c

Pistlar:

24. september 2022 kl. 12:40

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Donald Trump í vef ákæruvaldsins

Það vita allir að Donald Trump hefur oft komið með stórkallalegar yfirlýsingar um eignir sínar og rekstur og þeir sem reyna að taka saman auðmannalista hafa löngum hent gaman að því að hann hafi átt til að ýkja auðæfi sín. Hann er svo sem ekki einn um það. En að hann skuli þurfa að þola málsókn vegna þess að hann ýkir auð sinn er eins og að sækja hestabónda í Skagafirði til saka vegna þess að hann getur aldrei sagt hve marga hesta hann á í raun og veru. Sjálfur hefur Trump sagt að auðævi hans geti oltið á því hvernig hann er stemmdur þann daginn! Líklega hafa lánadrottnar hans fyrir löngu lært að gera sjálfstæða rannsókn á fárreiðum hans þegar honum eru lánaðir peningar.

Maður eins og Donald Trump á í endalausum málsóknum og það breyttist ekkert við forsetatíð hans þar sem hann mátti meðal annars þola tvær ákærur til embættismissis. Þær atlögur pólitískra andstæðinga tókust ekki en núna er hann einnig til rannsóknar vegna ásakana um afskipti af kosningum í Georgíu og að geyma trúnaðarskjöl á heimili sínu í Flórída. Nú hefur hins vegar Letitia James, ríkissaksóknari New York-ríkis, höfðað borgaralegt mál (e.civil suit) á hendur Donald Trump og þremur börnum hans með ásökunum um að hann hafi ýkt nettóeign sína um hundruð milljóna bandadala til að auðga sjálfan sig og tryggja sér og fyrirtækjum sínum hagstæð lán.lethia

Kæra en ekki ákæra

Þegar Letitia James tilkynnti málshöfðunina í New York á miðvikudag, krafðist hún meðal annars upptöku á 250 milljónum dala eða um 35 milljarða króna. Einnig fer hún fram á að Trump og þremur elstu börnum hans, Don Jr., Ivönku og Eric verði annars vegar bannað að koma nálægt fasteignaviðskiptum í 5 ár og meinað til lífstíðar að sitja í stjórn eða vera stjórnendur nokkurs fyrirtækis í New York ríki. Málið var þar að auki sent sem sakamál og skattalagabrot til saksóknara ríkisins og bandaríska skattsins (IRS).

Athygli vekur að málið er höfðað með kæru (ekki ákæru) ríkissaksóknarans sem getur ruglað marga í rýminu. Letitia James, sem er yfirlýstur demókrati, útskýrir þetta með því að hún sé að höfða mál vegna þess að starfsemi Trump-stofnunarinnar varði við borgaraleg lög New York borgar, sem þýðir viðskipta- og lánalög og þess háttar - þess vegna sé höfðað einkamál. Það hefur borið á því í íslenskum fjölmiðlum að frá málinu sé greint á heldur yfirborðslegan hátt og lítið farið í hina pólitísku hlið þess eða afstöðu Letitiu James til Trump sem er og hefur verið mjög persónuleg en hún hóf rannsókn á honum nánast um leið og hún tók við embætti árið 2018.trump krakkar

Nornaveiðar segir Trump

Sem gefur að skilja beinist kastljósið að Letitiu „Tish“ James sem er engin venjulegur lögmaður. Hún hefur síðustu ár verið í opinberri herferð gegn Donald Trump og mörgum kann að koma spánskt fyrir sjónir að hún hefur bæði, áður en hún komst í embætti og eftir að hún gerði það, ráðist að forsetanum fyrrverandi og hótað því að fella hann. Þetta er framferði sem víða þætti heldur ólýðræðislegt, það er, að beita valdi sínu í pólitískum tilgangi vegna óbeitar á tilteknum einstaklingum. Trump sjálfur kallar þetta „nornaveiðar“. Þeir sem horfa á bandarísku sjónvarpsþættina Billions fá ágæta innsýn inn í þá refskák sem birtist í samskiptum ákæruvalds og auðmanna í bandarísku réttafari þar sem öllu skiptir að ná stöðu gagnvart andstæðingnum og semja út frá því. Enginn vafi er á því að rannsóknin og málaferlin ein og sér hafa mikil áhrif á getu Trump til að stunda viðskipti þó að skapferli hans leyfi líklega ekki samningaviðræður við saksóknarann í þessu tilfelli.

Letitia James starfaði áður sem lögmaður hjá New York borg en vann kosningar til embættis ríkissaksóknara árið 2018, eftir að forveri hennar, Eric Schneiderman, sagði af sér vegna hneykslis og ásakanna um heimilisofbeldi. Í framboðsræðum sínum gerði hún öllum ljóst að Trump yrði helsta skotmark hennar. Hún hét því að elta mann sem hún sagði vera „ólögmætan forseta“ og „vandræðalegan“ fyrir Bandaríkin. Um leið tilkynnti hún að Trump „ætti að vera hræddur við hana.“ Dálítið stórkallalegar yfirlýsingar en þær eru á báða bóga.letia3

James er fyrsta svarta konan til að gegna svo háttsettu embætti í New York. Kjörtímabil hennar er nú á enda runnið en í næsta mánuði sækist hún eftir endurkjöri. Sumir telja að með kærunni nú sé hún að efna kosningaloforð sín frá því fyrir fjórum árum. Trump sjálfur telur engan vafa leika á því að um ofsóknir sé að ræða gagnvart honum og fjölskyldu hans. Lára Magnúsdóttir sagnfræðingur bendir réttilega á það í pistli í sunnudagsblaði Morgunblaðsins að tungutak Trump rugli marga í rýminu en hann hefur til dæmis kallað Letitiu James rasista!

Barr undrast málsóknina

Almennt er William Barr, fyrrverandi dómsmálaráðherra, ekki talin neinn sérstakur vinur Donalds Trump núna enda höfðaði hann mál gegn Trump og galt fyrir með embætti sínu. Barr hefur hins vegar harðlega gagnrýnt málsókn Letitiu James og sagt hana „pólitískt fyrirsát“ (e. political hit job) og sagt hana fara langt út fyrir valdsvið sitt með því draga börn Trumps inn í mál, byggt á óljósum tilgátum og sakaefnum. Í samtali við bandaríska fjölmiðla hefur Barr sagt að málið geti auðveldlega snúist gegn Letitiu James. Hún hefur reyndar verið þekkt fyrir nokkurn ákafa þegar hún ræðst í mál og ekki er nema ár síðan embætti hennar birti 165 blaðsíðna skýrslu um framferði fyrrverandi ríkisstjóra, Andrew Cuomo, og felldi hann af stalli en um mál hans var fjallað hér í pistli á sínum tíma. Það hefur löngum gustað um embætti ríkissaksóknari New York-ríkis eða allt síðan Eliot Spitzer gegndi því og var kallaður fógetinn á Wall Steet (Sheriff of Wall Street). Letitia James afþakkaði þá nafngift þegar hún tók við.barr

„Það er erfitt fyrir mig að álykta annað en að þetta sé tilraun til að veita pólitískt högg,“ sagði Barr í viðtali við Fox News. „Ég er ekki einu sinni viss um hvort hún hefur ásættanlegt mál gegn Trump sjálfum. En það sem sannfærir mig um að þetta sé af pólitískum toga er að hún fer gróflega fram þegar hún reynir að draga börnin inn í þetta. Já, vissulega höfðu þau hlutverki að gegna í rekstrinum,“ sagði Barr og bætti við. „En þetta eru persónuleg reikningsskil Donalds. Þau eru unnin af fjármálastjóranum, endurskoðunarfyrirtæki og öðrum starfsmönnum hans. Því sjá allir að börnin munu ekki vita neitt í smáatriðin um þetta ... né er ætlast til þess að þau geri það í raun. Eiga þau að framkvæma eigin áreiðanleikakannanir," spurði Barr.