c

Pistlar:

22. september 2022 kl. 15:24

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fjölmiðlastyrkir hampa smærri miðlum


Á síðasta ári voru samþykkt lög með það að markmiði að tryggja rekstrarumhverfi fjölbreyttra fjölmiðla í ljósi mikilvægis þeirra fyrir lýðræði og menningu. Um leið hefur ríkissjóður byrjað að styrkja fjölmiðla með sérstökum framlögum, sem byggjast á úthlutun sérstakrar úthlutunarnefndar á vegum Fjölmiðlanefndar sem væntanlega styðst við vinnureglur sem pistlaskrifari hefur ekki á hraðbergi. Nú liggur fyrir úthlutun síðasta árs og ViðskiptaMogginn gerði niðurstöðunni ágæt skil í umfjöllun í gær.fjöltölur

Það er forvitnilegt að rýna í samantekt ViðskiptaMoggans en töluverður munur er á því hvernig rekstrarstuðningur ríkisins til einkarekinna fjölmiðla fyrir árið í ár hefur áhrif á rekstur þeirra þegar horft er til hlutfalls af tekjum, hlutfalls af launagreiðslum og fjölda starfsmanna. Mér vitanlega hafa ekki aðrir leitast eftir þessu samhengi þó talsverð umræða hafi verið á fjölmiðlum um úthlutunina og hvernig henni er háttað. Einnig hefur verið umræða um það á Alþingi eins og hér hefur verið rakið.

Hvað á að horfa til þegar styrkjum er útdeilt?

En hvað ætti að vera horft til þegar greiðslum er úthlutað? Jú allir stóru miðlarnir halda úti stórum fréttastofum sem reyna að þjónusta lesendur sína allan sólarhringinn, árið um kring. Þessir miðlar, ásamt Ríkisútvarpinu, reyna að upplýsa um fréttatengda atburði um allt land. Er þá átt við ef slys ber að höndum eða náttúruhamfarir eða hvað eina sem varðar fólk og skiptir miklu að fá upplýsingar um sem fyrst. Smærri miðlar afmarka sig miklu frekar og í raun skiptir ekki máli þó þeir fari í löng sumarfrí, þjónusta þeirra snýst kannski meira um einhverskonar þjóðfélagsumræðu heldur fréttnæma viðburði sem þarf að segja frá strax. Þarna er í raun himinn og haf á milli og eðlilegt að við úthlutun almannafjár, með almannahag á vörum, sé horft til slíkra þátta enda mun kostnaðarmeiri þjónusta sem stærri miðlarnir veita með því að vera á vakt allan sólarhringinn.fjölfjöl

15 milljóna króna lækkun til stóru miðlanna

Samantekt ViðskiptaMoggans leiðir í ljós að sumir smærri fjölmiðlar fá ansi háan hluta launakostnaðar síns greiddan en Fjölmiðlanefnd úthlutaði í síðustu viku samtals um 380 milljónum króna til 25 einkarekinna fjölmiðla. Heldur lægri upphæð en á síðasta ári þegar 389 milljónum var úthlutað en þá fóru 244 milljónir til þriggja stærstu fjölmiðlafyrirtækjanna.

Sýn, Árvakur og Torg (útgáfufélag Fréttablaðsins og DV) fengu hvert um sig um 66,8 milljónir króna en aðrir miðlar minna. Þessir þrír stærstu miðlar fengu 81,5 milljónir króna hvert um sig í ríkisstyrk á síðasta ári þannig að framlag til stóru miðlanna lækkar um tæpar 15 milljónir á hvern og einn.

Í umfjöllun ViðskiptaMoggans er bent á að sé horft til stuðningsgreiðslunnar sem hlutfalls af tekjum kemur í ljós að stuðningurinn er aðeins brot af tekjum Árvakurs og Sýnar, á bilinu 1 til 2%, og ætla ViðskiptaMogginn að hann sé litlu hærri hjá Torgi.

Kjarninn fær 14% af tekjum

Aftur á móti er stuðningurinn um 14% af öllum tekjum Kjarnans, sem heldur úti samnefndri vefsíðu en engin skerðing er á stuðningi við hann milli ára. Þá er stuðningurinn um 13% af tekjum Sólartúns, sem gefur út Mannlíf og heldur úti samnefndum vef og gefur stöku sinnum út fríblað en siðanefnd BÍ gerði nýlega alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð ritstjóra og eiganda Mannlífs en sterkar vísbendingar eru um að hann fjármagni einstök fréttaskrif af hlutaðeigandi. Hann er tengdur Stundinni bæði með fjölskyldu- og eigendatengslum.

Úttekt ViðskiptaMoggans sýnir svipaða sögu um styrkina sem hlutfall af launagreiðslum, þó með þeim fyrirvara að launakostnaður Sólartúns, Sýnar og Torgs liggur ekki fyrir. Stuðningurinn er um 4% af öllum launagreiðslum Árvakurs en í öðrum tilvikum er hann á bilinu 11-31%. Hæst er hlutfallið hjá Skessuhorni á Vesturlandi og næsthæst hjá sjónvarpsstöðinni N4 í Eyjafirði.fjölmbl

Alvöru fréttastofur og skoðanamiðlar

Eins og gefur að skilja eru stóru miðlarnir, Sýn, Árvakur og Torg, með flesta starfsmenn eða á bilinu 90 til 150. Hjá Myllusetri, útgáfufélagi Viðskiptablaðsins, Fiskifrétta og Frjálsrar verslunar, starfa um 16 manns en hjá öðrum miðlum eru starfsmenn færri. Miðar ViðskiptaMogginn við ársreikninga félaga en hjá Sólartúni og Kjarnanum er miðað við upplýsingar á heimasíðu þeirra.

Af þessu sést að stuðningur ríkisvaldsins til stóru miðlana er umtalsvert minni á hvern starfsmann stærri miðla, eða á bilinu 445 til 740 þúsund krónur. Aftur á móti er stuðningurinn mestur á hvern starfsmann hjá N4, tæplega 2,1 milljón, og rúm 1,8 milljón króna hjá Stundinni og Kjarnanum.