Þakið tjáir hugarástand

Rolls-Royce kann að bjóða upp á toppklæðningu prýddum stjörnuljósum en bandaríska netbúnaðarfyrirtækið Harman hefur stigið skrefinu ofar og státar sig nú af topplúgu fyrir bíla sem endurspeglar hugblæ ökumanns.

Þessa nýju gagnvirku tækni sýndi Harman á rafeindatækjasýningunni í Las Vegas (CES) í síðustu viku. Bíltoppurinn gengur undir heitinu „MoodRoof“ sem útleggjast mætti sem „hugbrigðahettan“.

Hún var þróuð með sjálfekna bíla í huga. Með breytingunni frá því að aka sjálfir og eftirláta sjálfum bílnum aksturinn geta farþegar slappað af í sætum hans og valið úr fjölda stafrænna landslagsmynd í þaktoppnum; val sem endurspeglar tilfinningakennd.

Að sögn talsmanna Harman er þetta í fyrsta sinn sem svonefnd Quantum Dot eða QLED-tækni, er brúkuð í bílum. Sömu tækni er beitt í nýjustu stóru sjónvarpsskjánum frá Samsung, móðurfélagi Harman.

Fylgibúnaður þaksins framúrstefnulega er svo þeim eiginleikum gæddur að geta samstillt tónlistarval við orkustig farþegans, en sakir þess getur bíllinn metið hvers konar tónlist hæfir hugblæ hans best. Einn farþegi gæti verið að hlusta á tiltekna tónlist og annar á allt aðra músík.

Allt hljómar þetta nýstárlega en ekki fylgir fregnum hvenær hugbrigðahettan birtist í nýjum bílum. Virðist þó sem bíltölvurnar ætli að yfirtaka meira og meira allt sem fram fer og getur farið fram í bíl á ferð.

mbl.is