c

Pistlar:

27. desember 2021 kl. 11:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Össur: Farsæll forstjóri kveður

Það er merkilegt að líta yfir þróun og sögu stoðtækjafyrirtækisins Össurar nú þegar farsæll forstjóri fyrirtækisins, Jón Sigurðsson, lætur af störfum. Jón tók við fyrirtækinu árið 1996 og þá voru um 40 starfsmenn hjá félaginu sem var nýlega komið af sprotastiginu. Nú þegar hann lætur af störfum eru starfsmenn um 4.000 talsins og félagið öflugt á alþjóðlegum markaði og leiðandi á sumum sviðum. Vöxtur þess hefur verið að meðaltali 18% frá því að Jón tók við stjórnartaumunum. Þessi saga er um margt einstök en að hluta til saga íslensks viðskiptalíf undanfarna áratugi en Össur er mörgum fyrirmynd.

Pistlaskrifari hóf störf á Viðskiptablaðinu árið 1995 og hafði tekið viðtal við forvera Jóns en Össur var á þeim tíma forvitnilegt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða en fáir höfðu hugmyndaflug í að sjá að það gæti þróast á alþjóðavísu. Ég tók svo viðtal við Jón skömmu eftir að hann tók við störfum og upplifði nýja sýn á möguleika félagsins. Þá átti ég þess kost að fara til Kaliforníu þegar Flex-Foot fyrirtækið var keypt en það reyndist lykill að frekari vexti Össurar. Það var fróðlegt að kynnast fyrirtækjamenningu bandarískra fyrirtækja í þessari ferð og sérstaklega að sjá hve ófeimnir Bandaríkjamenn voru við að sýna að þeir notuðu stoðtæki.jonsig

Nú fyrir hátíðarnar var áhugavert viðtal við Jón Sigurðsson í Dagmálaþætti Morgunblaðsins. Þar rifjar Jón upp að það voru tilviljanir sem réðu því að hann tók að sér að leiða fyrirtækið. Réttilega segir hann að margar áskoranir hafi beðið þess eins lítið og það var þá og aðeins með eina vöru á boðstólum, sílikonhulsuna. Jón rifjar upp í viðtalinu að starfsmenn fyrirtækisins hafi stöðugt þurft að halda vöku sinni og að uppbygging þess hafi verið barátta frá degi til dags.

„Það vantaði rekstrarfé og ég man að ég ræddi við Sigurð B. [Stefánsson] hjá Íslandsbanka því bankalán voru ekki í boði þá. En þá var farið að gefa út skuldabréf og fyrsta útboðið okkar minnir mig að hafi verið 50 milljónir íslenskar. Það var nóg sem rekstrarfé fyrir okkur í talsverðan tíma. Það gaf okkur andrými til að vinna að þeim fyrirætlunum sem við vorum með þá,“ segir Jón í Dagmálaþættinum.

Mikilvægt hlutverk bankamanna

Fljótlega eftir að Jón tók við starfinu hjá Össuri hófst undirbúningur að því að skrá fyrirtækið á markað sem var eftirtektarvert framtak og lýsti djörfung og framtíðarsýn. Á þeim tíma voru sjávarútvegsfyrirtæki leiðandi í íslensku kauphöllinni. Skráning Össurar átti sér stað árið 1999 og ári síðar var ráðist í djarfa sókn á markaði með kaupum á öðrum fyrirtækjum. Það var ekki síst gert til þess að breikka vöruúrvalið. Eftirtektarvert er að hlusta á orð Jóns þar um: „Þá var þannig ástand á Íslandi það var var nóg af fjármagni og komnir bankamenn sem víluðu ekki allt fyrir sér. Þá var það Kaupþing sem gerði það kleift að við gátum keypt þessi fyrirtæki. Þeir voru lykillinn að því.“

Í þættinum rifjar Jón sérstaklega upp kaupin á Flex-Foot í Bandaríkjunum en það fyrirtæki var helmingi stærra en Össur á þeim tíma. Að baki kaupunum býr áhugaverð saga. Morgun einn ákvað Jón að hringja í forstjóra fyrirtækisins og kanna hvort möguleiki væri á viðræðum um sölu. Þá kom upp úr dúrnum að verið var að ganga frá sölu á fyrirtækinu. Jóni tókst, með stuðningi Kaupþings að ganga inn í kaupin og fullyrðir Jón að þetta hafi verið ein af örlagastundunum í sögu Össurar. Það má rifja upp að áhöld voru um hvort nægilegur gjaldeyrir væri í landinu til að klára kaupin, svo stór voru þau að þess tíma mælikvarða. Þess má geta að Sigurður Einarsson, þáverandi forstjóri Kaupþings, varð að fara til Bandaríkjanna til að tala fyrir kaupunum. Síðar sölutryggði Kaupþing hlutafjáraukningu vegna kaupanna sem einnig var lykilþáttur í kaupunum. Hin heppnuðu tilvik útrásarinnar hafa stundum gleymst.jon ös

Hafa keypt 60 fyrirtæki

Jón rifjar upp að það hafi orðið hluti stefnu Össurar að kaupa önnur fyrirtæki og stækka þannig samhliða innri vexti. Óhætt er að segja að Össur hafi tekið þessa stefnu upp á nýjar hæðir en sá markaður sem Össur starfaði á var mjög dreifður og lítt mótaður ef svo má segja. „Við erum búin að kaupa yfir 60 fyrirtæki á þessu tímabili. Þannig að hluti af þessari stefnu hafa verið fyrirtækjakaup. Við notum ekki ráðgjafa lengur við það, við erum alveg sjálfbær hvað það varðar,“ segir Jón.

Stjórnandi Dagmála, Stefán Einar Stefánsson, spyr réttilega hvort ekki hafi mátt litlu muna að þetta yrði öfugt. „Jú sjálfsagt hefur það nú verið [...] Þessi markaður er reyndar dálítið einangraður, dreifileiðin er dálítið sér, þótt hún sé inni á sjúkrahúsum alveg klár og það hefur komið í veg fyrir að menn hafi viljað, en svo er private equity (einkafjármögnun) sem hefur verið með okkur í sigtinu allan tímann. En verðlagningin hefur verið rétt nema í hruninu,“ útskýrir Jón. 

Marel er komið yfir milljarð dollara í tekjur og sjálfsagt er þess skamms að bíða að Össur ní þeirri stærð. Á síðastliðnu ári námu heildartekjur Össurar 630 milljónum dollara, jafnvirði 82,3 milljarða króna. Hagnaðurinn nam 8 milljónum dollara það ár, jafnvirði rúmlega milljarðs króna. Árið þar á undan nam hagnaðurinn hins vegar 69 milljónum dollara, eða 9 milljörðum króna.

Danskur kjölfestufjárfestir

Þegar bankarnir hrundu var danskur kjölfestufjárfestir kominn að félaginu, William Demant Invest. Um leið var ljóst að fjárfestarnir í Eyri áttu í erfiðleikum með að varðveita stöðu sína, bæði í Össuri og Marel. Þeir urðu að lát afrá sér annað fyrirtækið, Össur varð fyrir valinu. Í gjörningaveðrinu hefði dönsku fjárfestunum verið í lófa lagið að kippa eignarhaldinu alfarið til sín segir Jón. Það gerðist þó ekki. „Það skildi það enginn á Íslandi því þeir hefðu getað fengið það fyrir mjög lítið og allir vissu það. En þeir sögðu: Ef við freistumst til þess að græða ofsalega mikið á þessu núna og skilja alla fjárfestana sem komu með okkur inn í þetta eftir í rykinu þá verður okkur ekki treyst aftur. Við gerum ekki svoleiðis. Þetta lýsir viðhorfi sem er mjög öðruvísi en á Íslandi og í Bandaríkjunum,“ segir Jón. Vissulega til fyrirmyndar en sem betur fer er svona sjónarmið að finna víða en meðal danskra fjárfesta. En eðli fjárfesta og fjárfestinga er ólík frá einum tíma til annars og frá einu landi til annars, það segir saga Össurar okkur.