c

Pistlar:

26. nóvember 2023 kl. 11:52

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gildi sannleikans á Gaza

Tíðarandi undanfarinna áratuga hefur fært okkur efasemdir um gildi sannleikans fyrir ýmsar fræðigreinar, svo sem sagnfræði. Það sé í raun engin sannleikur, aðeins túlkanir. Þessi viðhorf gegnsýra nútímann sem er í kapphlaupi við að færa okkur ný tíðindi og þá um leið nýjar túlkanir. Það er síðan í hendi hvers og eins að lesa sinn sannleika út úr framkomnum upplýsingum. Það eru tvær tegundir sannleika, hin sagnfræðilegi og svo hinn stærri sannleikur fortíðarinnar, var haft eftir Robert Lacey, sagnfræðilegum ráðgjafa við gerð hinna vinsælu þátta um Krúnuna.jemen4

Þrír nýlegir heimsviðburðir draga þetta mjög skýrt fram; kóvid-faraldurinn, Úkraínustríðið og nú síðast átökin á Gaza. Þessi nálgun hafði auðvitað heltekið stjórnmálin þar á undan, sérstaklega eftir að Donald Trump kom fram á sjónarmiðið og skoraði meðhöndlun fjölmiðla á sannleikanum á hólm en féll um leið sjálfur í gildruna. Annar sannleikur (alternative truth) var leiddur af öðrum staðreyndum (alternative facts). Mörgum fannst sem Trump og hans fólk væru að setja raunveruleikann á hliðina en var hann ekki orðin skakkur löngu áður?

Efasemdir sem þessar eru engin ný tíðindi fyrir heimspekinga enda hefur hin heimspekilega umræða sett fram vangaveltur um að sannleikurinn hafi í raun ekkert gildi, hvorki fyrir sagnfræðinga né aðra. (Sjá Ádrepur, um sannleika, hlutleysi vísinda, málfrelsi og gagnrýna hugsun eftir Róbert H. Haraldsson 2010). Í skrifum sínum vitnar Róbert til heimspekingsins Arthur C. Danton og gagnrýni hans á sjónarhornshyggju (e.perspectivism). Um það segir Danton, í þýðingu Róberts: „Við getum ekki rætt um satt eða rétt sjónarhorn heldur einungis ríkjandi sjónarhorn. Þar sem við getum ekki höfðað til neinnar staðreyndar sem er óháð því sjónarhorni sem hún styður, þá getum við gert lítið annað en að halda okkar eigin sjónarhorni fram og reyna eftir bestu getu að þröngva því upp á aðra.”

Sannleikurinn um dauðann

Þessa daga er þessi skautun sannleikans hvað skýrust í tölum um fallna á Gaza svæðinu sem var einmitt gert að umræðuefni hér fyrir stuttu. Undir liggur hræðilegur sannleikur um að saklaust fólk deyr og það jafnvel börn, ímynd sakleysisins í hugum allar. Ef morð er höfuðsynd, hvað má þá segja um það að deyða barn? En börn eru eigi að síður fórnarlömb allra átaka og hafa dáið í tugþúsunda vís í Miðausturlöndum áður en núverandi átök komu til. Í Sýrlandi og Jemen dóu þau í þögn en nú hrópar heimurinn. Er það hugsanlega af því að það er meira undir en deyjandi börn?

Það eru ekki ný sannindi að í stríði er sannleikurinn fyrsta fórnarlambið og við vitum í raun ekkert um fjölda fallinna, það eina sem við vitum er að það deyja allt of margir, börn þar á meðal. Hver ber svo ábyrgðina er önnur saga, sá sem dregur börnin fram á vígvöllinn og skýlir sér bak við þau eða sá sem kastar sprengjunni? Hugsanlega eru þeir jafn sekir.

Það er líka mikilvægt að skilja að þó að allar lygar séu ósannindi en ekki öll ósannindi lygar. Það skiptir auðvitað máli í hvaða aðstöðu flytjandi upplýsinganna er. Það fer ekki endilega saman að sá sem eigi mest undir í átökunum eigi endilega mestu að tapa þegar kemur að ósannindum. Ein áhrifamesti atburður stríðsins varð 17. október síðastliðinn þegar flugskeytaárás var gerð á al-Ahli Arab sjúkrahúsið á Gaza. Örfáum mínútum eftir árásina var sagt að 500 manns hefðu látist og Ísraelsmenn bæru ábyrgð á henni sem vakti vonlega mikla reiði og viðbjóð um allan heim. Sú samúð sem Ísraelsmenn höfðu fengið eftir innrás Hamas liða inn í landið þann 7. október virtist hreinlega gufa upp. Ísraelsmenn virtust þarna tapa áróðursstríðinu og skiptir engu þó að nú sé vitað að þeir gerðu ekki árásina og fjöldi fallina hafi verið tíu sinnum færri en sagt var í upphafi. Sú staðreynd er ekki lengur hluti umræðunnar.

En þó að margir virðast taka tölur frá Hamas trúanlegar (sem meðal annars fela í sér að engir Hamas-liðar falla) þá er engin leið að vita nokkuð um tölur fallinna í stríðinu í Úkraínu. Bráðlega verða tvö ár síðan átökin hófust og engin treystir sér til að koma með nokkrar áreiðanlegar tölur um fallna, yfirleitt skeikar tugum þúsunda á tölum. Vissulega geta tölulegar upplýsingar verið mis trúlegar en við vitum að fyrir stríðsaðilum vakir allt annað en að segja sannleikann. Hugsanlega getum við betur treyst lýðræðislegum ríkisstjórnum fyrir honum en einræðisherrum en um það er svo sem engin vissa.afgan2

Tilfinningar umfram staðreyndir

Auðvitað er það svo að við lifum á einhverskonar síðpóstmódernískum tímum þar sem afstæðishyggjan tröllríður öllum fræðigreinum en það kann eigi að síður að vera nauðsynlegt að velta fyrir sér hvað við raunverulega vitum. Einhversstaðar verðum við þó að standa. Sama hver sjónarhorn okkar eru, að endingu veltur trúverðugleiki okkar á því hvernig við notum heimildir og setjum fram rök okkar. Í daglegri umræðu hellast yfir okkur tölur og rannsóknir sem við eigum erfitt með að meðtaka, skilja og setja í samhengi. Við sjáum einnig að fjölmiðlar svara þessu með því að horfa á hið sértæka og keppast meðal annars við að leiða fram fólk sem telur sig bera skarðan hlut frá borði í velferðarsamfélagi nútímans. Í þessu kraðaki getur verið erfitt að setja upplýsingar í skynsamlegt samhengi og fá sjónarhorn sem segir okkur yfir höfuð nokkuð. Erum við nokkru nær eftir enn einn fréttadaginn? Eru ekki flestir að meðtaka upplýsingar sem falla að fyrri heimssýn, í það minnsta verður maður ekki mikið var við að hægt sé að fá fólk til að skipta um skoðun í hinni áköfu umræðu samfélagsmiðlanna.

Stundum örlar á uppgjöf og þá fer umræða í fjölmiðlum og stjórnmálum að höfða meira til tilfinninga en staðfestra staðreynda eða sannleika. Atburðir eins og þeir sem gerast nú á Gaza koma eðlilega róti á tilfinningar fólks og setja allt í uppnám. En vonandi erum við ekki komin á þann stað að sannleikurinn sé fullkomlega afstæður og fyrst og fremst persónubundin upplifun. Áfram markast heimur skynsamlegrar umræðu og þekkingarleitar af heimildum, gagnrýni og túlkunum þessara heimilda og svo aftur gagnrýni á þær túlkanir. Það eru heimildir sem varða veginn, eru akkerisfesti loftkennda hugmynda og oft ófullkominnar þekkingar en svo verður líklega áfram.