Tesla best rafbíla í kulda og snjó

Tesla Model S hefur vakið talsverða athygli á Íslandi síðan …
Tesla Model S hefur vakið talsverða athygli á Íslandi síðan bíllinn var fyrst kynntur hér á landi. Það ætti að vekja frekari eftirtekt og áhuga að Teslan kom í heildina best út á vetrarprófinu sem nokkrir leiðandi rafbílar þreyttu. Ljósmynd/youtube.com

Rafbílar hafa kannski ekki náð öflugri fótfestu á Íslandi, hvað sem síðar kann að verða. Hinar harðneskjulegu aðstæður sem hér er að finna vegna hnattstöðu landsins reyna mjög á rafbíla og því er spurningin hver þeirra spjarar sig best.

Enn sem komið er verða þeir tæpast sagðir smíðaðir fyrir heimskautaloft, með undantekningum þó.

Þess vegna er forvitnilegt að skoða niðurstöður prófana þýska bílablaðsins Auto Bild á fimm algengum rafbílum í köldu lofti ofarlega í Ölpunum. Þar voru prófaðir BMW i3 (21,6 kWh), Nissan Leaf (24 kWh), Renault Zoe (22 kWh) Mitsubishi i-MiEV (16 kWh) og Tesla Model S (85 kWh).

Fimm þættir voru mældir; bremsuvegalengd, veggrip, bíldrægi, áhrif akstursins á miðstöðina og hröðun í snjó. Gefin voru stig fyrir frammistöðuna í hverju prófi og að hámarki hægt að fá 35 stig. Sigurvegarinn hlaut 24 stig en það er bíll sem smíðaður er í Kaliforníu; Tesla Model S P85. Í öðru sæti í heildina varð BMW i3 og Nissan Leaf í því þriðja.

Drægið hrynur í frostkulda

Sigurbíllinn er þó ekki alveg fullkominn. Eitt mikilvægasta prófið var hversu langt mátti aka í frosti, en hversu margar mínusgráðurnar voru liggur ekki fyrir. Hitt er vitað, að prófið fór fram án þess að geymarnir væru forhitaðir fyrir aksturinn. Var bílunum ekið þangað til geymar tæmdust. Með uppgefið drægi upp á 502 kílómetra þarf ekki að koma á óvart að Tesla dró lengst. En var þó fjarri bókinni því hún varð rafmagnslaus eftir 206,9 kílómetra.

Það var þó mun betri árangur en hinir bílarnir náðu. Í öðru sæti varð Nissan Leaf með 69,1 km, í þriðja sæti BMW með 61,4 km, þá i-MiEV með 61,3 og Zoe með 58,9 km.

Í bremsuprófinu var spurt um hversu langan tíma það tekur að stöðva bíl sem klossbremsað er á 50 km/klst. hraða. Þar var röð bílanna allt önnur og ekki kom á óvart að sá léttasti, Mitsubishi i-MiEV, staðnæmdist fljótast, eða eftir 27,4 metra. Í öðru sæti varð Renault Zoe með 28,4 metra og verulega kom á óvart að þyngsti bíllinn, Tesla Model S, stoppaði líka eftir 28,4 metra og sló við bæði BMW (29,1 m) og Nissan (29,7 m). Í Auto Bild kemur fram, að það hafði vænst betri frammistöðu af þýska fulltrúanum, BMW i3.

Tesla S fljótust á ferð

Þegar prófuð var hröðun bílanna í snjó var spólvörn tekin úr sambandi væri hún fyrir hendi. Mældur var tíminn úr kyrrstöðu í 50 km/klst. ferðhraða. Kom ekki á óvart að Tesla Model S með sín rúmlega 400 hestöfl kæmi best út, kláraði prófið á 8,79 sekúndum. BMW varð í öðru sæti á 9,29 sekúndum og lengst var Renault Zoe að klára verkefnið eða 12,46 sekúndur. Mitsubishi þurfti 10,37 sekúndur og Nissan Leaf 10,54 sek.

Í prófi sem snerist um meðfærileika í akstri á snævi þöktum vegum þar sem reyndi á veggrip og rásfestu kom Tesla best út; lagði gefna krókótta vegalengd að baki á 68,0 km/klst. meðalhraða. Leaf og i-MiEV voru ekki langt undan, sá fyrrnefndi kláraði aksturinn á 65,5 km/klst. meðalhraða og i-MiEV á 64,4 km. Nokkurt bil var síðan í BMW i-3 sem fór í gegn á 60,6 km/klst og Zoe á 57,6 km.

Miðstöðin best í Nissan Leaf

Miðstöðvar rafbílanna fimm voru teknar til kostanna. Í fjögurra gráðu frosti var mælt hversu langan tíma tæki að hita innanrýmið í 20°C. Miðstöð Nissan Leaf reyndist í sérflokki, var aðeins 3:35 mínútur að klára það. Sá hiti náðist í Tesla eftir 4:27 mínútur, í BMW i-3 eftir 6:48 mínútur, eftir 8:00 mín. í Renault Zoe og i-MiEV var lengst að hita sig upp, eða 13:31 mínútu.

Loks var borið saman verð bílanna í Þýskalandi að meðtalinni rafhlöðu þegar prófanirnar voru gerðar snemma árs. Dýrust var Tesla sem kostaði 91.200 evrur. Í öðru sæti var BMW i-3 á 34.950 evrur og Leaf í þriðja á 29.690 evrur. Mitsubishi i-MiEV kostaði 29.300 evrur og Renault Zoe 27.292 en í verði Zoe er innifalin rafgeymisleiga til fjögurra ára miðað við 12.500 km akstur á ári.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »