c

Pistlar:

30. mars 2022 kl. 21:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Alþingi spjallar um fjölmiðla

Efnt var til sérstakrar umræðu um fjölmiðla á Alþingi fyrr í dag en tilefnið var umhverfi fjölmiðla. Það gerði þátttakendum í umræðunni kleyft að nálgast málið frá mörgum sjónarhornum en kastljósið hefur verið á rekstrarstöðu fjölmiðla og starfsskilyrði fjölmiðlamanna. Nokkuð sem hefur verið vikið að oft í pistlum hér á þessum vettvangi.fjölfjöl

Það verður að segjast eins og er að umræðan var nokkuð fyrirsjáanleg og oft byggð á einföldunum og misskilningi. Því var meðal annars haldið fram að fjölmiðlamönnum hefði fækkað gríðarlega og að frelsi fjölmiðla hefði hrakað verulega. Um leið var gagnrýnd sú fjölgun sem hefði orðið meðal almannatengla og upplýsingafulltrúa. Aðrir bentu á hlutverk Ríkisútvarpsins og hve skoðanamyndandi fjölmiðlar væru um leið og þeir kæmu í veg fyrir að sjónarmið sem ættu erindi til almennings fengju að heyrast. Þá er enn rifist um hvaða viðmið eigi við þegar ríkisstyrkjum er úthlutað til fjölmiðla. Sumir þingmenn gripu tækifærið og úthúðuðu fjölmiðlum sem þeir eru ekki sammála.

Hlaðvarpsblaðamennska

Það er forvitnilegt að ræða nokkur þau atriði sem komu fram í umræðunni, til dæmis fjölda blaðamanna. Nú nýlega var skráður blaðamaður númer 580 í Blaðamannafélag Íslands. Það er kona sem hefur hrint af stað hlaðvarpsþætti þar sem fyrst og fremst er talað við konur og rakin samskipti þeirra við karlmenn. Það er hverjum manni í sjálfsvald sett að gera út slíka þætti sem virðast geta dregið að nokkrar tekjur fyrir viðkomandi. Umræðan er hins vegar svo einhliða að hún fellur tæpast undir hefðbundna blaðamennsku enda hefur verið deilt um hvort hlaðvarp eigi að skilgreinast sem fjölmiðlun á forsendum blaðamennsku. Ekki verður lagt mat á það hér en vert er að hafa í huga að í siðareglum Blaðamannafélags Íslands (sem eru víst til endurskoðunar eina ferðina enn) eru ákvæði sem lúta að hlutlægni umfjöllunar. Þar segir að blaðamaður skuli vanda „upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum.“ Viðkomandi hlaðvarpsstjórnandi er núna kominn í ritstjórnarsamband við fjölmiðil svo hugsanlega munu vinnubrögð eitthvað breytast. Um leið er viðkvæmt hvernig tekna er aflað inn í slíka þætti ef stjórnandinn sér sjálfur um sölu auglýsinga. Það gæti sett viðkomandi í stöðu sem gæti varðað við 5. gr. siðareglna.

Blaðamenn og almannatenglar

En aftur að fjölda blaðamanna. Samkvæmt Menn­ing­ar­vísum Hag­stofu Íslands störfuðu árið 2013 samtals 2.238 manns í fjöl­miðlun á Íslandi. Árið 2020 voru þeir tæp­lega 876 tals­ins og virðist fækkun gerast nokkuð hratt. Taka verður fram að starf­andi teljast þeir sem starfa í aðal- og auka­starfi í grein­inni. Einhverjir þingmenn töldu þetta til marks um versnandi stöðu fjölmiðla en þetta segir kannski ekki alla söguna. Slíka fækkun má sjá í öðrum menningargreinum sem geta verið vísbendingar um að almennt séu að eiga sér breytingar í vinnuumhverfi þessara stétta. En það vita allir að á árunum fyrir hrun varð ósjálfbær aukning meðal fjölmiðlamanna sem og annarra starfsstétta. Pistlaskrifari þekkir þetta ágætlega eftir að hafa unnið á ritstjórn Viðskiptablaðsins sem stækkaði úr um það bil 15 manns upp í 50 til 60 manns á skömmum tíma þegar gerð var stutt tilraun til að gefa út viðskiptadagblað á Íslandi. Engar markaðslegar forsendur voru fyrir því né annarri fjölgun fjölmiðla og fjölda á ritstjórnum þeirra. Sú fækkun, sem þarna er vitnað til, kemur heldur ekki fram í bókhaldi Blaðamannafélags Íslands. Þar hefur orðið einhver fækkun en ekkert í líkingu við þetta. Það er því vafasamt að ætla að draga of miklar ályktanir um breytta stöðu fjölmiðla út frá þessum tölum.fjölmbl

Hvað á að segja um fjölgun almannatengla eða upplýsingafulltrúa? Eru fjölgun þeirra ekki vitnisburður um margvíslegar breytingar sem orðið hafa á okkar samfélagi, kannski eins og að nýjar stéttir, svo sem kynjafræðingar eða umhverfisérfræðingar, hafa orðið til? Með tilkomu upplýsingalaga og margvíslegra annarra kvaða á opinbera aðilar jukust kröfur um stöðugt upplýsingastreymi til almennings. Um leið hefur ný tækni kallað á ný störf, meðal annars við að halda úti heimasíðum og þjónustu við lesendur þeirra. Nú síðast eru fyrirtæki og stofnanir farin að skrifa sérstakar samfélagsskýrslur sem gerir það að verkum, eins og í tilfelli Orkuveitu Reykjavíkur, að upplýsingafulltrúinn þar hefur færst yfir í það starf að sinna samfélagsskýrslugerð og nýr upplýsingafulltrúi ráðinn. Félag eins og Orkuveita Reykjavíkur heldur úti mörgum störfum af þessu tagi, rétt eins og til dæmis Landsvirkjun. Þessi þróun er ekki bundin við Ísland.

Hverjir eiga að fá ríkisstyrkina?

En ríkisstyrkir til fjölmiðla eru staðreynd. Við hvaða reglur eigi að styðjast er hins vegar umdeilt en samkvæmt lögum var kveðið á um þak á greiðslur þannig að stærstu miðlarnir taki ekki til sín of hátt hlutfall. Síðan hefur Fjölmiðlanefnd, sem sér um útgreiðslu styrkjanna, haft vinnulag sem einnig lækkar greiðslu til stærstu fjölmiðlanna. Er það sanngjarnt? Um það má deila en að sumu leyti er byggt á ólíkri sýn á fjölmiðla og fjölmiðlun. Stærstu fjölmiðlafyrirtækin Árvakur hf. (Morgunblaðið, K100 og tengdir miðlar), Sýn hf. (Vísir, Stöð 2, Bylgjan) og Torg ehf. (Fréttablaðið, DV, Hringbraut) reka langfjölmennustu ritstjórnirnar og sinna fréttaþjónustu nánast allan sólarhringinn, flesta daga vikunnar. Þessir miðlar eru að segja frá náttúruhamförum, slysum, tíðarfari og gæftum svo dæmi séu tekin. Þetta er mikilvæg þjónusta.

Ef slys á sér stað eða skipskaði verður vilja landsmenn fá fréttir af því, nú að ekki sé talað um eldgos, flóð, snjóflóð eða annað það sem getur haft örlagarík áhrif á líf landsmanna. Það varðar almenning miklu að fá sem fyrst góðar og nákvæmar fréttir af þessu. Stóru miðlarnir halda úti ljósmyndurum og grafíkerum sem auðvelda myndræna framsetningu. Í uppflettingum á tímarit.is hafa þeir yfirburði þegar fólk leitar heimilda, sérstaklega Morgunblaðið. Það er því eðlilegt að þessir stærstu miðlar taki obbann af styrkjunum til sín. Það er ekki trúverðugt þegar miðlar sem fyrst og fremst birta skoðanaefni og það með stopulum hætti eru að reyna að sópa meiru af þessu fjármagni til sín þó að það megi hafa skilning á vilja þeirra til þess.

En þetta kann allt að breytast því Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og viðskiptaráðherra, boðaði breytingu á skattaumhverfi frjálsra fjölmiðla í umræðunni í dag. Það má því gera ráð fyrir áframhaldandi umræðu um fjölmiðla í sölum Alþingis.