c

Pistlar:

5. mars 2023 kl. 12:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fínstilling andrúmsloftsins

Loftslagsmálin eru fyrirferðamikil og munu án efa kalla yfir okkur miklar breytingar hverjar svo sem þær verða. Nú síðast virðast stórhuga menn ætla að reyna að balansera andrúmsloftið út frá fyrirframgefinni skilgreiningu um hvernig það er réttast. Það mun kosta svo mikla peninga að erfitt er að gera sér það í hugalund. Augljóslega er um að ræða sívaxandi iðnað sem mun í framtíðinni draga til sín stjarnfræðilegar upphæðir og því eðlilegt að margir hugsi sér gott til glóðarinnar með að bjóða þjónustu í kolefnisiðnaðinum.MIT_Carbon-Emissions

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins í vikunni var fjallað um bandaríska kolefnisföngunar – og förgunarfyrirtækið Running Tide sem er með starfsemi hér á landi en það hyggst nýta og magna upp náttúrulegar leiðir hafsins til kolefnisbindingar eins og haft er eftir forráðamönnum félagsins. Running Tide hyggst hefja tilraunafleytingar flothylkja í vor og hefur þess vegna ræktað þörungagró á Akranesi og býr sig undir að blanda lífmassa á Grundartanga.

Því er spáð að markaðurinn fyrir vottaðar kolefniseiningar, líkt og þær sem Running Tide selur, geti fimmtánfaldast á næstu sjö árum. Tólf starfsmenn eru hjá Running Tide á Íslandi en hjá móðurfélaginu í Bandaríkjunum starfa 100 manns. Hluti af rannsóknar- og þróunarstarfi fyrirtækisins fer fram hér á landi en starfsemin hófst í apríl á síðast ári.

Umfangsmesti iðnaður heims?

Í greininni er sagt frá því að kolefnisföngun og -förgun er vaxandi iðnaður á Íslandi og víðar í heiminum. Nægir þar að nefna aukin umsvif Carbfix, dótturfélags Orkuveitunnar, sem bindur kolefni varanlega í bergi og svissneska fyrirtækisins Climeworks sem starfar á Hellisheiði og fangar efnið úr andrúmsloftinu. Talið er að fyrirtæki muni í framtíðinni greiða fyrirtækjum sem þessum fyrir föngun og förgun til að minnka kolefnisspor sitt.

Í grein Morgunblaðsins er vakin athygli á því að tæknifyrirtækin Microsoft, Stripe og Shopify hafi nú þegar keypt slíka þjónustu af Climeworks. Stripe og Shopify eru meðal fjárfesta í Running Tide. Þar er haft eftir Kristni Árna Lár Hróbjartssyni, framkvæmdastjóra Running Tide á Íslandi, að fjárfestar séu tilbúnir að veðja á að Running Tide verði leiðandi í kolefnisförgun og sölu kolefniseininga í heiminum. Hann segir fjárfesta hafa valið Running Tide vegna þess að aðferðirnar sem fyrirtækið er að þróa bjóði upp á mjög mikla uppskölun sem er vissulega mikilvægt. Kristinn segir að loftslagsiðnaðurinn sé nýjasta stóriðjan og verði mögulega umfangsmesti iðnaður heims innan fárra ára. Sem dæmi um vaxtarmöguleika geirans þá stendur til að fjárfesta fyrir milljarðatugi í Carbfix eins og fjallað hefur verið um hér. Ljóst er að þetta eru gríðarlega dýrar aðgerðir og í tilfelli Carbfix þá þarf gríðarlegt vatnsmagn og orku til að dæla því.co2

OR setur 40 milljarða í förgun

Í Morgunblaðinu er rifjað upp að samkvæmt fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árin 2023-2027 sé áætlað að félagið verji 40 milljörðum króna á tímabilinu í uppbyggingu förgunarstöðva fyrir kolefni og í frekari rannsóknir. Þetta var pistlaskrifara ókunnugt um en Kristinn segir að mikil þörf sé á kolefnisförgun á stórum skala í framtíðinni. Hann vitnar til nýrrar skýrslu IPCC, nefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, um að förgunarþörfin hlaupi á 6 til 10 milljörðum tonna á ári. Til samanburðar náðist aðeins að farga 30 þúsund tonnum af kolefni á síðasta ári. Förgunin sé til viðbótar við nauðsynlegan stórkostlegan samdrátt í útblæstri. Það er því augljóslega ærið verk fram undan en allt á þetta að styðja við þau alþjóðlegu markmið að hlýnun andrúmsloftsins verði ekki meiri en nemur 1,5-2 gráðum fyrir árið 2100.

Kristinn segir nauðsynlegt að fanga og farga kolefni til að eiga möguleika á að hindra þau víðtæku hlýnunaráhrif sem eiga eftir að verða vegna kolefnislosunar síðustu áratuga. Í raun sé verið að snúa við þróuninni. Skila þurfi kolefninu aftur til baka til varanlegrar vistunar, til dæmis á hafsbotni, eins og Running Tide virðist horfa til, en hafsbotninn geymi nú þegar 38 þúsund gígatonn af kolefni upplýsir Kristinn.

Stýrir maðurinn kolefnishringrásinni?

Kristinn segir að tvær tegundir kolefnishringrása séu að verki í heiminum, hæg og hröð. Hæga hringrásin gerist á mjög löngum jarðfræðilegum skala. Hraða hringrásin er allt í kringum okkur, í lífverum á landi og í efstu lögum sjávar. Plöntur nota ljóstillífun og breyta koltvísýringi í vefi til að byggja sig upp. Dýr éta plönturnar eða þær deyja og rotna og skila kolefninu út í andrúmsloftið. Kristinn segir mannkynið hafa frá tímum iðnbyltingar dælt allt að 1.5 trilljón tonnum af kolefni í hröðu hringrásina úr þeirri hægu með því meðal annars að grafa upp og brenna kol og olíu. Ójafnvægið sem við höfum valdið leiðir af sér hnattræna hlýnun og súrnun sjávar. „Okkar verkefni er að skila eins miklu af þessu kolefni til baka og við getum,“ segir Kristinn.

Kristinn bendir á að sjórinn sé stærsti kolefnisgleypir heims. „Hafið drekkur í sig um 30% af koltvísýringnum sem við losum ár hvert og áætlað er að einn milljarður tonna af kolefni sökkvi til botns árlega og geymist þar varanlega. Um leið og kolefnið er komið á ákveðið dýpi hefur það verið aftengt hröðu hringrásinni, sem er jákvætt fyrir loftslagið.“

Allt eru þetta forvitnilegar vangaveltur sem sýna glögglega þær gríðarlegu fjárfestingar sem eru framundan í „kolefnisiðnaðinum“ sem margir fjárfestar horfa til með eftirvæntingu.