c

Pistlar:

22. nóvember 2023 kl. 17:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Coripharma, enn eitt lyfjaævintýri?

Það hve íslenskur lyfjaiðnaður er að mörgu leyti öflugur og hve athyglisverða sögu hann á er merkileg staðreynd. Ris hans og fall hefur einnig verið fyrirferðamikið og haft veruleg áhrif á íslenska viðskiptasögu. Um endurnýjaðan uppgang íslensks lyfjaiðnaðar var fjallað hér í pistli fyrir þremur árum. 

Í ViðskiptaMogganum í dag er fjallað um samheitalyfjafyrirtækið Coripharma í Hafnarfirði sem hefur vaxið hratt frá stofnun árið 2018. Um leið er forvitnilegt viðtal við við Jónínu Guðmundsdóttur, forstjóra Coripharma, um sögu fyrirtækisins og almennt um lyfjaiðnaðinn hér á landi. Þróun félagsins sýnir vel þá möguleika sem eru í þekkingariðnaði eins og lyfjaiðnaðurinn sannarlega er. Velta fyrirtækisins á þessu ári hefur tvöfaldast frá fyrra ári og er um tuttugu milljónir evra, jafnvirði rúmra þriggja milljarða íslenskra króna. Á næsta ári er gert ráð fyrir að veltan tvöfaldist aftur og verði um 40 milljónir evra eða 6,3 milljarðar króna. Stefnt er að skráningu Coripharma í Kauphöll Íslands árið 2025 og yrði þá annað lyfjafyrirtæki í Kauphöllin en Alvotech var skráð þar fyrir ári síðan.cori1

Fram að því hafði ekki verið lyfjaframleiðslufyrirtæki í Kauphöllinni síðan stórfyrirtækið Actavis var yfirtekið og afskráð árið 2007, nánast á hátindi íslenska bóluhagkerfisins. Skömmu eftir yfirtökuna sumarið 2007 reis íslenska hlutabréfavísitalan yfir 9000 stig sem sýndi sig vera einhver mesta hlutabréfabóla sem sögur fara af. Afskráning Actavis á þeim tíma færði háar fjárhæðir til íslenskra fjárfesta þó það sé önnur saga hvernig þeim reiddi af þegar bankahrunið skall á og kauphöllin íslenska nánast þurrkaðist út.

Íslenski einkaleyfaglugginn

Það er auðvitað áhugavert hvernig íslenskur lyfjamarkaður þróaðist. Upphafið má rekja til þess að áður fyrr sóttu alþjóðleg frumlyfjafyrirtæki ekki um einkaleyfi á Íslandi vegna smæðar markaðarins. Það leiddi til stofnunar lyfjafyrirtækisins Delta árið 1981. Delta, sem að mestu var í eigu íslenskra lyfsala, reisti síðar mjög glæsilega lyfjaverksmiðju í Hafnarfirði. Þar gat félagið þróað samheitalyf og sett hvaða lyf sem það vildi á íslenskan markað. Sömu virku efnin voru notuð og í frumlyfjunum og þróað var fram hjá einkaleyfum. Í kringum 1990 kom ný evrópsk reglugerð sem leyfði þróun og markaðssetningu samheitalyfja sem þá var hægt að selja ódýrara í apótekum en frumlyfin. Þetta er í raun upphaf samheitalyfjabransans eins og við þekkjum hann í dag. Í kjölfarið gat Delta nú ekki aðeins selt lyf sín á Íslandi heldur einnig í Evrópu um leið og einkaleyfi frumlyfjanna duttu úr gildi. Evrópsku fyrirtækin í löndunum þar sem einkaleyfin voru í gildi gátu ekki gert þetta með sama hætti.

Sameiningar Delta og Pharmaco

En upp úr aldamótunum urðu íslenskir fjárfestar umsvifameiri og horfðu til útrásar. Þar var íslenski lyfjaiðnaðurinn lengi í fararbroddi. Árið 1999 unnu Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir og forystumenn Pharmaco saman að kaupum í 45% hlut í búlgarska lyfjafyrirtækinu Balkanpharma af þarlendum stjórnvöldum. Balkanpharma var ríkisfyrirtæki og eitt allra stærsta lyfjaframleiðslufyrirtæki í Austur-Evrópu þó gæða- og tæknimálum væri þar áfátt.

Í mars árið 2000 keypti Björgólfur Thor 15% hlut Búnaðarbanka Íslands í lyfjafyrirtækinu Pharmaco sem hafði orðið til sem heildsali fyrir lyf og ýmsa aðra starfsemi. En mesta framlegðin var talin í lyfjaframleiðslu og þangað vildu fjárfestarnir. Í ágúst árið 2000 var samþykktur samruni Pharmaco og Balkanpharma undir nafni og merkjum Pharmaco. Eigendur Balkanpharma fengu greitt með hlutabréfum í Pharmaco og hefur sagan sýnt að þar gætu hluthafar Pharmaco ekki hagsmuna sinna. Þegar þarna var komið við sögu var Björgólfur Thor orðinn stærsti einstaki hluthafinn í félaginu með um 35% hlutafjár og á aðalfundi sameinaðs félags var hann kjörinn formaður stjórnar. En eigendur þessa nýja fyrirtækis ásældust framleiðslugetu og þekkingu Delta og gengið var frá sameiningu Delta og Pharmaco í september árið 2002 undir nafni Pharmaco og varð Ró­bert Wessman forstjóri sameinaðs félags en hann varð for­stjóri Delta árið 1999, þá þrítug­ur að aldri. Tveimur árum seinna varð félagið að Actavis sem tók þátt í mörgum yfirtökum seinna.

Snemma árs 2011 var síðan til­kynnt að Act­a­vis ætl­aði að flytja höf­uð­stöðvar sínar frá Íslandi til Sviss. Banda­ríska lyfja­fyr­ir­tækið Watson Pharmaceut­icals keypti hins vegar Act­a­vis á vor­dögum 2012. Um mitt ár 2015 tilkynnti ísra­elska lyfja­fyr­ir­tækið Teva um kaup á sam­heita­lyfja­hluta Allerg­an, sem var áður Acta­vis, á 40,5 millj­arða Banda­ríkja­dala. Það svar­ar til tæp­lega 5.500 millj­arða króna á þeim tíma. Um miðjan júní 2015 hafði nafn Act­a­vis breyst í All­ergan eftir enn eina sam­ein­ing­una og síð­ar til­kynnti fyr­ir­tækið að ákvörðun hefði verið tekin um að loka lyfja­verk­smiðju þess í Hafn­ar­firði árið 2017.cori2

800 manns misstu vinnuna

Það var auðvitað merkilegt að það skyldi ekki vekja meiri athygli að svo stór vinnustaður var nánast að stöðva en um 800 manns unnu þá hjá félaginu í Hafnarfirði. Actavis var með mörg dótturfélög og það arðbærasta var án efa Medis en áðurnefnd Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma, var þar yfir sölunni í yfir 15 ár. Á þeim tíma fóru tekjur Medis úr 20 milljónum evra upp í 500 milljónir evra og stjórnendur félagsins höfðu stjarnfræðileg laun. Það var án efa skynsamlegt hjá eigendum Coripharma að fá hana til liðs við sig.

Árið 2018 keyptu stofnendur Coripharma öll hús og innviði í Hafnarfirði af Teva, alls 17 þúsund fermetra. Með í kaupunum fylgdu öll tæki, þar á meðal gæðakerfið. Engin hugverk voru með í pakkanum en um 190 manns vinna núna hjá Coripharma og hefur fjöldinn nánast tvöfaldast á þremur árum. Spennandi tímar eru fram undan hjá félaginu en það hefur sett tvö lyf á markað og á næsta ári bætast fimm við. Af viðtalinu við Jónínu að dæma virðast íslenskur lyfjaiðnaður nú standa á áhugaverðum krossgötum.