c

Pistlar:

19. janúar 2023 kl. 16:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Orðræðustríð og innræting

Glærumálið svokallaða í framhaldsskólum landsins hefur kallað fram þau viðbrögð hjá kennurum að þeim finnst að óeðlilegt sé að taka upp fólk gegn þess vilja. Með öðrum orðum kennarar kvarta yfir því að nemendur taki þá upp í tíma og ótíma og noti upptökurnar gegn þeim. Súsanna Margrét Gestsdóttir, brautarformaður Menntunar framhaldsskólakennara við Háskóla Íslands, skrifar grein á Vísi í vikunni þar sem hún spyr hvort ritskoða eigi kennara? Hún nefnir sem dæmi að samtökin PEN, sem barist hafa fyrir tjáningarfrelsi í heila öld, hafi nýlega birt upplýsingar um gríðarlega fjölgun þess sem kallað er „educational gag orders“ í Bandaríkjunum á síðasta ári. Samkvæmt upplýsingum Súsönnu Margrétar hafa 137 lagatillögur um að banna ákveðin umfjöllunarefni í skólum verið tekin fyrir í 36 ríkjum, sem sé 250% fjölgun frá fyrra ári. „Þeim fylgja sektir, stofnanir eru sviptar opinberum fjárframlögum, þeim er lokað eða kennarar sóttir til saka. Málefnin eru einkum tengd kynþáttaumræðu, hinsegin málum, málefnum kynjanna og sögu. Bækur eru bannaðar, kennarar látnir taka pokann sinn,“ skrifar Súsanna sem sjálf er reyndur sögukennari.tjopdernis

Orðræðustríð og innræting

Það er rétt hjá Súsönnu að þetta er öfugþróun þó ekki verði séð að kennarar hafi almennt barist fyrir tjáningarfrelsi fyrr en hugsanlega nú þegar eldurinn brennur á þeim. Það verður einnig að gera greinarmun á orðræðustríði í háskólum undir merkum þeirra menningarátaka sem birtast í woke-isma og innrætingu sem beinist gegn yngri börnum. Þar hlýtur að vera viðkvæmast allt efni sem beinist að grunnskólabörnum og það var þunginn í gagnrýni minni hér í síðasta pistli en Ríkisútvarpið hefur þar farið inn á nýjar og vafasamar brautir án þess að það hafi fengið eðlilega umræðu.

Ríkisútvarpið hefur ekki fjallað að neinu ráði um þetta mál en Súsanna var hins vegar mætt í morgunútvarp Rásar 2 í morgun og var klöppuð upp af þáttastjórnendum og sérstök frétt skrifuð um málið. Af þeirri umræðu sem þar fór fram virðast þeir sem hafa áhyggjur af skólastarfi vera vandamálið. Þannig tekst Ríkisútvarpinu að horfa rækilega framhjá umkvörtunum manna eins og fyrrverandi forsætisráðherra, fyrrverandi menntamálaráðherra og þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, svo fáeinir séu nefndir af þeim sem hafa rætt glærumálið. Súsanna virðist telja kennara hafna yfir gagnrýni og frábað sér afskipti stjórnmálamanna. Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, skrifaði af þessu tilefni í morgun að þarna væri verið að snúa hlutunum við, ofbeldismaðurinn sé fórnarlamb og sá sem ráðist er á sökudólgurinn!verslo

Hleranir, gagnastuldur og persónunjósnir

Það er hins vegar eðlilegt að gagnrýna upptökur og hleranir eins og Súsanna gerir, þó hún takmarki gagnrýni sína við slíkt framferði í kennslustofum. Það er reyndar umhugsunarvert hvort farsímar eigi að vera leyfðir í kennslustundum, en það er önnur umræða. En upptökur, myndatökur og hleranir án þess að þeir sem fyrir því verða viti af því er mikill ósiður og siðferðilega ámælisvert svo ekki sé meira sagt. Það lýsir ekki miklum trúnaði eða vilja til að takast á við mál með opnum hætti að gera slíkt. Því miður virðast fjölmiðlar ýta undir hleranir, gagnastuld og persónunjósnir og sumir virðast halda að þar helgi tilgangurinn meðalið.

Það er ekki langt síðan pistlaskrifari hlustaði á þrjá fjölmiðlamenn ræða saman á Hringbraut þar sem umræðan einkenndist af mikilli vænisýki þar sem þeir gáfu sér að allir væru að hlera alla. Þannig lýsti einn þátttakandi (pistlaskrifari á Stundinni sem þá var) að þegar hann og félagar hans hittust væru rafhlöður fjarlægðar úr farsímum. Ekki er vitað hvað eða hverja hann taldi sig þurfa að varast því nánast allar ólöglegar hleranir, upptökur og persónunjósnir virtust enda í Stundinni sem er nú orðin hluti af fortíðinni. Það má rifja upp að þegar forsætisráðherra landsins var gert fyrirsát í Panamamálinu svokallaða þá höfðu sænskir fjölmiðlamenn efasemdir um siðferðið bak við það, en Íslendingarnir sem komu að málinu töldu slíkar siðferðislegar vangaveltur léttvægar. Þegar þeir voru á leiðinni í viðtalið umdeilda í Ráðherrabústaðnum (sem var vandlega skipulagt og til stofnað með fölsunum og lygum) tala þeir um „coup“. Eru þarna á ferð menn sem leita sannleikans eða eru þeir byltingamenn þar sem tilgangurinn helgar meðalið? Meðfylgjandi mynd sýnir töflufund fyrir viðtalið við forsætisráðherra landsins þar sem lagt var á ráðin um hvernig myndavélar myndu elta hann ef hann brygðist hart við óundirbúnum spurningum í fyrirsáti blaðamanna.skipulag

Úr hvaða samhengi?

Að því sögðu hlýtur að vera mikilvægast að innan skólanna sé stunduð uppbyggileg og menntandi fræðsla og kennsla (ég er viss um að þetta er miklu betur orðað í kennsluskrá). Ég hef sjálfur reynt að þetta á ekki alltaf við og nú höfum við tiltekin dæmi um umdeilanlega framsetningu á efni sem væntanlega er ætlað að hjálpa nemendum að skilja sögu sína og umhverfi. Viðkomandi kennarar eða skólastjórnendur hafa það eitt sagt, þegar málið kemur til umræðu, að það sé úr samhengi en ekki boðið upp á umræðu um hvert samhengið er og kosið að reyna að þegja málið í hel og nú er áðurnefndur talsmaður kennara farin að beita gaslýsingu. Hugsanlega væri bara betra að ræða þessi mál með staðreyndir á borðinu.

Við þetta má svo bæta, að velta má fyrir sér hvort sömu viðbrögð hefðu komið frá Súsönnu Margréti, hefði Katrín Jakobsdóttir verið sett í sambærilegt samhengi og Sigmundur Davíð eða að glæra hefði sést þar sem lagt væri út frá kommúnískri fortíð vinstrimanna, Samfylkingarinnar eða Vinstri grænna. Efast má um það en tvískinnungurinn er öllum augljós.

Rifja má upp að félagsskapurinn Vantrú kærði árið 2010 stundakennarann Bjarna Randver Sigurvinsson í guð- og trúarbragðafræðideild HÍ fyrir umfjöllun hans um Vantrú í tímum. Var Bjarni Randver meðal annars kærður fyrir birtingu á glærum sem félagsmönnum Vantrúar var ekki að skapi. Þá hafa ýmsir rifjað upp að Snorri Óskarsson, kenndur við Betel, var vikið frá kennslu en voru dæmdar bætur síðar. Einnig var Kristni Sigurjónssyni, fyrrverandi lektor við Háskólann í Reykjavík, sagt upp í október 2018. Bæði Kristinn og Snorri voru látnir fara vegna ummæla sem féllu utan skólastofunnar. Engin kennarasamtök risu þessum mönnum til varnar og Súsanna Margrét var ekki spurð um þessi dæmi á Rás 2.

Það er gott og blessað að kennarar taki þátt í umræðu um sögu og samfélag með nemendum sínum enda margt ungt fólk áhugasamt um slíkt þó oftast sé það þannig að aðeins lítill hluti nemenda tekur þátt í þeim. Ungri börn eru sérlega fróðleiksfús en þá einkum á heim vísinda og náttúru, miklu frekar en samfélagsmál. Það breytist á framhaldsskólastigi. Það hlýtur þess vegna á öllum tímum að vera viðkvæmt að útbúa kennsluefni eins og þær glærur sem hér hafa verið til umræðu sýna. Kennarar verða bara að taka slíkri gagnrýni.