Jimny tilnefndur til tveggja heimstitla

Hinn nýi Jimny í aðstæðum sem hann kann vel við …
Hinn nýi Jimny í aðstæðum sem hann kann vel við sig í.

Nýr Jimny einn þriggja bíla í úrslitum í vali á þéttbýlisbíl ársins og bílahönnun ársins í heiminum 2019.

„Það er með stolti sem Suzuki tilkynnir að nýr Jimny er nú einn þriggja bíla í úrslitum jafnt í vali á „Þéttbýlisbíl ársins“ og „Bílahönnun ársins“ í heiminum hjá hinum árlegu World Car verðlaunum,“ segir í tilkynningu.

Jimny tekur við keflinu af Ignis og Swift sem á árunum 2017 og 2018 nutu mikillar velgengni og komust í þriggja bíla úrslit í flokknum þéttbýlisbíll heimsins. Suzuki er eini bílaframleiðandinn sem hefur komist inn á þriggja bíla listann í þessu vali þrjú ár í röð.

Þá er þetta í fyrsta sinn sem Suzuki framleiðir bíl sem kemur til greina sem Bílahönnun heimsins.

Úrslit í keppninni um framangreinda heiðurstitla verða tilkynnt 17. apríl næstkomandi á alþjóðlegu bílasýningunni í New York.

Keppinautar Jimny um þéttbýlistitilinn eru Hyundai AH2 Sentro, Kia Soul og Suzuki Jimny.

Keppinautar Suzukijeppans um hnossið hönnun ársins eru Jaguar I-Pace sem vann í fyrra og Volvo XC40.

mbl.is