c

Pistlar:

27. júní 2022 kl. 20:37

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Róm - borg sigurvegaranna


Tíminn er sem gefur að skilja lykilhugtak í sagnfræði, bæði viðfangsefni og sjónarhorn mótast öðru fremur af stöðu skrásetjarans í almanakinu en um leið þá hefur tíminn sérstaka stöðu sem mótandi, jafnvel ráðandi afl. Allt veðrast í burtu að lokum og tíminn minnir á að flestir hlutir eru forgengilegir. Þetta rifjast upp fyrir manni þegar heimsborgin Róm er skoðuð, hugsanlega merkasta borg mannkynssögunnar ef hægt er að setja upp slíkan samanburð. Það er auðvitað merkilegt til þess að hugsa að heimsveldi Rómverja hafi náð að standa í þúsund ár þó auðvitað verði að horfa til þess að í báða enda tímabilsins voru áhöld um hvort orðið heimsveldi væri rétta skilgreining. Það veltur líka á því hvað hin þekkti heimur var á hverjum tíma, vissulega var fólk um allan heim en skildi sig eftir mismerkar minjar. Því hefur verið slegið fram að 70 til 80 prósent allra menningarminja hins vestræna heims sé að finna á Ítalíu og í Grikklandi. Það er í það minnsta ljóst að verklegar framkvæmdir í Róm og Aþenu eru einstaklega flóknar ef menn taka varðveislu sögunnar alvarlega.róm

Þúsund ára ríki

En ekki nóg með það að við getum skellt öðrum þúsund árum á Austrómverska keisaradæmið sem tók við að rómverska heimsveldinu þegar höfuðborgin færðist yfir til Konstantínópel á fimmtu öld eftir Krist eða Miklagarð eins og norrænir menn kölluðu borgina. Segja má að það veldi hafi staðið þar til Ottómanveldið lagði Konstantínópel undir sig árið 1453 og batt þannig enda á þennan austurhluta rómverska keisaradæmisins. Að missa Konstantínópel í hendur múslima var vestrænum mönnum bæði menningarlegt og pólitískt áfall. Ottómanveldið sjálft stóð hátt í 600 ár þó að Napóleon hefi gert því skráveifu eins og áður hefur verið vikið að hér auk þess stöðnun þess varð alger að lokum en það er önnur saga. Það er einnig önnur saga að menning Forn-Egypta reis hæst á um þrjú þúsund ára tímabili eða frá 3100 – 300 f.Kr. sem er tímabil konungsættanna og faraóanna. Þannig skaraðist forn-egypska menningin við Rómarveldi og margir af örlagaríkustu atburðum rómverskrar sögu tengjast Egyptalandi. Sumir gætu freistast til að segja að egypska drottningin Kleópatra hafi verið frægasta kona rómverskrar sögu.

En Róm í dag er enn minning um stærð og umfang rómverska heimsveldisins. Rómaveldi var talið stærst og voldugast árið 117 e. Krist undir stjórn Trajanusar keisara sem almennt er rætt um sem annar í röð hinna svonefndu fimm góðu keisara Rómaveldis. Það náði þá yfir 40 ríki nútímans eða 5 milljónir ferkílómetra. Unnt var að fara frá Bretlandi allt til Persaflóa - frá Gíbraltar til Kaspíahafs og vera allan tímann innan landamæra þessa mikla ríkis. Allar leiðir lágu til Rómar sagði máltækið og allt barst til Rómar. Borgin er full af góssi úr hernumdum löndum, styttum, súlum og öðrum menningaverðmætum. Það voru ekki seinni tíma nýlenduveldin sem hófu að ræna menningu landa sem þau hersátu. Rómverjar voru einstaklega duglegir við það og eftirminnilegt að sjá egypska oblesku á Alþýðutorginu (Piazza del Popolo) þar sem hún er í hávegum höfð eftir að hafa ferðast víða um Róm eftir að hún kom þangað fyrst 10 árum f. Kr.coloss

Borg sigurvegaranna

Róm var borg sigurvegaranna, þangað bárust þrælar og þeir sem höfðu verið sigraðir, stundum í stórkostlegum sigurgöngum sem einstaka sinnum kölluðu á sigurboga sem margir hverjir standa enn, en slíkar hyllingar voru glæstustu augnablik rómverskra hershöfðingja. Þegar stoppað er við hið ótrúlega mannvirki Colosseum, þar sem leikar stóðu stundum mánuðum saman, sést glögglega að Róm var borg sigurvegaranna. Mannvirkið þætti enn í dag vera einn af stærstu leikvöngum heims með sæti fyrir ríflega 80 þúsund manns. Það er hægt að sjá fyrir sér mannhafið, bæði þegar áhorfendur streymdu að eða frá leikvanginum. Söluborð um allt og hrópandi kaupahéðnar að falbjóða allt sem gesti gat vanhagað um.

Róm sat uppi með kosti og galla heimsveldisins. Þangað barst ótrúlegur auður og það er enn í dag hægt að undrast stærð og mikilfengleika mannvirkja sem þar voru. Þar gekk um götur Marcus Licinius Crassus sem sumir telja enn í dag að auðugasta mann sögunnar. En um leið var Róm uppfull af uppflosnuðu fólki sem hreiðraði um sig í hliðargötum og úthverfum borgarinnar. Þetta fólk sérhæfði sig í að lifa af alsgnægtaborði heimsveldisins en skapaði óróleika og óróa sem hafði vondar pólitískar afleiðingar. Sagnfræðingar fyrri tíma kölluðu þetta skrílinn í Róm, fólkið sem kallaði á brauð og leiki og var engum trúr, hvorki leiðtogum né lýðveldinu.pan

Tækifærismenn í trúmálum

Þá er ávalt ástæða til að stoppa við Pantheon (eða Algyðishofið), er líklega eitt merkilegast af mörgum merkum mannvirkjum Rómar, það er alltaf sérstök upplifun að koma þar inn. Pantheon var byggt sem hof tileinkað öllum guðunum - eiginlega musteri allra trúa - en er nú notað sem kristin kirkja. Rómverjar voru að sum leyti tækifærismenn í trúmálum eða alla til að kristni yfirtók keisaradæmið á fjórðu öld eftir krist. Pantheon er eitt best varðveitta rómverska mannvirkið þó það hafi verið skrælt að hluta til þegar Péturskirkjan var byggð. Rómverjar notuðu efni frá öðrum í Pantheon hofið og granítsúlurnar við innganginn munu vera komnar frá Egyptalandi.

Upphaflega lét Marcus Vipsanius Agrippa reisa það á árunum 27 til 25 f.Kr. en það hof skemmdist í eldi árið 80 en var endurbyggt af Hadríanusi keisara, sem tók við af Trajanusi, einhvern tímann á árunum 118 til 128 og stendur það hof í dag. Hofið er í raun gríðarstór hringlaga hvelfing, um 43 metrar að hæð og um 43 metrar í þvermál, með súlnaskyggni sem myndar forrými við innganginn.

Hönnun hvolfþaksins hlýtur að teljast nokkuð afrek enda er það úr steinsteypu og vegur um 5000 tonn. Það er um 6,4 m að þykkt þar sem það er þykkast en þynnist upp á við og er um 1,2 m að þykkt efst þar sem hringlaga op í miðjunni hleypir inn ljósi. Í steypumótin voru settir flekar sem skapa þynningu á steypunni og létta kápuna - vel má sjá móta fyrir flekunum.

En þetta var svo einstakt verkfræðilegt afrek að stærra hvolfþak var ekki byggt fyrr en árið 1881 en raunar er hvolfþakið á Pantheon enn það stærsta í heimi sem ekki er styrkt með málmstoðum. Þegar menn hófu að byggja hin stærri hvolfþök dómkirkna í Evrópu var horft til Pantheon um lausnir. Rómverjar voru verkfræðingar öðru fremur.