Selja rafknúinn Fiat 500 með stórtapi

Sergio Marchionne, forstjóri Fiat-Chrysler.
Sergio Marchionne, forstjóri Fiat-Chrysler. mbl.is/afp

Chrysler-samsteypan mun tapa um 10.000 dollurum - 1,2 milljónum króna - á hverjum einasta rafbíl af gerðinni Fiat 500e sem seldur verður í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum, að sögn yfirmanns samsteypunnar, Sergio Marchionne.

Nýi Fiat 500e rafbíllinn dregur sem svarar 100 kílómetrum á 2,2 lítra bensíns en á fullri hleðslu duga rafgeymar hans til 140 km aksturs.

Raunvirði rafbílsins er það hátt, að Fiat-Chrysler tapar stórt á sölu hans. „Við munum tapa um 10.000 dollurum á bíl. Að gera það í stórum stíl jafngilti iðnaðarlegri sjálfspíslarhvöt,“ segir Marchionne.

Áætlanir Chrysler gera hins vegar ekki ráð fyrir því að bíllinn renni út sem heitar lummur, aðeins muni nokkur hundruð seljast. Með smíði hans og sölu er verið að uppfylla lög Kaliforníuríkis sem skylda bílaframleiðendur, sem þar vilja selja framleiðslu sína, til að bjóða jafnframt upp á rafbíla.

Þrátt fyrir umfangsmiklar opinberar ívilnanir hefur sala á rafbílum og tengiltvinnbílum aldrei farið á flug í Bandaríkjunum. Bílar af þessu tagi voru innan við hálft prósent af öllum seldum nýjum fólks bílum þar í landi í fyrra.

Rafbíllinn Fiat 500e.
Rafbíllinn Fiat 500e. mbl.is/Fiat
mbl.is