Isuzu D-Max pallbíll ársins

Isuzu D-Max hefur verið valinn pallbíll ársins annað árið í …
Isuzu D-Max hefur verið valinn pallbíll ársins annað árið í röð hjá tímaritinu What Van?

Margverðlaunaði pallbíllinn Isuzu D-Max getur á sig blómum bætt því í vikulokin nýliðnu var hann útnefndur pallbíll ársins 2019 af hálfu bílablaðsins What Van? en viðurkenningar ritsins þykja eftirsóttar.

Er þetta annað árið í röð sem D-Max hlýtur útnefningu What Wan? Að þessu sinni hrósaði dómnefndin bílnum fyrir stílfagurt útlit, öflug kerfi og hljóðlátan akstur.

Þá hrósaði nefndin fágun bílsins og hagstæðum rekstrarkostnaði hins 164 hestafla dísilbíls sem þótti hafa yfirbragð vinnuhests yfir sér.

Vélin, sem er 1,9 lítra, uppfyllir Euro 6 mengunarstaðalinn án AdBlue viðbótarefna.

Isuzu D-Max er 3,5 tonna og getur borið eins tons arðfarm. Viðurkenning What Van? kórónar gott ár fyrir bílinn. Hann hefur þegar verið útnefndur „Áreiðanlegasti pallbíllinn 2018“ af tímaritinu Professional Pick-Up & 4X4, „Besti vinnuhesturinn“ af tímaritinu Trade Van Driver, „Besti pallbíllinn 2018“ af tímaritinu Scottish Field, „Pallmódel“ ársins 2018 af ritinu „On The Tools“ og loks „Pallbíll ársins“ hjá ritinu Commercial Fleet.

mbl.is