Helmingur VW bíla enn á götunum

Volkswagen bjalla hlaut góðar undirtektir í Noregi.
Volkswagen bjalla hlaut góðar undirtektir í Noregi.

Það tók Volkswagen 69 ár að selja milljón bíla í Noregi. Hið athyglisverða í því sambandi er að rúmur helmingur þeirra er enn á götunum. Samkvæmt upplýsingastofnun vegamálastofnunarinnar (OFV) eru 508.054 VW-bílar í notkun.

Enginn annar bílsmiður hefur náð að selja Norðmönnum milljón bíla en alls munu nýskráningar VW-bíla um dagana nema1,4 milljónum.

Í Noregi er það fyrirtækið Harald A. Møller sem farið hefur með umboð fyrir Volkswagen frá 1947 og mun fyrirtækið vera sjöunda erlenda fyrirtækið sem VW-umboð fær.

Kippur kom í bílakaup þegar öll höft í bílasölu voru afnumin í Noregi árið 1960. Þegar svo upplýstist 1969 að frá og með 1970 skyldu öll vörukaup háð virðisaukaskatti varð sprenging. Seldust alls 16.699 Bjöllur árið 1969 sem var 16,9% af norska bílamarkaðinum.

Ekkert eitt bílamódel hefur selst jafn grimmt á einu ári fyrr eða síðar. Þótt sprenging yrði í kaupum á Golf árið 2015, eða 46 árum eftir fyrri tímamótin, stóðst Bjöllumetið atlöguna. Vantaði 300 bíla á en Golf-bílarnir urðu 16.388.

Athyglisvert er, að árið eftir dísilhneyksli Volkswagen, en það var afhjúpað 2015, seldi Møller fleiri VW-bíla en nokkru sinni í sögu sinni, eða tæplega 37.000 eintök.

mbl.is