c

Pistlar:

26. maí 2024 kl. 19:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þjóðflutningar Miðausturlanda

Menn grípa gjarnan til sögunnar til að reyna að skilja það sem gengur á fyrir botni Miðjarðarhafsins en engum dylst að átökin þar eiga sér djúpstæðar sögulegar- og trúarlegar forsendur. Það virðist tilviljunum háð hve langt menn fara aftur til að rökstyðja landakröfur sínar en stundum eru menn komnir aftur á slóðir Biblíunnar eða jafnvel enn lengra aftur í tímann. Svæði það sem nú fellur undir Ísrael og Palestínu hefur verið í þjóðleið stórveldanna og eins og helgisögur og sagnfræðin segir okkur hafa þjóðirnar sem þarna lifa þurft að þola herleiðingar hvað eftir annað.Asia_Minor_Moudania_Port_Greek_refugees_28_August_1922

En herleiðingar eru ekki bundnar við fornaldirnar og á 20. öld var ráðist í sérkennileg uppgjör við blöndun þjóða Anatólíu. Innan Ottómansveldisins voru margar þjóðir og svo virðist sem miðstjórnarvaldið þar hafi ekki haft sérstakar áhyggjur af því þó að ólíkar þjóðir og ólík trú hafi ríkt. Það var í raun ekki fyrr en þjóðveldishugsunin tók við og Tyrkland leysti Ottómanveldið af hólmi að mál tóku að vandast. Er skemmst frá því að segja að í uppgjöri því sem þá varð á milli Grikkja og Tyrkja voru hátt í tvær milljónir manna fluttar af heimilum sínum til nýrra heimkynna. Þetta gekk ekki átakalaust fyrir sig og margt af þessu fólki upplifði miklar þjáningar, eignamissi og margir týndu lífinu. En þessi aðgerð var til að skilja að kristna og múslima.

Magnús Bernhard Þorkelsson rekur þessa sögu með ágætum í bók sinni um Miðausturlönd sem kom út árið 2018. Samið var um umfangsmikla nauðungarflutninga milli Tyrklands og Grikklands á Lausanne-ráðstefnunni árið 1923. Það hafði í för með sér að næstum því tvær milljónir manna í þessum löndum urðu að flytja sig um set enda varð það niðurstaða stjórnvalda landanna að ekki kæmist friður á nema Grikkir væru í Grikklandi og Tyrkir í Tyrklandi. Þeir sem bjuggu á röngum stað urðu að flytja sig, svo einfalt var það.grikkland

Þjóðflutningar þekkt úrræði

Grikkir fóru verr út úr þessu en áætlað er að um 1,4 milljónir hafi flutt frá Tyrklandi til Grikklands og um 400 þúsund manns frá Grikklandi til Tyrklands. Magnús bendir réttilega á að slíkir nauðungarflutningar hafi verið algengt úrræði á þessum tíma. Önnur fræg dæmi eru skiptin á hindúum og múslimum milli Pakistan og Indlands 1947, brottflutningur þýskumælandi fólks frá Austur-Evrópu og Balkanskaga til Vestur-Þýskalands árið 1946 og áfallið (nakba) og útlegð Palestínumanna í kjölfar stofnunar Ísraelsríkis 1948. Það er í raun eini þessara flutninga sem enn hefur afleiðingar, í það minnsta á stórum skala sem sýnir kannski hve illa tókst til við að finna Palestínumönnum traustan samastað.

Það var Þjóðarbandalagið, forveri Sameinuðu þjóðanna, sem skipulagði nauðungarflutningana milli Grikklands og Tyrklands og hinn frægi norski landkönnuður og diplómat Fridtjof Nansen hafði umsjón með verkefninu. Síðan hafa Norðmenn oft haft afskipti af málum þarna suður frá.

Þó að þessir þjóðflutningar hafi átt að vera varanleg lausn þá er erfitt að þurrka út minningar og tengsl. Þegar flutningarnir áttu sér stað komu þeir fólki algerlega að óvörum. Því var ekki gefinn neinn fyrirvari heldur sagt að koma sér af stað og skipti engu þó það byggi í fjallaþorpum sem höfðu lítil tengsl við umheiminn. Fólk varð að yfirgefa samastaði sem höfðu verið híbýli fjölskyldunnar í aldir. Það varð að skilja grafreiti og allar minjar um tilveru sína og forfeðranna eftir. Lausn valdhafa á þessum tíma, með styrk alþjóðlegra samtaka, var að leysa upp fjölmenningarsamfélög sem þá voru til staðar.

Þjóðernishreinsanir í Tyrklandi nútímans

Enn eru breytingar af þessu tagi að eiga sér stað innan Tyrklands. Stundum er þó verið að reyna að vinda ofan af mistökum fortíðarinnar. Ekki er langt síðan tímaritið Economist rakti breytingar á eyjunni Imbros sem er innan tyrknesku landamæranna. Eftir seinni heimsstyrjöldina bjuggu þar um 6000 Grikkir en áratug síðar voru þeir allir horfnir. Það kom ekki til af góðu. Grikkirnir urðu að þola mikið ofbeldi, nauðganir og morð, stundum af tyrkneskum sakamönnum sem fluttir höfðu verið til eyjarinnar. Mismunun var á öllum stigum, Grikkir þurftu að greiða hærri skatta og útilokaðir frá embættum. Að lokum lokaði stjórnin í Ankara öllum grískum skólum og tóku ræktarland eignarnámi. Að endingu var hinu forna gríska nafni eyjunnar skipt út fyrir tyrkneska heitið Gokceada.

En síðustu ár hefur örlað á breytingu og grísk menning hefur snúið aftur til eyjunnar en ferðamennska hefur haldið innreið sína þar. Nú má sjá einstaka gríska veitingastaði innan um tyrkneska. Eftir að ríkisstjórn Tayyip Erdogan leyfði þremur grískum skólum að opna á eyjunni fóru afkomendur grískra íbúa að fikra sig til baka, varfærnislega þó. Grikkjum á eyjunni hefur fjölgað á ný og eru um 600 talsins en voru komnir undir 200 á tímabili. Tyrkir hafa lofað að veita afkomendum Grikkja sem snúa til baka ríkisborgararétt, þó með skilyrðum.

En sagan gefur ekki endilega til kynna að þarna verði mikil breyting. Grikkir stofnuðu margar nýlendur í Anatólíu á fornöld og bjuggu þar allt þar til fall Kostantínopel 1453 gerði þá að útlendingum í eigin landi. Það er auðvitað merkilegt til þess að hugsa að bæði Grikkland og Tyrkland eru bæði í Nató en líta þó á hvort annað sem sinn höfuðóvin! Hvenær skyldi það breytast?