VW að stinga af

Volkswagen er stærsti bílsmiður heims.
Volkswagen er stærsti bílsmiður heims. AFP

Volkswagen-samsteypan er ótvíræður foringi bílaframleiðenda, miðað við seldar bifreiðar fyrri helming ársins. Stefnir í að í heild komi yfir 100 milljónir nýrra bíla á götuna í ár.

VW-samsteypan hafði selt 5,59 milljónir bíla frá áramótum til júníloka, en þar er um að ræða merkin Volkswagen, Audi, Skoda, Seat, Porsche, Lamborghini, Bugatti og Bentley. Alls jókst sala allra þessara merkja um 7,2%.

Í öðru sæti er Renault-Nissan samsteypan sem selt hafði 5,17 milljónir bíla. Er það 4,17% aukning frá í fyrra. Inni í þessum tölum eru og Mitsubishibílar.

VW og Renault-Nissan eru einu bílsmiðirnir sem hafa meira markaðshlutdeild en eins tugar. VW með 12,1% og Renault 11,2%. 

Toyota er í þriðja sæti með 4,74 milljónir seldra bíla, sem er 3,3% aukning. Í fjórða sæti er General Motors með 4,30 milljónir seld eintök, sem er 2,9% aukning. GM nýtur ekki lengur sölu Opelbíla.

Þótt takturinn sé enn meiri hjá Hyundai-Kia á kóreski bílsmiðurinn talsvert langt í að draga GM uppi. Jók hann söluna um 7,1%  og afhenti 3,69 milljónir bíla til  júníloka.

Ford er í sjötta sæti með 2,96 milljónir afhentra bíla. Kemur fyrirtækið lakast út með 6,4% samdrátt miðað við sama tímabil í fyrra.

Fiat-Chrysler samsteypan (FCA) afhenti 2,51 milljón bíla, sem er 0,8% samdráttur. Honda afhenti 2,38 milljónir (+0,4%) og PSA-samsteypan franska, sem keypt hefur Opel, afhenti 2,28 milljónir eintaka sem er +2,9% aukning.

Daimler, með merki eins og Mercedes og Smart, er stærstur svonefndur lúxusbílasmiða með 1,41 milljón afhendinga, sem er 5,3%. Jókst sala þeirra í Kína um tæplega 30%.

Alls höfðu verið seldar 46,1 milljón bíla frá áramótum til júníloka, sem er 4,1% aukning frá sama tímabili í fyrra. Nær talan yfir einkabíla og léttra atvinnubíla.

mbl.is