c

Pistlar:

17. mars 2024 kl. 18:54

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vatnið, vindurinn og Fuerteventura

Eyjan Fuerteventura er aðeins minni að flatarmáli en Tenerife og liggur næst Lanzarote, svo nálægt að sjá má á milli eyja. Fuerteventura er með sendna strendur og hálendishrygg eftir endilangri eyjunni. Margir telja þarna vera bestu baðstrendur á öllum Kanaríeyjunum. Hvað sem hæft er í því er fallegt að ganga sendnar strendur þar með brimið ólgandi fyrir utan en sagt var frá eyjunni í pistli hér fyrir stuttu.

Uppbygging hótela hófst á Fuerteventura ekki fyrir svo löngu síðan en áður en það var reyndist unnt að ganga kílómetra eftir kílómetra á strönd án þess að rekast á annan ferðamann og fyrir 60 árum bjuggu aðeins um 15 þúsund manns á eyjunni. Í dag eru þeir um 130 þúsund auk mikils fjölda farandfólks sem þjónustar þær ríflega tvær milljónir ferðamanna sem nú leggja leið sína til eyjarinnar árlega.fuerte22

Fuerteventura gæti þýtt land hins sterka vinds og er það vissulega rétt, því stundum blæs upp hvirfilbyljahrina á heitum söndum Afríku sem leysist upp í marga smærri vindstróka sem nefndir eru „sciroccos" og þyrlast þeir inn yfir eyjuna.

Vatnsskortur ekki lengur vandamál

Eyjan er þurr af náttúrunnar hendi, vatn saltmengað og því brugðu menn á það ráð að grafa marga og mikla brunna. Við alla brunna voru vindmyllur sem knúðu dælurnar og því hundruð
vindmylla um alla eyju. Í dag sjá stórar vatnshreinsunarstöðvar eyjunni fyrir öllu neysluvatni en þessi tækni hefur tekið stórstígum framförum undanfarinna áratugi og í raun lagt grunn að hinni miklu uppbyggingu sem hefur verið á eyjunni undanfarin áratug. Í dag talar enginn um að flytja neysluvatn til þurrari hluta heimsins með tankskipum en áður fyrir var siglt með vatn yfir til Fuerteventura frá hinum eyjunum. Það er orkufrekt að reka vatnshreinsunarstöðvar og enn er að mestu treyst á jarðefnaeldsneyti þó mikið sé af vindmillum á eyjunni.fuerte33

Hótelskip

Sumardvalarstaður eins og Fuerteventura ganga út á hótelþægindi og sundlaugarlíf. Dvalist var á fjögurra stjörnu hóteli, H10 Hotel Tindayja í Costa Calma, með hálfu fæði en fæstir fara út úr hótelgarðinum enda minna svona hótel á risavaxin skemmtiferðaskipi og hafa innanhús verslanir og ýmsa þjónustu. Þá er ekki mikið bæjarlíf fyrir utan hótelið þó þetta sé mjög snyrtilegt svæði. Hlaðborðin eru undantekningalaust þreytandi þó margt hafi verið gert til að auka lystugleika þeirra. Segja má að framreiðslan hafi tekið matseldinni fram. Við fundum notalegan stað á ströndinni þar sem gott var að borða í hádeginu.

Margskonar afþreying er fyrir þá sem eftir því leita, svona fyrir utan að fara á ströndina. Það er hægt að fara í ökuferðir á litlum utanvegabílum og svo eru hjólaferðir einnig í boði. Nálægt okkur var hin sérstaki dýragarður Oasis Park en þar eru dýrin tiltölulega frjáls þó ekki sé hægt að segja þau séu í náttúrulegu umhverfi eins og þeir auglýsa. Vel er að málum staðið í garðinum og hann að mestu leyti snyrtilegur og áhugavert fyrir ungviðið að komast í tæri við dýr frá Afríku. Þar er auðveldlega hægt að eyða heilum degi.fuerte44

Sögur um nasistaskjól

En fámennið sem þarna einu sinni var gaf færi á ýmsum sögusögnum. Það er áhugavert að rifja upp gamlar sögur um að eyjan væri hæli uppflosnaðra nasista, sem þar áttu að dveljast í skjóli einræðisherrans Francos. Hafi Fuerteventura verið valin til þessa hlutverks sökum þess, að hún sé hæfilega afskekkt en þó í þægilegri nálægð við Evrópu. Meðal dvalargesta á eynni átti að hafa verið Martin Bormann, staðgengill Hitlers. Það var kannski ekki með öllu óvænt því á sínum tíma voru frásagnir um að hann væri að sjá á öllum mögulegum stöðum í heiminum, eða allt frá því að hann hvarf í stríðslokin. Annar kunnur nasisti átti að hafa smyglað út að minnsta kosti fimm hundruð stríðsglæpamönnum nasista, aðallega til Egyptalands, þar sem Nasser átti að hafa tekið við þeim. Sögurnar gengu út á að sumir hefðu farið til Fuerteventura og nýtt sér fámennið og einangrunina til að felast.

Það hefur ýtt undir slíkar sögur að á eyjunni má finna Villa Winter (Casa de los Winter) sem er stórt hús staðsett á afskekktum stað á suðvesturhluta eyjunnar, nálægt þorpinu Cofete á Jandía-skaganum. Húsið var hannað og byggt af Gustav Winter, þýskum verkfræðingi, fæddur árið 1893 í Svartaskógi í Þýskalandi. Húsið er á tveimur hæðum og í kjallara, svalir að framan og turn í norðausturhorni með góðu útsýni. Gustav Winter starfaði á Spáni eftir 1915 og var virkur í ýmsum verkefnum á Fuerteventura og Gran Canaria, þar á meðal við að byggja flugbraut. Húsið og Winter ýttu undir samsæriskenningar um nasista og ekki dró úr því þegar það var hluti sviðsmyndar í nýlegri heimildamynd um nasista.