Landsmót Fornbílaklúbbsins á Selfossi

Fimmtánda landsmót Fornbílaklúbbsins verður haldið á Selfossi komandi helgi, 22. – 24. júní. Aðalliðir verða á sínum stað, þar á meðal hópakstur austur úr höfuðborginni og keyrsla um Selfoss kl. 20:30 sem endar með mótssetningu.

Á heimasíðu Fornbílaklúbbsins segir, að laugardagurinn verði helgaður sýningu bíla, kynningum á bílum auk þess sem markaður með handverk o.fl. verði á sínum stað. Þar á meðal verði „skottmarkaður“ varahluta og vöfflusala.

Grill fyrir félagsmenn verður á sínum stað á laugardaskvöldinu, en þá verður búið að loka svæðinu fyrir gestum.

„Sunnudagurinn verður með léttu og rólegu móti, félagar raða upp þeim bílum sem eru á svæðinu og á milli 13:30 og 14:00 verða pylsur grillaðar fyrir félaga og móti síðan slitið formlega kl. 16,“ segir á síðu Fornbílaklúbbsins.

Áhersla verður lögð á að hátíðin verði fjölskylduvæn eins og venjulega. Tjaldsvæði Selfossbæjar verður allt frátekið fyrir félaga Fornbílaklúbbsins.

mbl.is