c

Pistlar:

9. apríl 2024 kl. 13:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Glæpir gegn mannkyninu

Í bók sinni um Miðausturlönd áætlar Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor að um tvær og hálf milljón manna hafi látist í stríðum Miðausturlanda síðustu 50 ára eða svo. Því til viðbótar hafi um 8 milljónir manna lagt á flótta. Bók Magnúsar kom út 2018 og síðan hefur fólk haldið áfram að deyja á þessu svæði, nú síðast ríflega 30 þúsund manns á Gaza. Á sama tíma hefur fjöldi fólks dáið í Sýrlandi og Jemen. Þetta eru gríðarlegar háar tölur og þó að þær jafnist ekki við ógnartölur heimsstyrjaldanna sýna þær glögglega að það er síður en svo friður í heiminum.Skjámynd 2023-11-09 170606

Magnús telur upp fimm stríð við Persaflóann frá 1979. Þau eru stríðið á milli Íraks og Írans (1980-1988), innrás Íraka í Kúveit og Eyðimerkurstorminn (1990-1991), efnahagsþvinganir Sameinuðu þjóðanna gagnvart Írak (1991-2003), innrás og hernám Bandaríkjanna (2003-2011) og arabíska vorið og stríðið í Sýrlandi sem varla er hægt að segja að enn sé lokið. Stríðið milli Íraks og Írans, stundum kallað gleymda stríði, kostaði gríðarleg mannfall þó tölur séu verulega á reiki. Talið er að fjöldi látinna sé á bilinu 400 þúsund til ein milljón. Talið er að um 350 til 500 þúsund hafi fallið í Sýrlandi og Sameinuðu þjóðirnar hafa áætlað að stríðið í Jemen (líka kallað gleymda stríðið) hafi kostað um 380 þúsund manns lífið fram í lok árs 2021, af beinum og óbeinum orsökum. Yfir 150 þúsund af þessum dauðsföllum voru bein afleiðing vopnaðra átaka, en mun fleiri hafa látist vegna hungurs og sjúkdóma vegna mannúðarkreppunnar sem stríðið veldur. Talið er að í það minnsta hundrað þúsund manns kunni að hvíla í fjölda­gröf­um í Sýr­landi en þarlend stjórn­völd taka ekki í mál að þær graf­ir verði rann­sakaðar. 

Gríðarlegt mannfall í Úkraínu og Afríku

Úkraína er nú helsta stríðssvæði heims en mjög er á reiki um tölur fallinna þar. Bæði Úkraínumenn og Rússar eru tregir að gefa upp fallna í eigin röðum en þess viljugri að gefa upp fallna óvini. Meðal Úkraínu-vinveittra sérfræðinga/bloggara er rætt um að allt að 450.000 Rússar séu fallnir. Opinberir aðilar telja það ekki fjarri lagi. Þá er samsvarandi tala hjá Úkraínumönnum líklega á bilinu 60 til 80.000 fallnir.

Um leið eru staðbundin átök víða í Afríku sem koma sérlega illa við óbreytta borgara. Afríka er nú á eigin ábyrgð ef svo má segja en nýlenduveldin gömlu eru með litla eða enga hernaðarlega viðveru þar lengur. Mikill órói einkennir sum svæði Afríku eins og oft hefur verið rætt á þessum vettvangi. Hér hefur áður í pistlum verið fjallað um Sahel-svæðið sem samkvæmt yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna stendur frammi fyrir djúpstæðum mannúðaráskorunum með tæpar 40 milljónir manna í brýnni þörf fyrir lífsbjörgunaraðstoð og vernd, það er 3 milljónum manna fleiri en í fyrra. Í Afríku deyja líklega fleiri af völdum stríðs en í stríðsátökunum sjálfum, að mestu þá börn.boko

30 ár frá fjöldamorðunum í Rúanda

Nú minnist heimurinn þjóðarmorðsins í Rúanda fyrir 30 árum. „Lærdómurinn af þessari reynslu er ristur með blóði í þjóðarsálina,“ sagði Paul Kagame forseti Rúanda í borginni Kígali fyrr í vikunni þar sem fjöldi manns kom saman til að minnast þjóðarmorðsins sem átti sér stað árið 1994. Yfir 800 þúsund manns voru drepin á aðeins 100 dögum þegar vígamenn Hútúa réðust í tryllingi á ættbálk Tútsa. Meðal fórnarlambanna voru einnig Hútúar.

Það er rétt sem forsetinn sagði að alþjóðasamfélagið brást landinu, hver sem ástæðan var fyrir því. Viðstaddur var Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sem hefur kallað þjóðarmorðin stærstu mistök stjórnartíðar sinnar en menn sáu ekki það sem var í uppsiglingu. Minningarathöfnin var haldin 7. apríl, sama mánaðardag og vígasveitir Hútúa hófu blóðbaðið árið 1994. Kagame lagði blómsveig á fjöldagrafir og kveikti minningareld við Kígali-þjóðarmorðsminnisvarðann, þar sem talið er að yfir 250 þúsund fórnarlömb séu grafin.ruanda

Kagame leiddi uppreisnarsveitir Rúanda sem bundu enda á þjóðarmorðin. Moussa Faki Mahmat yfirmaður Afríkusambandsins sagði að enginn, ekki einu sinni Afríkusambandið, gæti afsakað aðgerðaleysi sitt þessa blóði drifnu 100 daga. „Við skulum hafa kjark til að viðurkenna það og axla ábyrgð á því,“ sagði hann. Fjöldi þjóðarleiðtoga sendi skilaboð til Rúanda, þar á meðal Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sem viðurkenndi að Frakkar hefðu ekki tekið mark á viðvörunum um að þjóðarmorð væri í uppsiglingu en á myndinni hér til hliðar aka franskir hermenn framhjá vígamönnum fyrir 30 árum. Enn eru fjöldagrafir að finnast í Rúanda.

Nýlegar fjöldagrafir Evrópu

Í vikunni var einnig merkilegt viðtal í Dagmálaþætti Morgunblaðsins við Svend Richter einn reynd­asta tann­lækn­ir Íslands. Hann nam rétt­artann­lækn­is­fræði og sú mennt­un leiddi hann á fram­andi og hrylli­leg­ar slóðir. Það var átakanlegt að hlusta lýsingar á störfum hans í Kó­sovó þar sem hann rann­sakaði við þriðja mann fjölda­graf­ir eft­ir stríðsátök­in í land­inu í lok síðustu ald­ar. Þær rann­sókn­ir fóru fram í skjóli Banda­ríkja­hers en á veg­um Alþjóða stríðsglæpa­dóm­stóls­ins í Haag. Talið er að á milli 130 til 140 þúsund manns hafi verið drepnir í átökunum í löndum fyrrum Júgóslavíu. Við bosníska bæinn Srebrenica voru um 8 þúsund múslímskir menn og drengir myrtir.

Svend sá þar mörg dæmi um stríðsglæpi og hörmu­leg­ar af­tök­ur barna og kvenna í löndum fyrrum Júgóslavíu. Hann sagði frá því að í fjölda­gröf­un­um var oft búið að koma fyr­ir jarðsprengj­um til að valda sem mest­um skaða og drepa þá sem mögu­lega leituðu sann­leik­ans. Allt eru þetta átakanlegar frásagnir sem þó ná aðeins til hluta heimsins síðustu áratugi.