Biðin eftir Tesla-jepplingi lengist enn

Tesla segist ætla að einbeita sér að því að selja …
Tesla segist ætla að einbeita sér að því að selja Model S bílinn áður en Model X jepplingurinn fer á markað. mbl.is/Tesla

Það lítur út fyrir að tilvonandi kaupendur Tesla Model X þurfi að bíða aðeins lengur eftir að fá slíkan bíl þar sem Tesla hefur frestað framleiðslunni um ár.

Model X er rafmagnsjepplingur frá bandaríska rafmagnsbílaframleiðandanum Tesla og mun vera þriðji bíllinn sem Tesla framleiðir. Frumraunin var tveggja sæta sportbíll sem framleiddur var í fjögur ár frá 2008. Bíll númer tvö var fernra dyra lúxusbíllinn Model S sem byrjað var að framleiða á síðasta ári.

Byrjað að taka við pöntunum

Upphaflega var Tesla Model X-jepplingurinn kynntur í febrúar í fyrra og var búist við að byrjað yrði að afhenda Model X snemma á næsta ári en núna er sagt að framleiðsla jepplingsins hefjist seint á næsta ári. Shanna Hendriks, talskona Tesla, segir ástæðu seinkunarinnar þá að Tesla vilji einbeita sér að framleiðslu og sölu Model S-bílsins og telji að hægt sé að auka sölu bílsins áður en jepplingurinn fer í framleiðslu. Þegar framleiðsla hefst stefnir Tesla að því að selja á bilinu tíu til fimmtán þúsund Model X á ári.

Þrátt fyrir að enn sé þó nokkuð í að framleiðsla Model X hefjist og ekki liggi ljóst fyrir hversu mikið hann muni kosta er Tesla farið að taka við pöntunum á rafmagnsjepplingnum. Til að geta pantað þá þarf að greiða fyrirfram sem nemur rúmlega sex hundruð þúsund krónum fyrir ódýrustu týpuna og rúmlega fimm milljónum fyrir þá dýrustu. Það er þó hægt að fá greiðsluna endurgreidda sé hætt við kaupin.

Endurgreiða lánið

Á sama tíma og Tesla tilkynnti að framleiðslu á Model X yrði frestað var greint frá því að Tesla mun endurgreiða lán sem það fékk fyrr en áætlað var. Lánið, sem var um sextíu milljarðarkróna, var frá orkumála-stofnun Bandaríkjanna og átti að hjálpa til við stofnun rafmagnsbílaframleiðandans og til að stuðla að fleiri og betri rafmagnsbílum á götunum. Til stóð að lánið yrði að fullu greitt árið 2022 en nú bendir allt til þess að Tesla geti ljúki því árið 2017, fimm árum á undan áætlun.

jonas@giraffi.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: