borgaryfirvalda í þessum málaflokki enda mikið í húfi.