Tvö hundruð hraðhleðslustöðvar á leið til landsins

Nýtt met var slegið við Höfðatorg um helgina þegar fimmtán …
Nýtt met var slegið við Höfðatorg um helgina þegar fimmtán rafbílar voru þar, nýbónaðir og fínir í sólinni. mbl.is/Árni Sæberg

Ein smæsta söluskrifstofa nýrra bíla var opnuð um helgina. Þar er á ferðinni Even, fyrirtæki Gísla Gíslasonar sem mun á næstunni flytja inn hraðhleðslustöðvar til að stuðla að rafbílavæðingu.

Even flytur inn rafbíla á borð við Tesla og Nissan Leaf. Að sögn eiganda fyrirtækisins hefur salan á bílunum gengið vel og eru þrettán bílar af gerðinni Tesla Model S komnir á götuna hér á landi. Fleiri bílar hafa verið pantaðir og þónokkrir hafa sýnt fjórhjóladrifna borgarjeppanum Model X áhuga. Eigandi Even, Gísli Gíslason, hyggst flytja þá gerð Tesla inn og hefur þegar lagt fram pöntun.

Lægra verð á Tesla

Fyrirtækið flytur einnig inn rafbílinn Nissan Leaf og segist Gísli geta boðið hann á lægra verði en umboðið hér á landi. Munar þar um 700 þúsund krónum og segir Gísli að Tesla sé nú ódýrari en hún var í upphafi.

„Við fengum verulega lækkun. Við vorum með ódýrustu útfærsluna á 11,8 milljónir en nú fæst hún á 10.390.000 krónur. Við gátum þetta út af hagstæðara gengi evrunnar og svo fengum við lækkun frá Tesla af því að við vorum að opna söluskrifstofuna, þennan litla sal,“ segir Gísli.

Það er óhætt að segja að ytri umgjörðin láti lítið yfir sér því skrifstofan er lítil og þar inni eru engir bílar. Þar er skjár með myndbandi þar sem bíllinn er kynntur og þægilegir stólar fyrir þá sem vilja horfa og svo er þar kaffivél.

„Við reynum að halda kostnaði niðri og erum þess vegna ekki með stóra sali heldur sýningu á stórum skjá. Með því móti náum við að sýna kúnnanum vel allar útfærslur af bílunum án þess að setja of mikinn kostnað ofan á starfsemina. Síðan erum við með tilbúna prufubíla fyrir þá sem vilja prófa,“ segir hann.

Víða erlendis á söluskrifstofum Tesla er aðeins einn bíll inni í sal og eru salirnir af smærri gerðinni.

Hraðhleðslustöð á Kópaskeri

Gísli segir að allir þeir sem keypt hafa Teslu séu alsælir með bílinn og segi jafnframt að bíllinn hafi farið fram úr þeirra björtustu vonum.

Aftan við skrifstofuna á Höfðatorgi voru á laugardaginn saman komnir fimmtán rafbílar sem kúnnar Even eiga. Gísli segir að það sé nýtt met á Íslandi.

„Þeir buðu okkur allir að hafa bílana hérna til að slá metið og allir voru þeir yfir sig ánægðir með rafbílana sína,“ segir hann.

Skammt er síðan fyrirtækið Better Place varð gjaldþrota og sá Gísli sér þá leik á borði og keypti 200 hraðhleðslustaura úr þrotabúinu. Gámurinn með staurunum kemur á næstu dögum til landsins og þá byrjar ballið.

„Þetta er það sem kallast level 2 sem er meira en 220 volt, þannig að þú ert fljótari að hlaða bílinn. Þetta eru sams konar staurar og eru í miðbæ Kaupmannahafnar. Maður er um fjóra tíma að hlaða Nissan Leaf,“ segir Gísli um staurana góðu. „Við ætlum að reyna að setja þá upp um allt land. Tvö hundruð staurar eiga að duga. Þetta eru fjögur hundruð tengingar þannig að við vonum að meira að segja Kópasker fái einn staur,“ segir Gísli Gíslason, eigandi Even.

malin@mbl.is

Alls eru þrettán bílar af gerðinni Tesla Model S komnir …
Alls eru þrettán bílar af gerðinni Tesla Model S komnir á götuna á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg
Söluskrifstofan lætur lítið yfir sér enda reynt að hafa yfirbygginguna …
Söluskrifstofan lætur lítið yfir sér enda reynt að hafa yfirbygginguna sem minnsta til að lækka kostnaðinn við hvern seldan bíl. mbl.is/Árni Sæberg
Gísli Gíslason við hleðslustaur eins og þá sem hann festi …
Gísli Gíslason við hleðslustaur eins og þá sem hann festi kaup á.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »