Snörp og snör í snúningum

Kia Sportage ætti að henta þörfum margra landsmanna. Nettur sportjeppi …
Kia Sportage ætti að henta þörfum margra landsmanna. Nettur sportjeppi með mikið notagildi. Eggert Jóhannesson

Kastljósið beindist allhressilega að fólksbílum af Kia-gerð á síðasta ári þegar suðurkóreska merkið fór fram úr Toyota og varð það vinsælasta í þessum flokki á Íslandi í fyrsta sinn. Fram að því hafði Toyota verið mest selda merkið svo árum og áratugum skipti. Hlutdeild Kia-fólksbíla í sölu árið 2021 var 14,3% en 1.826 bílar seldust.

Segja má það sama um bæði Kia- og Toyota-bílaumboðið að þar er mikið lagt upp úr góðri þjónustu. Þegar allt kemur til alls skilar gott viðmót og þjónustulund af sér góðum viðskiptavinum sem versla aftur og aftur á sama stað.

Viðmótið sem mætti mér þegar ég sótti sportjeppann Kia Sportage á dögunum var einmitt alúðlegt og liðlegt og ég keyrði alsæll í burtu, spenntur að upplifa bifreiðina og alla hennar kosti og vonandi fáu galla.

Bíllinn sem ég ók í burtu frá umboðinu var af tvinngerð en orð sölumannsins sem ég ræddi við vöktu athygli mína. Hann sagði að verð tvinnbílsins og tengiltvinnbílsins væri það sama, eða 6.990.777 krónur.

Þar með geta viðskiptavinir vegið það og metið fyrir sama pening hvort þeir vilji bíl til að stinga í samband eða hinn sem hleðst í akstri.

Snjallar lausnir hjálpa við aksturinn og auka þægindi.
Snjallar lausnir hjálpa við aksturinn og auka þægindi. Eggert Jóhannesson

Hrifnari og hrifnari

Sjálfur verð ég að segja að ég er alltaf að verða hrifnari og hrifnari af tvinnbílum og þeim eiginleika þeirra að blanda sama rafmagni og jarðefnaeldsneyti. Bíll sem hleður sig sjálfur! Það er einhver galdur í því og bensíneyðslan minnkar svo um munar.

Í stuttu máli má segja að Kia Sportage beri nafn með rentu. Bifreiðin er sportleg bæði í útliti og akstri, snörp og snör í snúningum með sín 230 hestöfl undir húddinu. Hávaxinn maður í farþegasæti hafði á orði að sér þætti bíllinn rúmgóður og þar var ég sammála. Vel fer um ökumann og farþega og hátt er til lofts frammi í.

Það sama má segja um aftursætisfarþega. Þar er nægt fótapláss og þægindin þónokkur. Í fyrsta lagi er sveif sem getur hallað sætinu aftur, þá er lítill krókur aftan á framsætunum og stór hanki til að hengja af sér yfirhöfn. Svo er einnig vasi aftan á sætunum fyrir farþegana og USB-tengi á hliðunum. Einnig njóta þeir þess að hafa miðstöð sem blæs aftur í bílinn, pláss fyrir flöskur í hurðum og skyggðar afturhallandi rúður.

Tvinn- og tengiltvinnútgáfur Kia Sportage kosta það sama.
Tvinn- og tengiltvinnútgáfur Kia Sportage kosta það sama. Eggert Jóhannesson

Sveif í skotti

Hægt er að fella aftursætin niður með sveif sem gripið er um í skottinu. Eitthvað fannst mér nú vinstra sætið standa á sér í fyrstu þegar ég greip um sveifina, auk þess sem mér þótti skrýtið að geta ekki fært sætin aftur í upprunalega stöðu án þess að grípa um fyrrnefnt handfang niðri við gólf hægra og vinstra megin.

Svo við höldum okkur í skottinu þá er það sæmilega stórt, eða 587 lítrar (1.776 ef öll þrjú sætin eru lögð niður) og gat ég smokrað þar inn golfsettinu mínu með driver og öllu. En auðvitað fellir maður bara sætin niður ef maður ætlar að flytja fleiri og stærri hluti.

Undir skottgólfinu er varadekkið geymt og allt sem því tilheyrir og í skottinu má einnig finna hanka undir innkaupapoka – sannkallað þarfaþing sem ég uppgötvaði allt of seint í minni Bónus- og Krónuferðamennsku. Nú hengi ég ávallt innkaupapoka á snaga og keyri bísperrtur og ótruflaður með nýlendurvörurnar heim úr búðinni.

Frammi í er fátt sem truflar. Það var helst harðplastið í innréttingunni sem ég set spurningarmerki við eftir að ég bankaði í það. Gírstöngin er ekki lengur stöng heldur snúningstakki, og er það vel. Það vandist prýðilega.

Með aftursætin niðri er skottið nærri 1.780 lítrar.
Með aftursætin niðri er skottið nærri 1.780 lítrar. Eggert Jóhannesson

Tvískipt upplýsingakerfi

Upplýsingakerfið er að segja má tvískipt. Margmiðlunar-snertiskjárinn í miðjunni er þægilega stór, eða 12,3 tommur en fyrir neðan er brík sem er einnig með snertieiginleika. Á henni má velja ýmsa hluti, eins og íslenskt leiðsögukerfi, en einnig skipta á milli miðstöðvar og útvarps, þ.e. stillitakkarnir þjóna báðum kerfum. Þetta vandist vel og var aðgengilegt á ferð. Margmiðlunarskjárinn var auðveldur í meðförum, viðmótið þægilegt auk þess sem hann býður upp á skemmtilega hluti eins og umhverfishljóð, kaffihúsamas, rigningu og arineld sem snarkar í m.a.

Sætin í bílnum eru þægileg. Pláss er fyrir flöskur í hurðum og í miðjunni. Það sem var nýtt við flöskuhaldarann í miðjunni er að hægt er að minnka hann með því að ýta á takka. Þá sprettur út plasthringur sem grípur utan um dósirnar.

Bíllinn býr yfir helstu nútíma öryggistækni eins og veglínufylgd sem hjálpar manni á þægilegan hátt að halda sig á réttum vegarhelmingi. Í Style-útgáfunni sem ég var með í láni var ekki þráðlaus hleðsla fyrir síma, en hægt er að setja tækið í hólf fremst undir margmiðlunarskjánum og er þar USB-innstunga.

Baksvipurinn er fallegur og snyrtilegur
Baksvipurinn er fallegur og snyrtilegur Eggert Jóhannesson

Klókur í göngunum

Hiti er í sætum og góður ylur í stýri. Ég tók eftir því þegar ég ók inn í Hvalfjarðargöngin að bíllinn setti inniloftið sjálfkrafa á og þótti mér það afar klókt af honum.

Framendi bílsins er nýr, endurhannaður og flottur og lyklana er nóg að hafa í vasanum því það dugar að ýta á lítinn takka á húninum til að opna og læsa þegar lykillinn er nálægt.

Það er gott að fara inn og út úr bílnum og útsýnið úr honum er ágætt. Bakkmyndavélin er skörp og flott og bíllinn er hljóðlátur á ferð.

Heilt yfir var ég mjög hrifinn af Kia Sportage. Mér þótti hann samsvara sér vel, sem skilaði sér í reglulega ánægjulegum akstri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: