c

Pistlar:

29. júní 2022 kl. 10:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Orkuiðnaðurinn forsenda velgengni verkfræðistofa

Verkfræðistofan Efla hlaut í gær Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2022 en tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á mikilvægi alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem gengur vel að markaðssetja og selja íslenskar vörur.

Tilgangurinn með veitingu Útflutningsverðlaunanna er samkvæmt Íslandsstofu „að vekja athygli á þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis.“efla

Það er vel til fundið að beina athygli að mikilvægi útflutnings verkfræðilegrar þekkingar en oft hefur verið vikið að því hér í pistlum. Staðreyndin er sú að síðustu 40 eða 50 ár hefur orðið stórkostleg breyting á verkfræðilegri þekkingu landsmanna og getu innlendra verkfræðistofa á því sviði. Segja má að Íslendingar hafi orðið verkfræðilega sjálfstæðir. Það er ekki síst orkufrekum iðnaði að þakka sem er í raun forsenda fyrir þessari velgengni. Verðlaunin í gær eru staðfesting á því.

Með um 400 starfsmenn

Efla verkfræðistofa á rætur að rekja 50 ár aftur í tímann, þegar fyrstu forverar núverandi fyrirtækis urðu til. Árið 2008 varð samruni fjögurra verkfræðistofa, Línuhönnunar, RTS, Afls og Verkfræðistofu Suðurlands. Síðan þá hefur Efla tvöfaldast að stærð og er nú stærsta verkfræðistofa Íslands með um 400 starfsmenn. Velta Eflu árið 2021 var um 7,2 milljarðar króna.

Þá má geta þess að hjá verkfræðistofunni Verkís starfa yfir 300 starfsmenn að fjölbreyttum verkefnum á Íslandi og erlendis. Verkís fékk nýlega fjögurra milljóna króna styrk frá Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu til að kanna fýsileika jarðhitasvæða í Djíbútí eins og greint er frá í Fréttablaðinu í dag. Bæði Verkís og Orkuveita Reykjavíkur hafa áður stundað rannsóknir í landinu, á svæði er kallast Assal misgengið. Þar hafa einnig Íslenskar jarðboranir unnið að tveggja milljarða króna jarðhitaverkefni frá árinu 2017.

Þá er ógetið verkfræðistofunnar Mannvits sem er einnig mjög stór og svo eru minni verkfræðistofur. Sjálfsagt starfa vel á annað þúsund manns hjá verkfræðistofum landsins. Að dómi þess sem hér ritar hefði mátt verðlauna allar verkfræðistofurnar því útflutningsstarfsemi þeirra er orðin umtalsverð.

Með verkefni í 40 löndum

Í umsókn vegna verðlaunanna núna segir að Efla hefur starfað við uppbyggingu og þróun orkumála, innviða og atvinnulífs á Íslandi. Helstu viðskiptavinir stofunnar eru sveitarfélög, orku- og veitufyrirtæki, Vegagerðin, iðnaður og stóriðja, ferðaþjónustan og innviðir hennar, og sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtæki.

Fyrirtækið hefur einnig unnið að veigamiklum verkefnum á sviði orkuflutningsmannvirkja víða um heim og er nú með starfsemi í dóttur- og hlutdeildarfélögum í sjö löndum, Noregi, Svíþjóð, Póllandi, Frakklandi, Þýskalandi, Skotlandi og Tyrklandi. Þar að auki hafa verkefni verið unnin á fjölmörgum sviðum í yfir 40 löndum á undanförnum áratug. Útflutningsverðlaunin voru veitt í 34. sinn núna og löngu tímabært að láta verkfræðifyrirtæki fá þau.