Látið konuna um aksturinn

Í vetrarfærð í skammdeginu er farsælast að fara varlega og …
Í vetrarfærð í skammdeginu er farsælast að fara varlega og halda ró sinni. mbl.is/Árni Sæberg

Miklar annir einkenna vikuna fyrir jólin og er umferðin þar engin undantekning. Talsmenn tryggingafélaga mæla með því að karlarnir láti eiginkonunni um aksturinn þessa vikuna því minni líkur sé á að þær lendi í óhöppum.

Í vikunni fyrir jól í fyrra kostuðu árekstrar bíla í umferðinni yfir 200 milljónir norskra króna, að sögn tryggingarfélaganna, eða langleiðina í þrjá milljarða íslenskra.  Skullu bílar saman um þúsund sinnum á dag hvern einasta dag vikunnar.

Talsmaður Tryg Forsikring segir við vefsetrið Hognar að engin ástæða sé til að ætla annað en að árekstrar verði jafn tíðir í ár, að óbreyttri hegðan í umferðinni. Segja þeir 22. desember ár hvert með verstu óhappadögum í umferðinni.

Í fyrra urðu 1.993 umferðarslys þann daginn og hljóðaði viðgerðarreikningurinn þann dag í fyrra upp á 37 milljónir norskra, um 500 milljónir íslenskra. Við stýri bílanna sátu í langflestum tilvikum karlmenn.  Samkvæmt tölum tryggingafélaganna eru karlar á aldrinum 35 til 50 ára langverstu sökudólgarnir í umferðinni 22. desember.    

„Karlmenn koma tvisvar sinnum oftar við sögu óhappa en konur. Þess vegna mælum við með því að konan aki bílnum þennan dag. Það er eins og þær eigi auðveldar með að halda ró sinni undir stýri,“ segir talsmaður Tryg.

mbl.is

Bloggað um fréttina