c

Pistlar:

4. desember 2023 kl. 14:54

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Napóleon í fortíð og nútíð

Fyrir tveimur árum minntust Frakkar 200 ára dánarafmælis Napóleons Bonaparte (1769-1821). Könnun sem gerð var meðal Frakka árið 2016 sýndi að Frakkar töldu hann næst mikilvægasta mann franskrar sögu, næst á eftir stríðshetjunni Charles de Gaule. Athyglisverð niðurstaða sem sumir gætu freistast til að útskýra með því að Napóleon sé ófrávíkjanlegur þáttur af franskri sögu og ákveðin táknmynd um mikilfenglega stórveldistíma Frakka. Það er ekki að ósekju að Napóleon er kallaður „mikli“ en hernaðarsigrar hans framan af voru taldir varpa miklum ljóma á franska þjóð en hér fylgir samtímamálverk af Napóleon fara yfir Alpana í fótspor Hannibals. Það má hins vegar færa sterk rök fyrir því að Napóleons-styrjaldirnar hafi verið fyrsta heimsstyrjöldin, svo víðfeðm voru áhrif þeirra. Milljónir manna létu lífið í þessum átökum. Við Íslendingar urðum meira að segja varir við áhrifin en danska ríkið fylkti sér með Napóleon og varð gjaldþrota í framhaldi þess eftir að Bretar höfðu eytt danska flotanum og skotið á Kaupannahöfn. Danir höfðu ekki efni á að halda uppi stjórnsýslu hér í kjölfarið og var meðal annars tuktúsið í Stjórnaráðshúsinu opnað og fangarnir reknir heim.alpar

Þegar afmælisins var minnst vafðist það talsvert fyrir Emmanuel Macron Frakklandsforseta hvernig hann ætti að ávarpa arfleifð Napóleons. Macron er vel að merkja yngsti leiðtogi Frakka síðan Napóleon var og hét og hefur sýnt sig vera tækifærissinnaðan rétt eins og Napóleon. En vandræðagangur Macron sýndi vel mótsagnirnar í sögu Napóleons sem ýmist stóð fyrir eða afnam þrælahald. Hann jók réttindi Gyðinga og veitti þeim og múslimum trúfrelsi. Hann var dáður af hermönnum sínum en leiddi þá oft í tortímingu og enginn gat efast um valdagræðgi Napóleons. Til að flækja málið þá var hann ekki einu sinni Frakki, fæddist inn í fátæka aðalsfjölskyldu á eyjunni Korsíku í Miðjarðarhafinu sem lengst af var undir veldi Genóa og þar af leiðandi ítölsk. Korsíka er fjalllend og í raun réðu stór svæði landsins sér sjálf og þar geisuðu ættflokkadeilur og blóðug átök. Það varð ekki fyrr en 1768 sem Korsíka varð hluti Frakklands, eða ári áður en að Napóleon fæddist. Lengi vel störfuðu aðskilnaðarhreyfingar í landinu og margir Korsíkubúar hafa ekki enn viðurkennt yfirráð Frakka!

Nú þegar bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Ridley Scott hefur gert kvikmynd sem er tveir tímar og 38 mínútur að lengd um Napóleon (enn lengri útgáfa mun birtast á streymisveitum) eru menn engu nær um hvernig skuli minnast hans. Sagnfræðingar gefa almennt lítið fyrir útgáfu Ridley Scott en hann segir að það skipti hann litlu. Um myndina sjálfa verður fjallað nánar hér síðar.

Afsprengi frönsku byltingarinnar

Napóleon náði völdum í einhverskonar eftirmála frönsku stjórnarbyltingarinnar sem gerð var árið 1789, dagsetningar sem öll heimsbyggðin telur mikilsverða í stjórnmálasögunni þó menn geti sannarlega greint á um hin endanlegu áhrif byltingarinnar eins og vikið hefur verið að hér í pistli. Upprisa og framganga Napóleons er kannski gleggsta dæmið um að byltingin étur börnin sín og það sást skýrast þegar hann krýndi sjálfan sig sem keisara með páfann sjálfan sem statista og ríkti sem slíkur frá 1804 til 1815.napoleon1

Út um allt Frakkland eru tákn, myndastyttur og listaverk sem minna á ævi og verk Napóleons. Á síðustu tímum hefur mátt greina ákveðið uppgjör við söguna sem oft endar með því að styttum af umdeildum mönnum er velt af stalli og stundum brotnar í öldu mótmæla. Við þekkjum þetta einnig þegar undirokaðar þjóðir frá frelsi. Hver mann ekki eftir því þegar Lenín- og Stalín-styttur voru teknar niður eftir lok kaldastríðsins eða þegar líkneski af Saddam Hussein, forseta Íraks, voru rifin niður í kjölfar falls hans. Þetta voru sannarlega harðstjórar og ættingjar margra fórnarlamba þeirra enn í sárum. Nú síðast höfum við Íslendingar fengið okkar útgáfu af uppgjöri við styttur fortíðarinnar með boðuðum flutningi á styttunni af séra Friðrik.

Lagði grunn að mörgu í hinu nútímalega Frakklandi

Annað gildir um menn eins og Napóleon en hann skóp sannarlega franska sögu og dró stóra drætti í heimssöguna. En maðurinn þyldi sannarlega ekki stjórnsýsluúttekt nútímans, var í raun furðu skeytingalaus um afleiðingar verka sinna sem yfirleitt áttu að vera honum sjálfum til dýrðar. Þannig lagði hann ótrúlega erfiðleika á hermenn sína og því með öllu óskiljanlegt hve vinsæll hann var oftast hjá þeim, hugsanlega skipti máli að hann sagði þeim alltaf að býrokratarnir í París bæru ábyrgð á raunum þeirra.

En hann skóp margt af því sem einkennir franska stjórnsýslu og þjóðfélagsgerð enn þann dag í dag og reyndist nokkur lagabætir. Napóleon stóð fyrir endurbótum á réttarkerfi Frakklands, setti upp Frakklandsbanka (Banka of France) og valddreifingu sveitastjórnarstigsins (préfets), skólakerfi embættiskerfisins (lycées), setti upp légion d’honneur eða heiðurssveitina sem ætlað er að heiðra franska ríkisborgara og verðlaunar þá fyrir framúrskarandi verðleika eða dáðir sem framdar hafa verið í nafni þjóðarinnar, annaðhvort í borgaralegu hlutverki eða undir vopnum.napoleon

Ótrúlegt hernaðarbrölt

Hernaðarbrölt Napóleons var með ólíkindum. Framan af herjaði hann til suðurs. Árið 1796 var hann skipaður yfir innrásarher Frakka sem réðist inn í Norður-Ítalíu og vann þar frækna sigra sem meðal annars mátti þakka hersnilld hans. Hann vann Möltu af Jóhannesarriddurum eða Mölturiddurunum svokölluðu árið 1798 og lagði í hinn sérstæða leiðangur sinn til Egyptalands. Geta franska hersins olli skelfingu í þessum heimshluta en hinir hernaðarlegu yfirburðir hins nútímalega franska hers vorum umtalsverðir og mamlúkaveldið í Egyptalandi riðaði til falls. Hersveit Napóleons taldi um 35 þúsund hermenn en Bretum hafði tekist að eyða flota hans sem átti að vera landnámi Miðausturlanda til stuðnings.

Ekki er með fullu vitað hvað vakti fyrir Napóleon með herleiðangrinum en hann hafði með sér herskara lærdómsmanna sem skráðu og söfnuðu ógrynni muna og lögðu grunninn að Miðausturlandafræði nútímans. Að lokum stakk Napóleon herinn af, sigldi heim og skyldi hermennina eftir á svæðum sem tilheyra Líbanon og Sýrlandi í dag. Það taldi hann nauðsynlegt til að gæta hagsmuna sinna við hirðina en hermenn hans áttu í mestum vandræðum með að komast heim. Seinna lagði Napóleon í hina ótrúlegu ferð til Rússlands með 700 þúsund hermenn sem hann hafði sankað að sér víða í Evrópu en kom aðeins með 20 þúsund til baka eftir að rússneski herinn en þó einkum rússneski veturinn höfðu dregið mátt úr innrásarhernum.napmoiskva

Eiga Frakkar að vera stoltir af Napóleon?

Talið er að ríflega 400 bækur séu komnar út um Napóleon og þeim fjölgar árlega. Franski sagnfræðingurinn Patrice Gueniffey sagði í samtali við Economist fyrir nokkru síðan að Frakkar hefðu margar ástæður til að vera stoltir af honum. Napóleon væri sagnfræðilegt mikilmenni, á pari við Alexander mikla og Júlíus Cesar en báðir hefðu valdið dauða fjölda fólks um leið og þeir breyttu heiminum. Nicolas Mayer-Rossignol, sósíalískur bæjarstjóri Rouen, er hins vegar helst á því að það sé rétt að taka niður mikla bronsstyttu af Napóleon sem stendur fyrir framan ráðhús bæjarins. Út um allt Frakkland eru slíkar styttur af honum, oft á hestbaki, sigurreifur. Þetta truflar marga og stemmningin í samfélaginu virðist kalla á uppgjör. Á móti má spyrja hvort hægt sé að leiðrétta söguna eftirá með því að taka burtu táknmyndir hennar? Það má hafa skilning á þessu á meðan fólk er á lífi sem á harma að hefna en þegar aðeins er við söguna að sakast má velta fyrir sér ágæti þess að þurrka hluta hennar út.