Tesla fær ekki að leggja frítt

Metanbílum fjölgaði töluvert hér á landi á síðustu fimm árum. …
Metanbílum fjölgaði töluvert hér á landi á síðustu fimm árum. Til þess að stórir metanbreyttir jeppar fylltu ekki stæðin í miðbænum voru þyngdartakmarkanir settar á þá bíla sem teljast visthæfir og séu þeir meira en 1.600 kíló má ekki leggja þeim án endurgjalds í borginni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Reykjavíkurborg og Bílastæðasjóður hafa síðastliðin þrjú ár boðið þeim sem aka um á bílum sem menga minna en 120 g af CO2 á hvern kílómetra að leggja endurgjaldslaust í stæði borgarinnar.

Hefur þessi tilhögun mælst vel fyrir og gengur þannig fyrir sig að sérstök skífa er límd innan á framrúðuna og hún stillt á þann tíma sem lagt er í stæðið. Þar má bíllinn standa í 90 mínútur án þess að greitt sé fyrir. Þeir bílar sem mega leggja ókeypis geta verið allir þeir bensín-, dísl-, eða tvinnbílar sem gefa frá sér minna en 120 g af koldíoxíði á km, bílar með brunahreyfli, sem ganga fyrir innlendum orkugjöfum svo sem metani, metanóli eða lífdísil að því gefnu að þeir gefi frá sér minna en 120 g af koldíoxíði á km og síðast en ekki síst bílar sem ganga fyrir rafmagni, tengiltvinnbílar og bílar sem ganga fyrir vetni. Þetta kemur skýrt fram á vef Reykjavíkurborgar og voru reglurnar settar árið 2011 og eiga að gilda til 1. janúar 2015.

Margir útundan

Fjöldi bíla fellur í flokk visthæfra bíla enda er það kappsmál hjá bílaframleiðendum að draga úr þeirri mengun sem frá bílvélum kemur. Á vef Bílgreinasambandsins má sjá að tegundirnar eru um áttatíu sem flokkast til visthæfra bíla.

Einn þeirra bíla sem enginn útblástur er frá er rafmagnsbíllinn Tesla Model S. Flestir skyldu ætla að hann félli fyllilega að umhverfisstefnu Reykjavíkurborgar og teldist visthæfur í anda þeirra reglna sem borgin setti og farið var yfir hér að ofan. En svo er ekki. Þó svo að eini orkugjafi bílsins sé rafmagn þá fær hann ekki visthæfisskífu hjá Bílastæðasjóði því hann er of þungur. Það eru takmarkanir á því hvaða visthæfu bílar geta nýtt sér heimildina til að leggja endurgjaldslaust og þær eru meðal annars að ef skráð eiginþyngd bíls er yfir 1600 kg. Tesla er rétt yfir tvö tonn á þyngd. Porsche Panamera E-Hybrid Plug-in blæs 71 g af koldíoxíði út í andrúmsloftið á hvern kílómetra sem er um 50 g undir viðmiðinu en þar sem hann vegur um 2.100 kíló hann ekki í visthæfa flokkinn. Eftir sem áður er hægt að aka honum innanbæjar á rafmagninu einu saman og þá fara 0 g af koldíoxíði út í andrúmsloftið.

Mercedes-Benz E-Class er með lágt mengunargildi og er það á bilinu 107 til 114 g af koldíoxíði á hvern kílómetra hjá þónokkrum útgáfum innan E-Class. Þar sem bíllinn er um átján hundruð kíló nær það ekki lengra.

Stendur til að breyta reglum

Að sögn Bjargar Helgadóttur, verkefnisstjóra samgöngudeildar umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, voru þyngdartakmarkanirnar settar á sínum tíma til að koma í veg fyrir að stórir jeppar sem breytt hafði verið í metanbíla myndu leggja um allan bæ, endurgjaldslaust. Það sjónarmið má skilja og færa fyrir því rök en hins vegar má teljast súrt í broti að þeir sem gagngert kaupa vistvæna bíla til að stuðla að hreinna andrúmslofti þurfi að greiða fullt verð fyrir bílastæði í miðborginni. Björg segir að fólk hafi kvartað yfir þyngdartakmörkununum og meðal annars þess vegna standi til að breyta reglunum fyrr en ætlað var. „Þetta hefur verið til skoðunar og stefnt er að því að reglunum verði breytt í haust,“ segir Björg.

Þangað til verða eigendur Tesla og fleiri stórra vistvænna bíla að greiða fyrir bílastæðin þó að mengunin sé lítil eða engin af farartækjum þeirra.

malin@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina