Fyrstu langdrægu Nissan e-NV200 uppseldir

Nissan e-NV200 er ýmist innréttaður sem sendibíll eða 7 manna …
Nissan e-NV200 er ýmist innréttaður sem sendibíll eða 7 manna farþegabíll. Hann er nú 60% langdrægari en áður.

Nissan hefur búið e-NV200, mest selda rafknúna sendibíl Evrópu, nýrri og öflugri 40kWh rafhlöðu. Nýja rafhlaðan hefur 60% meira drægi en forveri hennar og skilar hún um 300 km drægi á hleðslunni samkvæmt nýja mælistaðlinum WLTP.

Rafhlaðan  er  jafnstór  og  eldri  útgáfan og skerðist því flutningsrými sendibílsins ekki á nokkurn hátt. Fyrstu bílarnir eru væntanlegir til BL í lok júlí og eru allir uppseldir. Næsta sending er væntanleg í október.

Framtíðin í stórborgunum

Nissan e-NV200 er framleiddur í verksmiðju fyrirtækisins í Barcelona og hafa tæplega fimm þúsund bílar með nýju rafhlöðunni verið pantaðir frá því í janúar, þar á meðal hingað til lands.

Sem stendur eru flestir kaupendanna í helstu stórborgum Spánar og annarra Evrópulanda þar sem borgaryfirvöld eru farin að setja takmarkanir á umferð bensín- eða dísilknúinna fólks- og sendibíla í miðborgunum.

Í tilkynningu segir Gareth Dunsmore, yfirmaður rafbíla hjá Nissan Europe, engan vafa leika á því að í rafknúin ökutæki séu framtíðarlausnin í stórborgum heimsins enda hafi þau í för með sér stórbætt loftgæði þar sem bílaumferð sé mikil.

Sendibílar gegna mikilvægu hlutverki í þjónustu við fyrirtæki í miðborgunum, hvort sem er við veitingastaði, hótel eða aðra aðila og hér getur rafknúni sendibíllinn Nissan e-NV200 lagt mikið til að bæta loftgæðin, segir Dunsmore, en e-NV200 er nú þegar mest seldi rafknúni sendibíllinn í Evrópu. Í heild eru um átján þúsund slíkir bílar í notkun á heimsvísu.

Tvær útfærslur

Nissan býður sendibílinn í tveimur útfærslum, e-NV200 til vöruflutninga og e-NV200 Evalia sem er skutla til farþegaflutninga. Flutninsgrými bílanna er 4.2m³ sem tekur tvö eurobretti í sendibílnum með allt að 742 kílóum af vörum. Evalia tekur allt að sjö manns í sæti auk farangurs.

mbl.is