c

Pistlar:

7. mars 2023 kl. 10:37

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Grænir peningar Landsvirkjunar

Ársfundur Landsvirkjunar fer fram í dag og um leið greindi Fréttablaðið frá nýrri skoðanakönnun sem sýnir að níu af hverjum tíu Íslendingum telja að Landsvirkjun skapi
mikil verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Tæp 30 prósent meta verðmætin gríðarmikil, rúm 30 prósent mjög mikil og um 27 prósent frekar mikil. Þetta eru niðurstöður úr skoðanakönnun sem Gallup vann fyrir Landsvirkjun. Könnunin var unnin í lok síðasta árs og birtist núna í tilefni ársfundar Landsvirkjunar sem verður haldinn í dag í Hörpu.landsv

Það er auðvitað áhugavert að fá fram álit almennings á starfsemi og stefnu Landsvirkjunar þó sjálfsagt megi deila um hvaða spurningar eru lagðar fyrir í könnun sem þessari. Í könnun Gallup var meðal annars spurt hvort virkjanir Landsvirkjunar hafi haft jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Niðurstaðan var sú að ríflega þrír af hverjum fjórum aðspurðum segjast vera þeirrar skoðunar að þær hafi haft jákvæð áhrif á samfélagið eins og kemur fram í frétt Fréttablaðsins.

Þegar fólk í nærsamfélagi virkjana er spurt, það er fólki sem er á sjálfum starfssvæðum Landsvirkjunar, hvort það telji virkjanir Landsvirkjunar hafa haft jákvæð áhrif þar heima í héraði eru viðbrögðin enn jákvæðari gangvart virkjunum. Algengt er að yfir 80 prósent heimafólks meti áhrifin jákvæð, hluti svarar hvorki/ né en neikvæðir eru oftast á bilinu 2-5 prósent. Þá lýstu um 65 prósent allra aðspurðra sig fylgjandi frekari virkjanaframkvæmdum hér á landi og rúm 16 prósent að auki tóku ekki afstöðu. Frekar, mjög eða alfarið andvíg frekari virkjunum voru samtals 20 prósent, eða um fimmtungur aðspurðra.

Fjármögnuð umræða

Hér á þessum vettvangi hefur í gegnum tíðina mikið verið fjallað um orkumál og stefnu í þeim málaflokki og þá eðlilega starfsemi Landsvirkjunar. Um þessi mál hefur oft verið talsverður styr enda hávær hópur sem talar gegn frekari orkunýtingu sem hefur haft sín áhrif. Þar eru samtök eins og Landvernd framarlega í flokki en samtökin njóta verulegra opinberra framlaga sem þau nota óspart til að kaupa auglýsingar og kynna sinn málstað. Nú Landsvirkjun sjálf rekur stóra kynningadeild og hefur nánast ótakmarkað fjármagn til að kynna sína starfsemi og sín áform. Svo mjög að sum sveitafélög kvarta yfir því. Allt er þetta umhugsunarvert því það getur verið að stór hluti landsmanna hafi aðra sýn á málin en rúmast innan Landverndar eða hjá stjórnendum Landsvirkjunar. Hugsanlega mætti gera sjálfstæða könnun á afstöðu landsmanna til ýmsa mál er varðar starfsemi Landsvirkjunar og orkuvinnslu en þó ekki síður stefnu í þeim málum.virkj

Undirritaður hefur talað fyrir frekari orkunýtingu í gegnum tíðina og bent á mikilvægi Landsvirkjunar og stundum þurft að þola ákúrur fyrir það, kallaður virkjanasinni eða stóriðjusinni svo vitnað sé til kurteisustu ummælanna. Það er því gott að landsmenn skilji mikilvægi orkuframleiðslu hér á landi og hversu umhverfisvæn okkar orkuvinnsla er. Fréttablaðið greindi frá því síðastliðinn föstudag að erlendir ferðamenn á Íslandi væru sáttir við þá grænu orkuvinnslu sem þeir yrðu varir við á ferðum sínum. Um 99 prósent töldu orkuvinnsluna ýmist hafa haft jákvæð áhrif eða engin á upplifun þeirra af íslenskri náttúru. Þetta eru mikilvæg skilaboð.

20 milljarðar en enginn Þjóðarsjóður

Yfirskrift ársfundar Landsvirkjunar er Grunnur grænna samfélags. Félagið beinir öllu sínu kynningarstarfi að slíkum áherslum enda þarf það ekki að höfða lengur til orkukaupenda, þeir bíða í röðum en um leið blasir við að víða vantar orku, eins og sést í sjávarútvegsbyggðum landsins. Getur Landsvirkjun kallað sig grænt fyrirtæki ef það getur ekki útvegað viðskiptavinum sínum græna orku?

Í uppgjöri Landsvirkjunar í febrúar síðastliðnum kom fram að orkufyrirtækið hyggst greiða 20 milljarða króna í arð til ríkisins. Þeir fjármunir fara beint í ríkissjóðshítina og koma sér vel. En enginn ræðir lengur um sérstakan Þjóðarsjóð, hugsanlega nefnir fjármálaráðherra það í dag, hver veit?