Renault Zoe er mest seldi rafbíllinn í dag

Hinn langdrægi Renault Zoe nýtur fádæma vinsælda víða um heim.
Hinn langdrægi Renault Zoe nýtur fádæma vinsælda víða um heim.

Það sem af er þessu ári er Renault Zoe mest seldi rafbíllinn í Evrópu með 26,6% markaðshlutdeild og hafa selst yfir 11 þúsund slíkir á tímabilinu.

Renault Zoe heldur stöðu sinni sem mest seldi rafbíll Evrópu en allt frá árinu 2015 hefur hann vermt toppsætið á listanum yfir vinsælustu bílana af þessum toga. Kemur þetta fram í nýjum tölum frá EAFO (European Alternative Fuels Observatory).

Fram til 2015 hafði Nissan Leaf verið í fararbroddi en áhugafólk um rafbíla virðist hafa tekið ástfóstri við hinn smáa en knáa Zoe. Ekki hafa vinsældir hans minnkað eftir að framleiðandinn kynnti nýja útgáfu af bílnum í fyrra sem NEDC gefur upp með drægni upp á hvorki meira né minna en 400 km en það er 41 kWh lithium-ion rafhlaða sem tryggir hana.

Hlutfall einstakra tegunda seldra rafbíla.
Hlutfall einstakra tegunda seldra rafbíla.


Talið er að Nissan hyggist rétta úr kútnum með næstu kynslóð Leaf, sem kynnt verður í september næstkomandi, og er fullyrt að sá bíll verði með allt að 60 kWh rafhlöðu. Í dag er markaðshlutdeild Leaf rétt tæp 20%.

Þriðji vinsælasti rafbíllinn í Evrópu er svo BMW i3 með tæplega 13% hlutdeild en fast á hæla hans koma svo dýrari bílar, hvorir tveggja úr smiðju Tesla, og er þar um að ræða Model S og Model X.

Tengiltvinn einnig vinsælt

Mest seldi tengiltvinnbíllinn í Evrópu það sem af er þessu ári er hinn spræki Misubishi Outlander með 15% hlutdeild. Heldur hann stöðu sinni frá því í fyrra en gefur þó dálítið eftir því í fyrra var hlutdeild hans ríflega 18%.

Hinn langdrægi Renault Zoe nýtur fádæma vinsælda víða um heim.
Hinn langdrægi Renault Zoe nýtur fádæma vinsælda víða um heim.


Á eftir Outlander kemur svo Volkswagen Passat GTE með ríflega 10% hlutdeild og þá ný útfærsla af Mercedes Benz GLC 350e sem notið hefur mikilla vinsælda hjá þeim sem vilja sportlegan jeppling sem hægt er að keyra nokkra tugi kílómetra á rafmagninu einu saman.

Leaf langvinsælastur á Íslandi

Íslenski rafbílamarkaðurinn er nokkuð sér á báti og sést það m.a. á því að Nissan Leaf hefur algjöra yfirburði yfir aðrar tegundir. Það sem af er ári hefur hlutdeild tegundarinnar meðal rafbíla verið tæp 68% og er það í ætt við tölur fyrri ára. Þannig var hlutdeild Leaf á markaðnum í fyrra tæp 62% og árið 2015 var hlutdeildin rúm 52%.

Næstvinsælasti rafbíllinn það sem af er ári er Renault Zoe með 7,4% hlutdeild og þar á eftir kemur sendibíllinn frá Nissan, e-NV200 Evalia. Fjórði söluhæsti bíllinn er svo Kia Soul EV með 6,1%. Athyglisvert er að Volkswagen e-Golf hefur ekki náð sér sérlega af stað og er hlutdeild hans á markaðnum 4,1%.

Hinn langdrægi Renault Zoe nýtur fádæma vinsælda víða um heim.
Hinn langdrægi Renault Zoe nýtur fádæma vinsælda víða um heim.


Af tengiltvinnbílum er Mitsubishi Outlander PHEV vinsælastur hér á landi og sver það sig í ætt við stöðuna annars staðar í Evrópu. Sérstaka athygli vekur hins vegar að Volvo XC90 PHEV, sem er bíll sem kostar yfir 11 milljónir króna, er í öðru sæti með 16,4%. Hefur hann betur á listanum yfir tengiltvinnbílana en Volkwagen Passat GTE sem er með 7,9% og Mercedes GLC 350e sem er með 6,8%. ses@mbl.is