Tveir nýir jeppar í farvatninu hjá Alfa Romeo

Stelvio Quadrifoglio NRING (t.v.) og Giulia Quadrifoglio NRING á ferð ...
Stelvio Quadrifoglio NRING (t.v.) og Giulia Quadrifoglio NRING á ferð í Nürburgring.

Ítalski sport- og lúxusbílasmiðurinn Alfa Romeo mun samkvæmt nýrri fjögurra ára framleiðsluáætlun koma með sjö ný eða umbreytt módel á markað fram til ársloka 2022.

Þar á meðal eru tveir alveg nýir jeppar og tveir sportbílar. Þá munu tveir goðsagnakenndir bílar birtast í nýjum búningi, GTV (Gran Turismo Veloce) og 8C. Verða þeir hluti af „sérlínu“ Alfa Romeo en þar eru m.a. fyrir 4C Coupe og 4C Spider.

GTV-bíllinn verður með sætum fyrir fjóra farþega. Hann mun ekki skorta hraða því vélin verður 600 hestafla en hún er búin rafdrifinni forþjöppu. Drif verður á öllum fjórum hjólum og sjálfvirkur átaksbreytir mun dreifa átakinu á hjólin eftir aðstæðum. Að útliti mun GTV-bílnum svipa til núverandi útgáfu Giulia nema bara nokkuð djarfari og stærri í sniðum.

Til að koma til móts við að því er virðist óseðjandi þörf fyrir jeppa af öllum stærðum eru tveir slíkir í plönum Alfa Romeo. Sá minni er ögn minni en Stelvio-jeppinn sem kom á götuna í ár en þeim stærri mun svo vera stefnt til keppni við bíla á borð við BMW X5, Mercedes-Benz GLE og Audi Q7.

Öll nýju módelin frá Alfa Romeo verða í boði sem tengiltvinnbílar og með sjálfstýribúnaði af svonefndu þriðja stigi. Þá verða þau nettengd í bak og fyrir. Hvergi er minnst á dísil í nýju framleiðsluáætlun Alfa Romeo en rauði þráður hennar er að auka bílasölu úr 170.000 eintökum í dag í um 400.000 fyrir árslok 2022. Hyggst fyrirtækið keppa á 71% bílamarkaðarins í stað 46% nú.

Nýi 8C-bíllinn verður búinn tveggja forþjöppu vél sem staðsett verður í miðju í bílnum. Að auki verður rafmótor á framöxli. Tvíaflsrásin mun skila rúmlega 700 hestöflum til hjólanna og tryggja viðbragð og hröðun úr kyrrstöðu í 100 km/klst. ferð á innan við þremur sekúndum.

Fyrir utan sérmódelin og jeppana mun Alfa Romeo koma með nýjar og betrumbættar útgáfur af Giuletta, Giulia og Stelvio, á tímabilinu. Þeir tveir síðarnefndu munu einnig verða boðnir með lengra hjólhafi en staðalbílarnir og þá einkum og sér í lagi fyrir Kínamarkað, sem Alfa segir að verða muni stærsti lúxusbílamarkaður heims 2022.

agas@mbl.is