Milliakreinaakstur á mótorhjóli leyfilegur eða ekki?

Mótorhjól þurfa að smjúga gegnum umferðina ef þau eiga að …
Mótorhjól þurfa að smjúga gegnum umferðina ef þau eiga að komast leiðar sinnar í stórborgum Austurlanda eins og Bangkok.

Hugtakið milliakreinaakstur eða það sem kallað er erlendis Filtering eða Lane splitting er svo nýtt að ekkert nýtilegt nafn er til fyrir það á íslensku.

Milliakreinaakstur á mótorhjóli er að keyra milli akreina, til þess að komast fram fyrir umferð halda eflaust flestir. Sannleikurinn er þó sá að í þéttri stórborgarumferð getur það að keyra milli akreina verið talsvert öruggara fyrir mótorhjólið. Ástæðurnar eru nokkrar, eins og til dæmis sú staðreynd að mótorhjólið hefur lengri línu fyrir framan sig til að bregðast við heldur en ef það er milli tveggja bíla. Útsýnið verður líka betra svo að sá sem er á mótorhjólinu situr er fljótari að bregðast við aðstæðum. Ekki má heldur gleyma því að mótorhjólið tefur þannig ekki fyrir annarri umferð og léttir frekar á henni. En skyldi mega þetta alls staðar og þá til dæmis á Íslandi? Í sjálfu sér er ekkert í umferðarlögunum sem bannar þetta sérstaklega.

Samkvæmt gildandi umferðarlögum segir í 41. grein að eigi megi aka bifhjóli samhliða öðru ökutæki. Samkvæmt 22. grein umferðarlaganna frá 1987 er ekki heimilt að aka fram úr öðru ökutæki á eða við gatnamót, en tiltekið í undirmáli að ákvæðið eigi ekki við um akstur fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli. Að lokum segir umferðarmerkið sem bannar framúrakstur að það eigi við ökutæki, nema tvíhjóla ökutæki, þar á meðal bifhjól. Þrátt fyrir greinagóðar lýsingar á akstri á akreinum í umferðarlögum er ekkert sem bannar þar akstur á milli akreina. Ökumaður skal þó, áður en hann skiptir um akrein eða ekur á annan hátt til hliðar, ganga úr skugga um að það sé unnt án hættu eða óþarfa óþæginda fyrir aðra. Sama er, ef ökumaður ætlar að stöðva ökutæki eða draga snögglega úr hraða þess.

Víða leyft í Evrópu

Nokkrar borgir í Evrópu, Japan og Kaliforníuríki hafa leyft milliakreinaakstur mótorhjóla með lögum eða reglugerðum. Sum ríki í Bandaríkjunum eins og Utah og Nebraska hafa þó bannað það sérstaklega, en þá aðeins fyrir mótorhjól.

Þeir sem hafa orðið vitni að umferðinni eins og hún er í París eða Barcelona á háannatíma skilja betur hvernig akstur mótorhjóla milli akreina er nauðsynlegur. Þar þykir sjálfsagt að mótorhjólið fái að aka milli akreina í þéttri borgarumferðinni eða inni í fjölakreina hringtorgi. Í Barcelona er beinlínis gert ráð fyrir að mótorhjól og létt bifhjól geti ekið milli bíla á ljósum og komið sér fyrir á sérstöku svæði rétt fyrir gatnamótin.

Að mati stjórnar Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Snigla, er orðið tímabært að þessi mál séu skoðuð hérlendis með umferðaröryggi bifhjólafólks í huga. Eiríkur Hans Sigurðsson, ökukennari og í varastjórn Snigla, hefur sterkar skoðanir á þessu máli. „Þetta er mál sem löngu er tímabært að hreyfa við hér á landi. Ég hef aldrei skilið hvers vegna það fer svona í taugarnar á hérlendum ökumönnum bíla ef mótorhjól fer fram fyrir þá við gatnamót. Ég varð fyrir því sumarið 2010 þegar ég hjólaði gætilega á milli bíla sem biðu við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar að einn ökumaður bíls í h.m. í röðinni gerði sér lítið fyrir og reyndi að loka fyrir mig með því að sveigja til vinstri að næsta bíl. Það varð til þess að hliðartaskan vinstra megin á hjólinu straukst við hægra afturhorn bílsins við hliðina. Af þessu urðu engar skemmdir, en svona hegðun segir hvernig sumir hugsa okkur þegjandi þörfina. Ég hef einnig orðið fyrir því að menn sendi mér puttann eða aki flautandi á eftir mér. Þegar maður hjólar í Suður-Evrópu leggja ökumenn bíla sig fram um að maður komist á milli bíla sem eru að bíða við gatnamót og jafnvel breikki bilið á milli bíla á ferð í umferð svo mótorhjólin eigi greiða leið á milli þeirra. Að þessu þarf að vinna. Það þarf einnig að kynna það fyrir almenningi að mótorhjól sem fer fram fyrir er að létta á umferðinni en ekki að tefja hana,“ segir Eiríkur Hans.

njall@mbl.is

Eiríkur Hans Sigurðsson ökukennari hefur ekið Ducati-hjóli sínu hérlendis sem …
Eiríkur Hans Sigurðsson ökukennari hefur ekið Ducati-hjóli sínu hérlendis sem erlendis og telur að leyfa eigi milliakreinaakstur umbúðalaust.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: