c

Pistlar:

23. júní 2022 kl. 9:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Orkuframkvæmdir eða skert lífskjör

Framkvæmd og útfærsla orkustefnu landsmanna verður augljóslega tilefni heitrar umræðu næstu misseri. Nú þegar ný rammaáætlun hefur verið samþykkt á Alþingi gæti skapast tækifæri til að taka ákvarðanir um frekari uppbyggingu orkuvinnslu og skipuleggja framtíðarfyrirkomulag orkumála í landinu. Um leið geta landsmenn rifist um hve mikla orku við Íslendingar þurfum yfir höfuð og hvar eigi að sækja hana.

Staðreyndin er sú að orka og hagvöxtur haldast í hendur og án hagvaxtar verður engin breyting á lífskjörum fólks. Þeir sem tala fyrir því að ekki verði meira virkjað verða því að útskýra hvernig lífskjör þjóðarinnar eigi að þróast næstu ár og áratugi. Er þjóðin tilbúin til þess að taka á sig verulega lífskjaraskerðingu sem fylgir óhjákvæmilega því að virkja ekki meira? Hvernig á að útfæra þessa lífskjaraskerðingu og hvaða stjórnmálaafl ætlar að fylgja því eftir? Að lokum hljóta landsmenn að ákveða hvað leið verður farin lýðræðislegum hætti með því að veita atkvæðum sínum til þeirra sem bjóða upp á skynsama stefnu í orkumálum þjóðarinnar.virkj

Orkustefna í uppnámi

Við sjáum að orkustefna margra nágranalanda okkar er í miklu uppnámi. Rangar ákvarðanir hafa verið teknar, oft undir þrýstingi frá umhverfisverndarsamtökum og hagsmunasamtökum undir yfirskini náttúruverndar eða loftslagsmála. Skammsýni einkennir þessar ákvarðanir eins og oft hefur verið bent á hér í pistlum. Vestur-Evrópa er í miklum vandræðum þegar kemur að orkumálum en mikill vilji hefur verið til þess að tengja orkustefnu Íslendinga við orkustefnu ESB svæðisins í gegnum orkupakka 3 og 4. Umræða um afleiðingar þess er stundum flókin og illskiljanleg en sést kannski skýrast af því að þessi stefna hefur gert það að verkum að venjulegt fólk í Vestur-Evrópu á nú í vandræðum með að kynda heimili sín. Meira að segja Noregskonungur verður að sleppa því að kynda hluta húsakynna sinna. Það er engin ástæða til að vorkenna konunginum en Íslendingar búsettir í Danmörku og Noregi hafa lýst allt að tvöföldun á kyndingarkostnaði á einu ári, oft án nokkurs fyrirvara. Það er hið raunverulega gjald sem kemur fyrir þátttöku í orkupakka 3 og 4 enda skýringin sem fylgir þessum hækkunum þessi: Jöfnun á orkukostnaði annarra landa í ESB.

Hér hefur margoft verið farið yfir hina misheppnuðu orkustefnu Angelu Merkel, fyrrverandi kanslara Þýskalands. Þýskaland lokaði sem kunnugt er kjarnorkuverum en varð fyrir vikið háð Rússlandi um gas sem orkugjafa og setti þannig bæði orku- og öryggisstefnu landsins í uppnám. Nú virðist hringnum lokað þar sem Þjóðverjar eru að kveikja á ný upp í kolaverum landsins. Þetta sama á við um nágranalönd Þýskalands, svo sem Holland og Belgíu, allt kjarnalönd í Evrópusambandinu. Frakkar hafa þó kosið að halda sínum kjarnorkuverum og Bretar hafa fjölbreyttari uppbyggingu í sínum orkuiðnaði. Um orkustefnu Þjóðverja segja sérfræðingar að varla sé betra dæmi í sögunni um misheppnaða efnahags-, stefnumótunar- og loftslags-/umhverfisstefnu.

Geta umhverfissinnar afsalað sér orkunotkun?

En fólk sem hugsar á líkum nótum og þeir sem hafa klúðrað málum í Evrópu vill fá að móta orkustefnu Íslands. Hvernig er hægt að ná sátt við þetta fólk? Er mögulegt að gefa tilteknum fjölda Íslendinga kost á að móta orkustefnu með hegðun sinni? Til dæmis ef 50 þúsund Íslendingar skrifa uppá að að þeir hyggist afsala sér þátttöku í frekari orkuaukningu með því að skera niður orkunotkun sína á móti. Er mögulegt að útfæra slíka nálgun? Ein leið væri að viðkomandi umhverfisverndarsinnar myndu skuldbinda sig til að eiga ekki bíl og fara ekki til útlanda. Hvoru tveggja vegur þungt í orkukostnaði. Einnig gæti þessi hópur skrifað upp á ýmsar skuldbindingar um orkusparnað og á móti yrðu virkjanakostir í réttu hlutfalli við viðkomandi fjölda lagðir til hliðar. Þetta er ekki einfalt í útfærslu en ekki ómögulegt. Sumir segja sjálfsagt að þetta sé ekki raunhæf leið en spyrja má sig hve miklu umhverfisverndarsinnar vilja kosta til því óumdeilt er að minni orkunotkun hefur áhrif á lífshætti fólks. Þetta er nefnt hér til að benda á það val sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag, á milli velferðar og staðnaðs þjóðfélags, þar sem öll mannleg inngrip í náttúruna eru talin til tjóns. Í landi þar sem náttúran er látin njóta vafans er maðurinn augljóslega settur til hliðar. Er það það sem Íslendingar vilja?