Andstæðan við „hygge“

Danir eru þekktir fyrir að vera rólyndisfólk. Þeir hafa fullkomnað þá list að hafa það notalegt, og una sér hvergi betur en í yfirveguðum félagsskap góðra vina, með smurbrauð á diski, kaldan bjór í glasi og helst með djass í Bang & Olufsen græjunum.

Hver hefði haldið að landið sem fann upp „huggulegheit“ skyldi líka framleiða einhverja æðisgengnustu sportbíla sem finna má?

Flestum þætti alveg feikinægur kraftur í Ferrari eða Lamborghini, en Troels Vollertsen vildi eitthvað öflugra og villtara. „Árið var 2004 og tiltölulega fáir um hituna á ofursportbílaMarkaðinum. Troels var þess fullviss að væri hægt að gera betri sportbíl, og vildi smíða hann í Danmörku,“ segir Peter van Rooy.

Peter er markaðsstjóri danska ofurBílaframleiðandans Zenvo (www.zenvoautomotie.com) en þar á bæ þykir algjört lágmark að hafa liðlega þúsund hestöfl undir húddinu. Peter viðurkennir að Danmörk sé óvenjulegur staður til að framleiða bíla, hvað þá ofursportbíla, og ólíkt t.d. Koenigsegg, hinum megin við Eyrarsundið, standi Zenvo frammi fyrir því að engin hefð er fyrir bílaframleiðslu í Danaveldi, og enginn iðnaður sem sinnir bílaframleiðendum. „Það þýddi að Zenvo þurfti að fara þá leið að smíða megnið af íhlutunum innanhúss, frá vélinni yfir í yfirbygginguna.“

Troels stofnaði Zenvo formlega árið 2007 og tveimur árum síðar svipti fyrirtækið hulunni af sínum fyrsta fullskapaða bíl ST1; 1.688 kílóa óargadýri úr koltrefjum með 7 lítra, 1.089 hestafla V8 vél. Sjö ár liðu þangað til næsta módel leit dagsins ljós og árið 2016 frumsýndi Zenvo bílinn TS1 í Genf, í þetta skiptið með 5,8 lítra 1.104 hestafla V8 vél, og 100 kg léttari en ST1. Rétt eins og með ST1 var útlit TS1 hannað af Christian Brandt en hann starfaði á sínum tíma hjá Alfa Romeo og gott ef ekki má greina einhvern keim af sportbílum á borð við R8 og 4C í útlínum Zenvo.

Væri ósköp skiljanlegt ef lesendur gætu hugsað sér að eignast þennan merkilega danska bíl, en þá er líka eins gott að þeir hafi veirð duglegir að spara, því verðmiðinn á Zenvo er frá einni milljón evra – og er þá eftir að bæta við íslenskum tollum og gjöldum.

Fyrir fólk sem hefur reynslu af kraftmiklum ökutækjum

Kannski kemur það sumum á óvart að rekstur Zenvo er réttum megin við núllið. Fjöldaframleiðsla ST1 hófst árið 2011 en þó er varla hægt að tala um mikinn „fjölda“ því allir bílarnir eru handsmíðaðir og tekur langan tíma að púsla þeim saman. Voru aðeins framleidd fimmtán eintök af ST1 og ráðgert að árlega fæðist 5 eintök af TS1 í verksmiðju Zenvo í bænum Præstø sem er u.þ.b. 60 km suður af Kaupmannahöfn.

„Það er ákveðinn veikleiki hvað smíðin er mannaflsfrek og framtíðarverkefni að þróa nýja kynslóð Zenvo bíla sem væri hægt að framleiða í meira magni,“ segir Peter. Ekki vantar eftirspurnina og þurfa áhugasamir kaupendur að fara á biðlista. Þeir fáu útvöldu sem tekst að tryggja sér eintak fá eins góða þjónustu og hugsast getur: „Við fylgjum bílunum þangað sem þeir fara og finnum okkur samstarfsaðila á hverjum stað til að sinna reglubundnu viðhaldi og skoðunum. Þegar kemur síðan að stærri viðgerðum og yfirhalningu flýgur þrautþjálfaður bifvélavirki okkar til bílsins, hvert á land sem er.“

Kaupendurnir eru, eins og gefur að skilja, sterkefnaðir og með brennandi áhuga á bílum. „Hinn dæmigerði eigandi Zenvo er karlmaður á aldrinum 45 til 65 ára og á iðulega fyrir allgott safn af ofursportbílum. Þetta eru einstaklingar sem kunna að meta bíla í ofur-flokki og eru búnir að festa kaup á fleiri bílum þegar þeir fjárfesta í Zenvo. Margir sjá það sem sérstakan kost við þessa bíla hvað þeir eru fágætir, og vilja aka um á sportbíl sem er engum öðrum líkur,“ útskýrir Peter.

Þá kjósa flestir eigendur Zenvo að nota bílana sem n.k. leikföng, til að spana um kappakstursbrautir. „Við útbúum hvern bíl eftir óskum kaupandans, gerum enga tvo eins, og gætum t.d. innréttað TS1 til að henta til hversdagsnota, en hingað til hefur alltaf orðið ofan á að laga bílana að kappakstri.“

1.100 hestöfl eru ekkert grín

Er reyndar eins gott að eigendur Zenvo hafi verulega reynslu af kraftmiklum bílum, því dönsku tryllitækin kalla á færni og varkárni. Að hafa stjórn á þúsund hestafla vél er eitthvað sem ekki allir ráða við. „Þar sem þeir eru handsmíðaðir hafa allir bílar Zenvo sinn sérstaka persónuleika en þeir eiga það samt allri sameiginlegt að ökumaðurinn finnur góða tengingu við ökutækið og við veginn. Troels tókst það ætlunarverk sitt að þróa bíl sem fær adrenalínið til að streyma út í æðarnar og krafturinn fer ekki milli mála þegar setið er á bak við stýrið. Þetta er ökutæki sem býður upp á hreina og tæra akstursupplifun, og verður ökumaðurinn að gæta sín því bíllinn gerir nákvæmlega það sem honum er sagt og ekki sama hvernig svona öflugt ökutæki er notað.“

Verður Zenvo meira að segja að fara að engu óðslega þegar tilvonandi kaupendum er boðið að kynnast bílnum. „Við höfum farið þá leið að halda sérstaka viðburði þar sem við veitum viðskiptavinunum þjálfun og leiðsögn, látum atvinnumann í kappakstri sýna þeim hvernig á að fást við beygjurnar og smám saman færast nær og nær mörkum þess sem bílarnir okkar ráða við,“ segir Peter. „Það gengur eiginlega ekki annað en að kynna Zenvo með þessum hætti því á vegum úti tæki enga stund að missa ökuskírteinið ef kaupandinn hleypti lausu aðeins litlu broti af því sem bíllinn er fær um að gera.“

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »