c

Pistlar:

7. desember 2023 kl. 12:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Er hægt að breyta Argentínu?

Þorri Argentínubúa hefur gefist upp á efnahagsástandi landsins. Fólk er fyrir löngu hætt að vonast eftir breytingum og ungt og hæfileikaríkt fólk grípur tækifæri erlendis þegar þau gefast. Fyrir stuttu voru forsetakosningar í Argentínu og hagfræðingurinn Javier Milei var kosinn forseti en hann tekur við embætti í Buenos Aires næsta sunnudag. Javier Milei var óvenjulegur frambjóðandi og spurningin er hvort hann getur gert eitthvað af því sem hann lofaði kjósendum, oft með dramatískum hætti eins og þegar hann mætti með keðjusög á sviðið og sagðist ætla að saga niður feysknar stoðir stjórnkerfisins. Þær eru sannarlega margar í Argentínu en spilling er mikil og almenn þar, svo mjög að margir telja nánast óframkvæmalegt að koma breytingum í framkvæmd. Misjafnar væntingar eru til hans og fréttastofa Vísis heilsaði honum með eftirfarandi fyrirsögn: „Hinn klikkaði“ tantra-sérfræðingur nýr for­seti Argentínu!Javier Milei

Það er eiginlega sama hvar gripið er niður í efnahag þessarar 45 milljón manna þjóðar sem státar af fallegu landi, merkilegri sögu og ótrúlegri ástríðu þegar kemur að knattspyrnu þar sem goðsagnirnar Diego Maradona og Lionel Messi standa upp úr. Það er grínast með það að sérstök deild sé rekin hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) sem sinni eingöngu Argentínu sem hefur fengið þrisvar sinnum meiri fyrirgreiðslu en næst stærsti skuldari sjóðsins, Egyptaland. Argentína skuldar sjóðnum 45 milljarða Bandaríkjadala og lánstraust landsins er í molum og sama má segja um gjaldmiðilinn en gríðarlegt svartamarkaðsbrask afhjúpar líklega betur en annað raunverulegt verðmæti argentínska pesósins og traust á honum. Braskið er nánast hluti af virkri fjárstýringu landsmanna og yfirvöld horfa í gegnum fingur sér með það. Þó að svartamarkaðsbrask sé bannað er enginn dæmdur fyrir það. Þetta er aðeins eitt margra merkja um fallið ríki en fjárlög hafa nú verið afgreidd með halla 13 ár í röð. Tæknilega séð er Argentína gjaldþrota en það eins sem heldur lífi í landsmönnum er gjöful náttúra og ríkulegar auðlindir. Argentínumenn sjálfir grínast með að Argentína sé land sem missir aldrei af tækifæri til að missa af tækifæri!

Javier Milei bauð upp á margar róttækar lausnir og landsmenn voru greinilega sammála honum um að eitthvað verði að gera þó að sumir stuðningsmann hans voni að hann framkvæmi ekki allt sem hann lofaði. Tvennt stóð uppúr, hann vill skera stjórnkerfið verulega niður og fækka ríkisstarfsmönnum. Hins vegar vill hann ná stjórn á peningastefnu landsins og það hyggst hann gera með því að taka upp Bandaríkjadal sem lögeyri. Það er nánast fordæmalaus framkvæmd en dollarinn er nú þegar fótur fyrir viðskiptum í landinu. Um leið hyggst Milei leggja niður seðlabanka landsins og færa þar af leiðandi peningastefnuna til Bandaríkjanna. Þetta er kannski ekki ólíkt hugmyndum ESB-sinna hér á landi en Argentínumenn yrðu sjálfir að verða sér út um dollara.argentína1

Á sérstakan sess í hagfræðinni

Hagfræðingar spauga með að það séu til fjórar ólíkar tegundir af hagkerfum, þróuð og vanþróuð, Japan og svo Argentína! Vissulega eru hagfræðilögmál sveigð verulega í Argentínu sem rekur annað stærsta hagkerfi Suður-Ameríku. Mestu skiptir að verðbólga hefur verið nánast óviðráðanleg og verðbólguhraðinn yfir 100% allt þetta ár. Aðeins Venesúela og Líbanon státa af hærri verðbólgutölum. Slík verðbólga eyðileggur skjótt allt verðskyn og það verður ómögulegt að ná endum saman fyrir fjölda fólks sem getur ekki keypt sér nauðþurftir. Það segir sig sjálft að engum dettur í hug að leggja til hliðar eða spara í heimagjaldmiðlinum. Nú meiga Argentínumenn kaupa 200 dali á mánuði á hinu opinbera gengi. Það ýtir enn frekar undir svartamarkaðsbrask og braskararnir verða stöðugt meira áberandi á götum helstu borga.

Í upphafi 20. aldar var Argentína eitt af ríkustu löndum heims og glæsibyggingar og breiðstræti Buenos Aires eru vitnisburður um það. Það er óumdeilt að ástæðan fyrir efnahagslegum ógöngum Argentínu í dag eru sögulegar og pólitískur óstöðugleiki ræður þar miklu. Allt síðan heimskreppan skall á yfir hefur herinn 12 sinnum gripið inn í stjórn landsins en ekki alltaf haft erindi sem erfiði. Oftar en ekki hefur fylgt harðstjórn með hörmulegum afleiðingum fyrir borgara landsins, jafnvel með óöld og morðsveitum. En til mótvægis við þetta hafa Perónistar ráðið miklu og Milei barðist einmitt við einn slíkan í kosningunum í síðasta mánuði og hafði sigur í seinni umferð með 56% atkvæða. Perónistar hafa ráðið 16 ár af síðustu 20.argent2

Arfleifð Peróns

Pólitísk saga landsins verður ekki sögð án þess að ræða Juan Domingo Perón sem var argentínskur herforingi og kosinn forseti Argentínu þrisvar sinnum. Hann var forseti frá 1946 til 1955 þegar honum var steypt af stóli í herforingjabyltingu, og síðan aftur frá 1973 til dauðadags 1974 en þá tók þriðja kona hans, Isabel Martínez de Perón við. Hún ríkti í nokkur ár í skjóli Perónistahreyfingarinnar sem er pópúlísk hreyfing með sterk ítök við verkalýðshreyfinguna, stundum líkt við fasistahreyfingu Mússólíni á Ítalíu en ítalskir innflytjendur eru fyrirferðamiklir í Argentínu. Önnur kona Peróns, Eva, naut mikillar aðdáunar meðal alþýðu landsins en hún lést 1952. Henni var líkt við Maríu mey og hún átti til að rétta fólki beint pening úr ríkiskassanum!

Perónisminn hefur sterkar þjóðernislegar skírskotanir en Perón gerði ýmislegt fyrir hina vinnandi. Hann stytti vinnuvikuna og átta tíma vinnudagur hét innreið sína. Hann stækkaði ríkiskerfið og réði mikið af fólki um leið og velferðarkerfið var víkkað verulega út. Um leið var verndarstefna tekin upp, allt til að styðja við atvinnu innanlands. Smám saman minnkaði samkeppnishæfni argentínsk iðnaðar og landið lokaði sig frá alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Ár eftir ár hefur útflutningur landsins dregist saman að raunverðmæti.

Niðurgreiðslur á allskonar nauðsynjavörum eru að sliga ríkissjóð Argentínu en 2% af þjóðarframleiðslunni fer í slíkar niðurgreiðslur. Um 30 milljónir manna eru á vinnumarkaði í Argentínu og þriðjungur þeirra starfar hjá ríkinu, oft við störf sem falla nánast undir atvinnubótavinnu. Eigi að síður er atvinnuleysi með því hæsta eða um fjórðungur vinnuafls. Ljóst er að Javier Milei þarf að taka til hendinni.