c

Pistlar:

28. mars 2023 kl. 21:03

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Velgengnisvandi ferðaþjónustunnar

Það er engum blöðum um það að fletta að ferðaþjónustan á Íslandi hefur náð gríðarlegum árangri undanfarin ár. Spár gera ráð fyrir að hingað til lands komi metfjöldi ferðamanna sem er að vissu leyti afrek, svo skömmu eftir faraldurinn. Mikil uppbygging hefur orðið á undanförnum árum, glæsileg ferðaþjónustufyrirtæki orðið til og svo getur jafnvel farið að þrjú slík bætist við í kauphöllina þar sem flugfélögin Icelandair og Play eru fyrir. Hér var fyrir stuttu fjallað um mikla uppbyggingu baðstaða sem eru nú orðnir eitt af helstu táknum Íslands. Heit böð eru allstaðar lúxus og verðið inn á þessa staði er í ætt við það. En ekkert lát virðist á aðsókninni og mikil áform um frekari uppbyggingu. Sjálfsagt er ekki langt að bíða að einhver segi að baðstaðirnir séu næsta loðdýraævintýri! Ekki að undir það sé tekið hér, en margir sjá þarna tækifæri.20180526_114739

Hótel hafa risið hratt undanfarið og verða æ glæsilegri og betur í stakk búin til að þjónusta efnuðum ferðamönnum og fágætisferðamennsku, sem mun vera orð yfir þá sem vilja eyða miklum peningum í ferðalög. Afþreyingum fjölgar fyrir ferðamenn og getan til að sinna þeim batnar stöðugt. Hellar eru grafnir í jökla og hvalaskoðunarferðir virðast aldrei vinsælli þrátt fyrir veiðar á hvölum séu enn við lýði. Um leið hefur náðst þokkalegur árangur við uppbyggingu innviða, þjónusta hefur víða batnað og fræðslu- og upplýsingasetrum fjölgað. Náðst hefur árangur við aðgangsstýringu ferðamanna inn á eftirsóttustu svæðin eins og Þingvelli, Geysi og Gullfoss eða gullna þríhyrninginn. Um leið hefur orðið bæting á aðgengi margra staða.

Velgengnisvandinn

Vandinn við ferðaþjónustuna er því nokkurskonar velgengnisvandi sem kristallast í frétt um ólíka áherslu Færeyinga og Íslendinga í ferðamennskunni. Þrátt fyrir áform um að stýra fjölgun farþega og hafa meira út úr hverjum gesti (sem hefur skilað nokkrum árangri) þá stendur mörgum stuggur af fjölguninni og ferðaþjónustan sjálf virðist lítið geta hamið sig. Nema hvað, hver vill fara í land á meðan enn fiskast?

Ísland er miklu stærra land en Færeyjar og sjálfsagt má bæta dreifingu ferðamanna yfir árið og landið. En nú þegar ferðmenn verða líklega vel á þriðju milljón á árinu má búast við að þröngt verði í búi fyrir innlenda ferðamenn í eigin landi. Yfir sumarið eru öll gistipláss ásetin og sama á við veitingastaði og vinsæla ferðamannastaði. Þetta er bara eitthvað sem við verðum að sætta okkur við. Um leið er ljóst að ferðaþjónustan er að stórum hluta rekin með erlendu vinnuafli. Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að sú saga hafi gengið í Þórshöfn í Færeyjum að sá sem aki hringinn í kringum Ísland geti átt von á að hitta aldrei einn einasta Íslending sem starfsmann þótt hann gisti á tíu ólíkum hótelum. Samskipti við heimamenn eru takmörkuð sem er jú ávallt hluti ferðaupplifunar eða það þekkjum við flest af eigin ferðalögum. Viljum við bjóða upp á þannig ferðamennsku?ferda

Að tryggja öryggi

En það verður ekki séð að það sé nein bremsa. Flæðið er mikið og nú má spyrja hvernig lögregla, hjálparsveitir og aðrir öryggisaðilar eru undirbúnir. Sama má segja um heilbrigðiskerfið. Allt þetta skiptir máli, við verðum að tryggja öryggi gesta okkar og standa undir væntingum þeirra. Sem betur fer hefur það oftast gerst en hér hafa þó orðið slys sem hefði hugsanlega verið hægt að koma í veg fyrir með betri undirbúningi og betri gæslu. Allt þetta er sagt af því að nú stefnir allt í eina átt með ferðaþjónustuna. Þó í því felist mikil tækifæri þá fylgir því líka mikil ábyrgð. Við getum ekki horft framhjá því.