c

Pistlar:

2. júní 2022 kl. 14:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Risastórasjávarútvegsnefndin!

Í vikunni var greint frá því að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefði skipað fjóra starfshópa til að meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins og til að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi. Ráðherra sagði í tilkynningu þörf á nýrri nálgun en stefnt er að því að bera saman stöðuna hér og erlendis og hvernig sé best að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi, sérstaklega þeirra stærstu. Svandís sagði á Alþingi í upphafi vikunnar að það væri meinsemd að vita ekki hver samþjöppun í sjávarútvegi sé. Dálítið undarleg fullyrðing í ljósi þess að um þetta hefur verið mikið fjallað í fjölmiðlum og á þingi auk þess sem upplýsingar um stöðu sjávarútvegsins þegar kemur að kvótastöðu og eignarhald eru nokkuð gegnsæjar. Oft er eins og umræða um eignarhald í sjávarútvegi sé fyrst og fremst ætlað að skapa tortryggni frekar en að standa undir upplýstri umræðu. En hugsanlega má alltaf skoða þetta betur.

Það má taka undir með Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, í Fréttablaðinu í gær að það er allt í lagi að setja upp þessa marghöfða nefnd þó augljóslega sé henni ætlað að tala inn í framtíðina og létta pólitískum þrýstingi af VG. Þorsteinn Már sagði mikilvægt að ná sátt um sjávarútveg og því lítist honum ekki illa á hugmyndir Svandísar að svo komnu máli og bætir við: „Sífelldar deilur um umgjörð sjávarútvegsins eru á margan hátt skaðlegar greininni, þannig að ég fagna því að sjávarútvegsráðherra skipar samráðsnefndir sem ætlað er að fara yfir starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja. Ég býst ekki við öðru en að allir þættir verði skoðaðir gaumgæfilega og nefndirnar skili niðurstöðu sem hægt er að byggja á til framtíðar, enda verður atvinnulífið að geta horft nokkur ár fram í tímann þegar ákvarðanir um fjárfestingar eru teknar.“ Nefndin á að skila af sér árið 2023.fisksala

Hvar eru sjávarútvegssérfræðingarnir?

En þegar allur sá hópur sem kemur að þessu nefndarstarfi er skoðaður sakna margir fólks sem hefur beina reynslu af sjávarútvegi, nú eða gert sig gildandi í umræðu um sjávarútvegsmál og jafnvel lagt sig eftir rannsóknum á því sviði. Einnig má gera athugasemd við að fólk utan af landi skortir en eðlilega á það mun meira undir velferð sjávarútvegsins. Hér í pistlum hefur margoft verið farið yfir umræðu um sjávarútvegsmál, bæði fræðilega og ekki síður dagmálaumræðuna og sjónarmið vegin og metin.

Það er kannski tilefni til að rifja upp þann hóp sem oft er vitnað til hér í pistlum og fjallar oftast af mikilli þekkingu um sjávarútveg okkar Íslendinga Þar má nefna: dr. Þráinn Eggertsson, dr. Rögnvald Hannesson, dr. Birgir Þór Runólfsson, dr. Ágúst Einarsson, dr. Ástu Dís Óladóttur, (þau Ágúst og Ásta hafa skrifað myndarlega fræðilega úttekt á ensku um íslenskan sjávarútveg), dr. Daði Má Kristófersson (þegar hefur vakið athygli að Daði Már skuli ekki starfa með hópnum, dr. Arnar Bjarnason, dr. Ragnar Árnason, dr. Þór Sigfússon. Þór hefur stýrt Sjávarklasanum hér á landi og útvíkkað starfsemina til annarra landa, lengi vel gaf klasinn út merkilegar skýrslur um íslenskan sjávarútveg.

Og við getum haldið áfram að tína til nöfn:  dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson (sem mikið hefur fjallað um heimspeki að baki eignarrétti), dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra, Svan Guðmundsson sjávarútvegsfræðing, Hreiðar Valtýsson aðstoðarprófessor, Hörð Sævaldsson lektor (sérsvið hans er stjórnkerfi fiskveiða og markaðir sjávarafurða), dr. Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, Helga Áss Grétarsson lögfræðingur, (sem mikið hefur fjallað um eignarhald) dr. Svein Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild HÍ, (sem stýrði stórri úttekt um sjávarútveginn fyrir stjórnarráðið á síðasta ári), Sigurjón Arason prófessor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, dr. Axell Hall, dr. Tryggva Þór Herbertsson, dr. Hörð G. Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóra hjá Matís og dr. Gunnar Haraldsson hagfræðing. Allt eru þetta virtir fræðimenn og ýmist sérfræðingar um sjávarútveg eða fræði honum tengd en sjaldséðir gestir í Ríkissjónvarpinu þegar um þessi mál er fjallað og fengu ekki náð fyrir augum Svandísar þegar hún valdi hátt í 50 Íslendinga til að rýna íslenskan sjávarútveg. Vissulega er Gunnar Haraldsson þarna mættur og gera verður ráð fyrir að hluti hópsins hefði ekki þegið boðið vegna ýmissa ástæðna. Margt ágætt fólk hefur valist í risastórusjávarútvegsnefndina en margt af því hefur ekki sýnilega þekkingu á sjávarútvegi sem slíkum.

Svandís finnur óréttlæti

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar síðan í fyrra voru kynnt áform um að stofna nefnd til að kortleggja sjávarútveginn betur. Svandís segir núna að það ríki djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti innan sjávarútvegsins. „Sú tilfinning tel ég að stafi aðallega af tvennu; samþjöppun veiðiheimilda og þeirri tilfinningu að ágóðanum af sameiginlegri auðlind landsmanna sé ekki skipt á réttlátan hátt. Markmiðið með þessari vinnu er því hagkvæm og sjálfbær nýting sjávarauðlinda í sátt við umhverfi og samfélag,“ segir Svandís þegar hún hrindir þessu nefndarstarfi úr vör.

Starfshóparnir eru fjórir og nefnast Samfélag, Aðgengi, Umgengni og Tækifæri. Þá er sjö manna verkefnisstjórn sem heldur utan um verkið og samráðsnefnd. Í samráðsnefndinni sjálfri eru 27 aðilar en þeirri nefnd er stýrt af Svandísi sjálfri. Þar eru margir úr hagsmunasamtökum tengdum sjávarútveginum.