Kúadella sem bílaeldsneyti

Kúakraftur knýr nokkra flutningabíla flutningafyrirtækisins Tine í Noregi.
Kúakraftur knýr nokkra flutningabíla flutningafyrirtækisins Tine í Noregi.

Umræðan um sjálfbærni hvers kyns aðgerða eða framferðis í samfélaginu getur farið í óvæntar áttir. Eins og til dæmis um notkun kúamykju sem eldsneytis á bíla.

Vart er hægt að hugsa sér meiri sjálfbærni en umbreytingu mykjunnar í eldsneyti. Og það er á góðri leið með að verða að veruleika því norska fyrirtækið Tine er að taka í notkun flutningabíla frá Volvo sem búnir eru svonefndum LBG-mótor sem gengur fyrir mykjuorku sem verður til við sérstaka umbreytingu kúadellunnar.

Að sögn fulltrúa Volvo í Noregi verður kúakrafts-flutningabíll laus við alla losun gróðurhúsalofts og drifrás hans kolefnajöfnuð.

Tine tók í síðustu viku við þremur af sjö ráðgerðum flutningabílum frá Volvo sem ganga fyrir fljótandi lífgasi, svonefndum kúakrafti. Með þá í notkun dregur verulega úr losun gróðurhúsalofts í virðiskeðjunni, frá kúnni úti á túni til mjólkurglassins á matarborðinu.

„Þetta er hringrásarhagkerfi í raun,“ segir fulltrúi flutningafyrirtækisins Tine. Hann leggur áherslu á að kaupin á lífgasbílunum frá Volvo séu liður í stefnu fyrirtækisins í sjálfbærnis- og umhverfismálum. Ætlun þess sé að vera laust við allt jarðefnaeldsneyti úr flutningastarfseminni fyrir 2025.

Úrgangur í verum sem vinna eldsneyti úr mykjunni er lífrænn og verður notaður sem áburður á tún. Summan af notkun mykjunnar verður minni losunarmengun í landbúnaði og samgöngum, samdráttur í notkun kemísks áburðar og síðast en ekki síst minni úðunar illgresiseyðis í akuryrkju og túnrækt. Kolefnaspor fyrirtækisins myndi og stórminnka.

Í umfjöllun um mál þetta á norskum atvinnubílavef segir fulltrúi Trine: „Með því að brúka mykju til framleiðslu bílaeldsneytis verður til einstök hringrás eigin framleiðslu endurnýjanlegrar orku. Mykja frá einni kú í bland við matarleifar gefur af sér lífgas sem duga myndi litlum fjölskyldubíl til 25.000 kílómetra aksturs. Árlega leggja okkar bílar að baki 52 milljónir kílómetra í þungaflutningum. Með öðrum orðum akstur sem krefðist mykjugass frá 15.300 kúm ef öllum bílum okkar yrði breytt til að nota það eldsneyti.“

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »