Hekla með yfir 2000 bíla

Bílaumboðið Hekla afhenti nýlega tvöþúsundasta bílinn á árinu, en það var nýuppfærði rafmagnsbíllinn Volkswagen e-Golf sem er nú með allt að 300 km drægi.

Ingvar Gýgjar Sigurðarson, verkefnisstjóri sveitarfélags Skagfirðinga, tók við bílnum fyrir hönd sveitarfélagsins og hlóð bílinn í Staðarskála á leiðinni norður. E-Golf var frumsýndur í júní og síðan hafa sjötíu slíkir verið seldir.

Í tilkynningu kemur fram að 456 tengiltvinnbílar voru skráðir á Íslandi fyrstu sex mánuði ársins, þar af var 261 bíll frá Heklu. Til samanburðar voru nýskráðir tengiltvinnbílar 195 fyrstu sex mánuði ársins 2016 og er aukning milli ára því 133%.  

Á þessu tímabili í fyrra voru tengiltvinnbílar 1,33% nýskráðra bíla en eru nú 3,33%. Hjá Heklu er Mitsubishi Outlander tengiltvinnbíllinn söluhæstur það sem af er ári, en salan á honum hefur aukist um 188% milli ára.  119 slíkir hafa verið afhentir það sem af er ári og á næstu vikum koma 135 aðrir á ný heimili bíleigenda á Íslandi. Að sögn Heklu var markaðshlutdeild tengiltvinnbíla umboðsins fyrstu sex mánuði ársins 2017  57,2%.

mbl.is