Blótaði, barði og blakaði brjóstum

Flórídafrúin lét öllum illum látum.
Flórídafrúin lét öllum illum látum.

Kurteisin kostar ekki neitt er gamalt og gott viðhorf og í umferðinni er kurteisi dyggð hin besta.

Á því er þó ekki kona nokkur í Flórída sem brást ókvæða við eftir að hafa ekið utan í bíl við gatnamót í ríkinu sólríka.

Aðvífandi Ford pallbíll ók utan í bíl af gerðinni BMW og þeytti ökumaður síðarnefnda bílsins flautur er sá stóri nuddaðist utan í hann.

Vatt sér þá vörpuleg kona út úr pallbílnum en framkoma hennar var í öfugu hlutfalli við fegurð hennar. Hafði hún dólgslæti og dónaskap í frammi svo vægt sé til orða tekið. Skyrpti á fólksbílinn og barði, en ekki bara það því hún greip um ýmsa staði á líkama sínum með viðeigandi grettum og handahreyfingum til að móðga þann er fyrir bíl hennar varð.

Konan hefur víst ekki vitað af því að í BMW-bílnum var lítil myndavél sem nam framkomu hennar í heild. Skyldi hún iðrast ef hún sæi sig í myndskeiðinu sem hér fer á eftir?

Ökumaður BMW-bílsins hringdi í lögregluna og kvartaði undan kellu og manni hennar sem ók pallbílnum stóra. Lýkur meðfylgjandi myndskeiði þar sem þau búa sig undir að aka á brott og yfirgefa þannig vettvang.

mbl.is