c

Pistlar:

24. janúar 2022 kl. 20:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Verbúðasagnfræði

Þó að mikið sé fjallað um sjávarútveginn í ræðu og riti dags daglega er sjálfsagt enn nokkur tími í að sagnfræðingar leggi mat sitt á þróun hans síðan kvótakerfið var tekið upp. Það stöðvar að sjálfsögðu ekki aðra við að skrá söguna og undanfarið hefur sjónvarpsþáttaröðin Verbúðin skemmt Íslendingum og vakið mikla athygli og það með réttu. Þar er um skemmtilegt efni að ræða, vel leikið og einstaklega vel stílfært en ástæða er þó til þess að vara fólk við að taka of mikið mark á sagnfræðinni að baki þáttunum. Það er hvorki sanngjarnt gagnvart framleiðendum þáttanna og alls ekki gagnvart þeim sem hafa unnið og starfað í sjávarútvegi.

Allir vita að umræða um stjórn fiskveiða hefur verið mikil í íslensku samfélagi á liðnum árum og mikill ágreiningur verið um fiskveiðistjórnunarkerfið og einstaka þætti þess. Margar skýrslur hafa verið skrifaðar og stórar nefndir skipaðar með reglubundnu millibili til þess að taka út þróunina og leggja á ráðin um breytingar og áframhaldandi stjórnun og uppbyggingu sjávarútvegsins. En á sama tíma og sjávarútvegurinn hefur orðið stöðugt arðbærari skiptir hann minna máli fyrir þjóðarbúið enda hefur tekist ágætlega að renna frekari efnahagslegum stoðum undir það. Þar er orkufrekur iðnaður og ferðaþjónustan fremst í flokki.jul

Endalausar nefndir

Það má alveg rifja upp að nánast allir stjórnmálaflokkar sem hafa setið á Alþingi hafa fengist við fiskveiðistjórnunarkerfið með einum eða öðrum hætti og margir hafa sagst ætlað að skera það rækilega upp. Niðurstaðan hefur sem betur fer orðið sú að skynsemin ræður og fjölmargar aðgerðir samþykktar í gegnum tíðina sem hafa verið hafa verið með hagræðingu og aukna skilvirkni að leiðarljósi.

Í það minnsta fjórar nefndir hafa fjallað ítarlega um fiskveiðistjórnunarkerfið, þ.e. svokölluð
„tvíhöfðanefnd“ sem skilaði skýrslu 1993, auðlindanefnd sem skilaði skýrslu 2000 og „endurskoðunarnefndin“ sem fjallaði mikið um niðurstöður auðlindanefndar og mögulegar útfærslur á þeim og skilaði tillögum 2001. Eftir að þessar nefndir höfðu skilað skýrslum sínum voru samin og lögð fyrir Alþingi umfangsmikil lagafrumvörp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

Enn var skipuð nefnd í júlí 2009 en þá skipaði Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, starfshóp um endurskoðun laga um fiskveiðistjórnun. Starfshópurinn var skipaður með erindisbréfi og vísan í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs en þar er ítarlegur kafli um fiskveiðar, sem skiptist í kafla um þjóðareign og mannréttindi, brýnar aðgerðir, vistvænar veiðar – rannsóknir og endurskoðun laga um fiskveiðar. Í kaflanum um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða kemur meðal annars fram að lögin skuli endurskoðuð í heild. Þetta var nefndin sem átti að laga sjávarútveginn að kröfu Búsáhaldabyltingarinnar og þess umróts sem þá varð í þjóðfélaginu.

Endalaus umræða

Það er líklega helst úthlutun aflaheimilda eða aflamarkskerfið í heild sem hefur helst verið tilefni umræðna og deilna meðal almennings, hagsmunaaðila og stjórnmálamanna í flestum kosningum og verið fyrirferðarmikið málefni í þjóðfélagsumræðunni almennt. Um leið hefur verið hávær umræða um eignarhald og nýtingarrétt sjávarauðlindarinnar, framsal aflaheimilda, óbeina veðsetningu aflaheimilda, atvinnuréttindi og jafnræði varðandi nýtingu sjávarauðlinda sem og nýliðun í sjávarútvegi. Þá hafa byggðasjónarmið verið mikið til umræðu í þessu sambandi, ekki síst þar sem margir hafa gagnrýnt, að flutningur fyrirtækja og aflaheimilda frá byggðarlögðum geti haft neikvæð áhrif á byggðarlag. Sá hvati sem kerfið hefur til hagræðingar valdi því en það er þó ekki einhlítt. Hafa má í huga að í viðamikilli úttekt sem dr. Birgir Þór Runólfsson dósent gerði fyrir auðlindanefnd árið 2000 er niðurstaðan sú að „ekkert samband virðist vera milli aflahlutdeildarkerfisins og byggðaþróunar hérlendis“. Þetta hefur einnig verið rætt hér í pistlum.makr

Jafnframt hefur verið mikil óánægja með að útgerðarmenn „geti selt sig út úr“ aflamarkskerfinu, þar sem ágóði sölunnar byggist fyrst og fremst á verðmæti sem fæst af aflaheimildum, en skuldirnar verða eftir hjá fyrirtækjunum. Reglulega koma upp ágreiningsmál um einstaka þætti kerfisins, innbyggða sveigjanleika þess og framkvæmd fiskveiðistjórnunar.

Loks má nefna gagnrýni á að þeir sem ekki fá úthlutað aflamarki geta einungis fengið það frá þeim sem hafa úthlutunarréttinn og fyrirtæki og einstaklingar sem ráða yfir aflamarki geta þannig hagnast á því að „leigja“ öðrum aðgang að auðlindinni.

Mestur hluti kvótans hefur verið keyptur

Á hinn bóginn hefur verið bent á það að langstærstur hluti aflahlutdeildanna hefur verið keyptur af þeim sem nú eiga sjávarútvegsfyrirtækin og að útgerðir hafa lagt í mikinn kostnað við að vinna sér og Íslandi rétt til veiða í deilistofnum og stofnum sem alfarið eru utan íslenskrar lögsögu. Þrátt fyrir þá vankanta á kerfinu þá þykir ljóst að aflamarkskerfið hefur ýmsa augljósa kosti og hefur verið litið til Íslands í sambandi við árangursríka fiskveiðistjórnar á alþjóðavettvangi. Sumir segja að við séum með kerfið sem alla dreymir um að fá.

Svona er nú staðan, endalaus umræða en þegar á reynir vill engin fórna hagkvæmni og skilvirkni kerfisins fyrir óljós markmið um sanngjarnara afgjald fyrir auðlindina. Það er staðreynd málsins.

Fræðaumhverfið hafnar byltingarkenndum breytingum

Það sem meira er, þegar á reynir og sérfræðingar eru kallaðir til þá fæst engin til að styðja breytingar með vísun í hagkvæmni.

Sjávarútvegur er ekki einkamál sjómanna eða útgerðarmanna eða nokkurra annarra, sögðu þeir dr. Axel Hall, dr. Ásgeir Jónsson, dr. Sveinn Agnarsson og dr. Tryggvi Þór Herbertsson, í skýrslu 2001. Þeir sögðu hann þvert á móti meginstoð íslensks efnahagslífs og afkoma hans skiptir sköpum fyrir lífskjör almennings, hvar sem er á landinu.

Höldum áfram að líta til þess sem fræðimenn segja. Meðal íslenskra fræðimanna sem hafa fjallað um sjávarútveginn á líkum nótum eru menn eins og dr. Þráinn Eggertsson, dr. Rögnvaldur Hannesson, dr. Birgir Þór Runólfsson, dr. Ágúst Einarsson, dr. Ásta Dís Óladóttir, dr. Daði Má Kristófersson, dr. Arnar Bjarnason, dr. Ragnar Árnason, dr. Þór Sigfússon, dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Svanur Guðmundsson sjávarútvegsfræðingur, Þorvarður Gunnarsson endurskoðandi og Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur. Allir þessir fræðimenn hafa bent á gildi og mikilvægi fiskveiðistjórnunarkerfisins. Er ekki ástæða að horfa til þess?