c

Pistlar:

13. apríl 2024 kl. 18:12

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Óhreinu börn velferðakerfisins

Ef fjölskylda fíknisjúklings fær upphringingu frá lögreglunni eða heilbrigðisþjónustunni um að sjúklingurinn sé í höndum þeirra er fjölskyldan undantekningalaust beðin um að taka við viðkomandi. Skiptir litlu í hvaða ástandi hann er. Þegar svo er komið, treysta fæstir í fjölskyldunni sér til þess enda er að baki áralöng saga sem hefur yfirtekið líf viðkomandi fjölskyldu. Stundum getur fólk ekki meira. Þá er sjúklingurinn settur út á götuna og fjölskyldunni sagt að það sé í það minnsta sex mánaða biðtími eftir að komast að hjá meðferðaraðila. Í flestum tilvikum má efast um að sjúklingurinn lifi svo lengi. Það er auðvitað merkilegt að lögregla og heilbrigðiskerfið sjái það eitt ráð að koma fárveiku fólki heim til ættingja en svona er staðan, það vantar pláss fyrir hundruð fíkniefnasjúklinga nú þegar.fíklar

Að sumu leyti erum við orðin tiltölulega ónæm fyrir frásögnum sem þessum en þeir sem í lenda upplifa endalausar þjáningar þar sem von og vonbrigði vegast á þar til flestir gefast upp og bíða þess sem koma skal. Af og til birtast aðstandendur sjúklinga í fjölmiðlum og segja sína sögu og ekki er langt síðan hópur þeirra safnaðist saman á Austurvelli og hafði uppi hógvær en angistarfull mótmæli. Hugsanlega er enginn að hlusta lengur.

Tölfræði dauðans

Þegar flett er upp hve margir lifa í þessu ástandi dynur á okkur margvísleg tölfræði. Í umsögn SÁÁ fyrir tveimur misserum kom fram að um 600 manns biðu eftir því að komast í meðferð á sjúkrahúsið Vog. Kunnugir segja það vanmat og talan sé í raun hærri. Þarna sé aðeins rætt um þá sem eru í bráðri neyð. Það má ætla að tveir til fjórir einstaklingar falli frá í hverri viku útfrá þeim tölum sem hafa verið nefndar um dauðsföll af völdum fíknisjúkdóma hér á landi. Við getum jafnframt sagt að þúsundir ættingja og vina þessara sjúklinga lifi milli vonar og ótta dags daglega. Á meðan sjúklingarnir bíða, aukist vandinn og fjölskyldur þeirra líða kvalir. Biðin veldur ótímabærum dauðsföllum og þjáningum. Tölfræðin er óhugnanleg, hundruð ungs fólks eru í bráðri lífshættu og mörg deyja ár hvert. Hvert og eitt dauðsfall á sér langan aðdraganda og eftir sitja ættingjar magnþrota.

Ráðamenn segja gjarnan að það hafir orðið mikilvæg viðhorfsbreyting í samfélaginu og að fíknisjúkdómar eigi að vera meðhöndlaðir sem slíkir innan heilbrigðiskerfisins. Öðru hvoru heyrist af áformum um að efla forvarnir og bæta meðhöndlun fíknisjúkdóma. Það sé besta leiðin til að draga úr vandanum. Ráðamenn landsins lofa bót og betrun og að allt verði gert til að taka á vandanum en efndirnar litlar sem engar.fiklar2

Mannúð á heimavelli

Það má hafa ýmsar skoðanir á því hvar við erum stödd þegar fíknivandinn er annars vegar og hvert sé best að stefna. Eitt blasir þó við öllum, við erum að gera allt of lítið. Á öllum sviðum. Ef ætlunin er að hjálpa fíkniefnaneytendum þá eigum við að gera einmitt það, að hjálpa sjúklingnum. Það á að vera forgangsmál að efla og auka skilvirkar forvarnir, fræðslu og meðferðarúrræði. En það er lífsnauðsynlegt að bjarga fólki sem er bráðveikt hvort sem það er í höndum lögreglunnar, heilbrigðiskerfisins eða bara mælir göturnar.

Mannúð og aðstoð við fólk í fjarlægum löndum er umræðuefni sem ber oft á góma. Erum við trúverðug til að hjálpa öðrum þegar við getum ekki rétt sjúklingum hjálparhönd? Þarf að hafa fleiri orð um þetta, er ekki kominn tími til að bjarga okkar veikustu börnum?